[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Lana Wachowski. Handrit: Lana Wachowksi, David Mitchell og Aleksandar Hemon. Aðalleikarar: Keanu Reeves, Carrie-Anne Moss, Jonathan Groff, Yahya Abdul-Mateen II, Neil Patrick Harris og Jada Pinkett Smith. Bandaríkin, 2021. 148 mín.

Fyrsta Matrix-myndin, sem á íslensku hét Fylkið , var prýðisgóð og innihélt mörg eftirminnileg hasaratriði auk þess að bjóða upp á glænýja tæknibrellu. Kristsgervingurinn Neo, þ.e. Hinn nýi, leikinn af Keanu Reeves, vék sér undan byssukúlum vondra karla á meðan áhorfendur fóru heilan hring í kringum hann löturhægt. Brellan sú var framkölluð með fjölda myndavéla og nýmóðins tækni sem ég treysti mér ekki til að útskýra frekar í stuttu máli. Hasarinn var á köflum í anda Hong Kong-mynda, „slow-mo“-kúlnahríð og kúngfú-tilþrif, búningar og sólgleraugu skemmtilega hallærislegt. Sagði í myndinni af ungum forritara, Tomas Anderson, sem kemst að því að hann býr í sýndarheimi forrituðum af vélum sem fá orku sína úr fólki sem ræktað er í hylkjum. Uppreisnarleiðtoginn Morfeus býður honum tvo kosti, bláa eða rauða pillu. Önnur þeirra mun leiða Neo í allan sannleikann en með hinni getur hann haldið áfram að lifa í heimi blekkinganna. Hann velur auðvitað sannleikann og kemst að því að hann er frelsari mannkyns.

Tvær framhaldsmyndir voru gerðar, hvor hinni verri og endaði ævintýrið á því að Neo fórnaði sér fyrir mannkynið, líkt og Kristur forðum. Ástin hans eina, Trinity, var þá líka dáin og köttur úti í mýri, að því er virtist. En það var nú aldeilis ekki því nú, 18 árum eftir að síðasta myndin var í bíó, kemur sú fjórða. Kvikmynd sem enginn beið eftir nema kannski allra hörðustu aðdáendur Fylkisins. Var einhverju við þessa langloku að bæta, lokuna sem á endanum var orðin óskiljanlegt rugl með öllu? Nei, svo sannarlega ekki.

Ég fór því svo til væntingalaus á þennan fjórða kafla sem nefnist auðvitað Upprisa, eða Upprisur öllu heldur. Ekki furða, svo sem, þar sem frelsarinn dó í síðustu mynd. Keanu Reeves rís nú upp sem Tomas Anderson sem í byrjun myndar er gríðarsnjall leikjahönnuður, höfundur hinna gríðarvinsælu Matrix-leikja sem eru auðvitað þrír. Anderson virðist eiga erfitt með að greina mörk raunveruleika og hugarburðar og er í meðferð hjá sálfræðingi. Það er eitthvað undarlegt á seyði, segir Anderson, honum birtast sýnir. Stundum finnst honum eins og lífið sé ekki raunverulegt og að ekkert sé eins og það sýnist. Bingó! Rétt hjá þér, herra Anderson, eins og herra Smith myndi orða það.

Kvikindislegur yfirmaður Andersons greinir honum dag einn frá því að Warner Brothers, sem á leikjafyrirtækið, vilji nú fá fjórða Matrix-leikinn. Ekki hafi nú öllum þótt þörf á þeirri viðbót! Þetta er skondin vísun í kvikmyndina sjálfa og við tekur hringrás atburða þar sem Anderson situr hvern fundinn á fætur öðrum með misvitrum leikjahönnuðum, fundi sem virðast allir vera sami fundurinn nema hvað að fólk skiptir um föt. Sömu frasarnir koma upp, sömu hugmyndirnar. Þessi kafli minnir á Groundhog Day og er skemmtilega óvæntur. Getur verið að Matrix 4 verði frumleg eftir allt saman, að hún komi á óvart? velti ég fyrir mér. Að handritshöfundar hafi, eftir allt saman, eitthvert hugmyndaflug? Nei, því miður varð það ekki raunin.

Anderson hittir fyrir nýja útgáfu af Morfeusi, gleypir pilluna góðu og finnur hana Trinity sína sem nú heitir Tiffany og er gift, tveggja barna móðir. Sem fyrr eru hinir illu útsendarar jakkafataklæddir karlar með asnaleg sólgleraugu og um tíma virðist myndin vera dýrasta sólgleraugnaauglýsing allra tíma frekar en frásagnarkvikmynd því allir sem við sögu koma, góðir sem vondir, bera skrítin sólgleraugu.

Margt er vel gert, vissulega, enda ekki verið að spara peninginn og myndin gleður oft augað með sterkum litum og oft á tíðum fínum hasar. Einna flottust eru hópatriði þar sem mannmergð sækir að Neo og Trinity eins og uppvakningar. En þessi fjórði kafli Fylkisins er algjör andstæða þess fyrsta að því leyti að nánast ekkert kemur á óvart eftir fyrsta hálftímann eða svo. Þetta er endurtekið efni, lítið annað en þjónusta við aðdáendur. Myndin kolfellur í raun eftir áhugaverða byrjun og fer út í kunnugleg stef úr fyrri myndum. Eina ágæta hugmynd má þó finna sem snýst um tímastjórnun illskunnar sem öllu ræður í Fylkinu.

Reeves er að vanda stirður þegar kemur að töluðu máli en stendur sig ágætlega í hasarnum, þrátt fyrir að vera orðinn 57 ára. Carrie-Anne Moss fær úr litlu að moða en Neil Patrick Harris er skemmtilegur í hlutverki sálfræðingsins sem er ekki allur þar sem hann er séður. Yahya Abdul-Mateen II er svalur Morfeus en lítið meira en það og Jonathan Groff ágætur í hlutverki tilfinningasnauðs yfirmanns Neo sem, líkt og sálfræðingurinn, leikur tveimur skjöldum. Jada Pinkett Smith snýr aftur með fáránlegan ellifarða og skrúfar leiðindin upp í 11 með allt of langri ræðu sem engu máli skiptir fyrir framvindu sögunnar. Svo er þarna einhver fljúgandi vélskata sem ég efast um að nokkur viti hvaða hlutverki gegnir í sögunni nema þá kannski handritshöfundarnir þrír. Og er það sannarlega ekki það eina óskiljanlega í þessari óþörfu framhaldsmynd.

Innst inni var ég að vona að snilld fyrsta Fylkisins myndi aftur birtast í fjórða kaflanum, að annar af tveimur leikstjórum frummyndarinnar, Lana Wachowski, myndi koma okkur skemmtilega á óvart í þetta sinn. En nei, því miður gerir hún það ekki og vonandi verða myndirnar ekki fleiri. Lana, þetta er orðið gott.

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson