Stöndum saman er ágætt slagorð sem yfirvöld sóttvarna ættu að rifja upp nú

Þegar baráttan gegn kórónuveirunni hófst var það gert undir merkjum samstöðu og rík áhersla lögð á að þjóðin þyrfti að standa saman til að kveða niður óværuna. Það var mikilvægt og fólk var samstiga, fylgdi leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda og lagði sig fram um að árangur næðist sem fyrst. Ýmsir sigrar hafa unnist en veiran er þó enn að og stundum hefur sigri verið hrósað fullsnemma. Í ljós hefur komið að þeir sem mest eiga að vita búa engu að síður við takmarkaðar upplýsingar og þekkingu og það þarf svo sem ekki að koma á óvart. En meðal annars þess vegna er þýðingarmikið að mál séu rædd í þaula og útskýrt vandlega hvað þeir sem í forsvari eru telja sig vita og hvar óvissan liggur. Þetta á einkum við þau mál sem eðli máls samkvæmt hljóta að vera viðkvæmust, svo sem þau sem snúa að börnum.

Þess vegna er mikilvægt að allt sem snýr að bólusetningu barna sé rækilega útskýrt og að yfirvöld kalli eftir umræðu um hana en forðist ekki eða geri lítið úr áhyggjum þeirra sem hafa efasemdir um bólusetninguna eða þær aðferðir sem til stendur að beita við hana. Þetta er snar þáttur í að halda samstöðu meðal þjóðarinnar en ljóst má vera að mun minni samstaða er um bólusetningu barna en flesta aðra þætti sóttvarnaaðgerðanna. Lausnin á þessu er ekki að skella skollaeyrum við áhyggjunum heldur að ræða þær og taka tillit til þeirra eins og unnt er.

Meðal þess sem hvað helst hefur verið gagnrýnt er að bólusetningin fari fram í skólum þar sem börn geti orðið fyrir óþægindum ákveði foreldrar þeirra að þau skuli ekki bólusett. Umboðsmaður barna hefur kallað eftir því að bólusetningarnar fari ekki fram í skólunum og skólastjórnendur hafa lýst sömu sjónarmiðum.

Röksemdir sem fram hafa komið fyrir því að bólusetja börnin í skólunum eru fyrst og fremst hagkvæmnissjónarmið, þó að því sé neitað að þau ráði. Sú neitun er ekki til þess fallin að auka á trúverðugleika aðgerðarinnar svo augljós sem ástæða þess er ef skólarnir verða fyrir valinu.

Sóttvarnalæknir segir þá sem efast um að bólusetningar barna gegn kórónuveirunni eigi að fara fram í skólum landsins ekki gera það með hag barnanna að leiðarljósi. Það er býsna langt gengið að halda slíku fram svo ekki sé meira sagt og fjarri því í anda þeirrar samstöðu sem kallað hefur verið eftir.

Þá segir sóttvarnalæknir að ef ekki sé talið fært að bólusetja gegn kórónuveirunni í skólum þá geti engar bólusetningar farið fram þar. Er víst að svo sé? Eru aðrar bólusetningar sambærilegar við þá sem nú er rætt um fyrir börn? Vitaskuld ekki og enn verður að segja að slíkur málflutningur er ekki til þess fallinn að auka trúverðugleika aðgerðarinnar eða stuðla að sátt um hana í samfélaginu.

Athygli vekur að ráðherrar málefna barna og heilbrigðis hafa aðspurðir ekki viljað taka afstöðu í þessu máli. Heilbrigðisráðherra segir að það sé einfaldara að bólusetja í skólum, og staðfestir með því hagkvæmnisrökin, en bætir við að þekkt sé að fara með börn í bólusetningu á heilsugæslunni og að fólki líði vel með það. Hann segist vona að starfshópur finni lausn á þessu og vísar þessu að öðru leyti á heilsugæsluna, en vandinn er sá að þetta snýst ekki eingöngu um heilbrigði og bólusetningu heldur réttindi barna og hagsmuni þeirra í víðara samhengi. Þess vegna ber stjórnmálamönnum skylda til að taka afstöðu í málinu og forystu.

Það gildir ekki síður fyrir ráðherra barnamála sem getur ekki látið nægja að vísa málinu til heilbrigðisyfirvalda. Hann þarf að horfa á hagsmuni barna í heild sinni.

Brýnt er að börn geti átt sem eðlilegast líf þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Veiran hefur sem betur fer haft síður skaðleg áhrif á þau en hina eldri en þau geta engu að síður veikst og engum dettur annað í hug en að vilja verja heilsu þeirra. Heilbrigðisyfirvöld segjast telja það best gert með bólusetningum en mættu vera opnari fyrir umræðu og auknum upplýsingum um þau mál. Þau geta þó ekki með nokkru móti haldið því fram að heilsuvernd barna krefjist þess að bólusett sé í skólum landsins. Bólusetning á heilsugæslum eða annars staðar hefur sömu áhrif og öllum má ljóst vera hve vel gekk að bólusetja fullorðna utan vinnustaða þeirra svo að varla þarf að efast um að hægt sé að bólusetja börn utan skólanna.

Heilbrigðisyfirvöld, ekki síst yfirvöld sóttvarna, ættu að huga að því nú þegar þreyta og jafnvel óþol vegna sóttvarnaaðgerða hefur aukist, að rétta leiðin til að ná samstöðu er ekki að gera lítið úr gagnrýni eða þröngva óþægilegri aðstöðu upp á almenning að óþörfu. Nú þarf að leita sátta um aðgerðir og sýna að hlustað er á áhyggjuraddir.