Hugað að sjúklingi á spítala í úthverfi Parísar. Vonandi verður bráðsmitandi en vægt ómíkrón-afbrigðið til þess að setja punktinn fyrir aftan það ástand sem ríkt hefur undanfarin tvö ár. Þá mun taka við heljarinnar uppgjör.
Hugað að sjúklingi á spítala í úthverfi Parísar. Vonandi verður bráðsmitandi en vægt ómíkrón-afbrigðið til þess að setja punktinn fyrir aftan það ástand sem ríkt hefur undanfarin tvö ár. Þá mun taka við heljarinnar uppgjör. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Playa del Carmen ai@mbl.is Þær deilur og sú tortryggni sem lita samfélagið í dag eiga ef til vill upphaf sitt í óvæntum niðurstöðum Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Sjónvarpsþáttur frá 1961 hjálpar okkur kannski líka að skilja hvað það er sem fór úrskeiðis.

Félagarnir Konstantin Kisin og Francis Foster hafa vakið verðskuldaða athygli með hlaðvarpinu Triggernometry. Þeir Kisin og Foster titla sig grínista en betra væri að lýsa þeim sem fluggáfuðum samfélagsrýnum og flinkum þáttastjórnendum. Í bestu þáttunum hafa félagarnir fengið til sín gesti af hægri vængnum til að ræða málin í rólegu en markvissu samtali þar sem kafað er á dýptina.

Fyrir viku setti Triggernometry í loftið stutt myndskeið sem sprengir alla skala, en þar útskýrir Kisin á óvenju skýran hátt hvað það er sem veldur að allstór hópur fólks er hikandi við að þiggja kórónuveirubóluefni. Engum hefur tekist að komast svona vel að kjarna málsins:

„Ímyndaðu þér að þú sért ósköp venjuleg manneskja árið 2016. Þú trúir flestu því sem fjölmiðlar segja þér; þú telur að skoðanakannanir endurspegli viðhorf almennings og þú treystir því að bæði læknar og vísindamenn séu óháðir í störfum sínum og þeim sé fyllilega treystandi. Þú ert ósköp vel meinandi manneskja sem fylgir reglunum og treystir stjórnvöldum,“ segir Kisin og fer svo yfir helstu atburði og uppákomur síðustu fimm ára:

„Hugsaðu þér svo þegar kjósendur velja að ganga úr ESB – nokkuð sem fullyrt var að gæti aldrei gerst því Brexit-fylkingin væri jaðarhópur fólks með kynþáttafordóma. Skoðanakannanirnar sem spáðu því að Brexit yrði ekki að veruleika reyndust kolrangar, og bæði sérfræðingarnir og álitsgjafarnir sem sögðu þér dag eftir dag að Brexit gæti aldrei gerst höfðu líka á röngu að standa,“ segir Kisin. „Ímyndaðu þér að skömmu síðar sé Donald Trump kominn í forsetaframboð og allir þeir fjölmiðlar sem þú hefur mest álit á fullyrða að hann muni tapa. Sumir sérfræðingar segja 99% líkur á að andstæðingur hans vinni. Hugsaðu þér hvað þú verður hissa þegar þú vaknar morguninn eftir kosningarnar og sérð að skoðanakannanirnar, sérfræðingar fjölmiðlanna og stjórnmálamennirnir sem þú treystir höfðu rangt fyrir sér enn eina ferðina.“

Svona heldur Kisin áfram: „Hvernig gat allt fólkið sem þú treystir til að halda þér upplýstum haft svona hrapallega rangt fyrir sér? Þau segja þér að það sé við Rússana að sakast: þeir beri bæði ábyrgð á Brexit og kjöri Trumps. Ímyndaðu þér að næstu þrjú og hálft ár haldi fjölmiðlar og stjórnmálamenn áfram að tönnlast á afskiptum rússneskra stjórnvalda. Þau draga upp mynd af því hvernig svindlið átti sér stað, segja frá uppljóstrurum og pissu-kynlífi [Trumps] með rússneskum vændiskonum. Mueller-skýrslan er á leiðinni og mun koma öllu á hreint. Hvað áttu þá að halda þegar í ljós kemur að afskipti erlendra stjórnvalda höfðu lítið sem ekkert að gera með Brexit og Trump.“

Heimur fullur af vondum mönnum með rangar skoðanir

Hvað tekur þá við? Skyndilega fullyrða allir fjölmiðlar að kynþáttafordómar séu vandinn, en þetta kemur flatt upp á flest okkar sem höfum sjaldan eða aldrei rekist á manneskju með fordóma fyrir öðrum kynþáttum, segir Kisin: „En sönnunargögnin birtast þér á sjónvarpsskjánum, og hugsaðu þér hvað þú verður órólegur við að sjá fréttir um að menn með MAGA-derhúfur hafi ráðist á svartan samkynhneigðan leikara [þ.e. Jussie Smollett], eða þegar þú sérð fréttir af skólastrákum með MAGA-derhúfur hæðast að öldruðum indíána. [...] Og dag eftir dag fjalla sérfræðingar og álitsgjafar um það sem gerðist og magna upp hjá þér reiði yfir þessu ástandi, og þú ferð að efast um hvort þú sért góð manneskja og hvort þú búir í góðu landi. En svo kemur í ljós að Jussie Smollet var að plata og það var aldraði indíáninn sem var að atast í skólastrákunum en ekki öfugt.“

Svona halda atvikin áfram, hvert á fætur öðru. Útúrsnúningur, blekkingar, áróður, rangfærslur og bull: allt í einu veit t.d. enginn fyrir víst hvort kynin eru tvö eða tvö hundruð og það virðist ekki leyfilegt að spyrja. Allt í einu er hefðbundin karlmennska orðin einhvers konar afbrigði af hættulegum geðsjúkdómi. Svo brýst veirufaraldurinn út, og bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar halda einu fram einn daginn en segja svo eitthvað allt annað þann næsta. Svo koma lokanirnar og allir taka höndum saman, og allt í einu er það ekki lengur óþarfi heldur skylda að nota andlitsgrímu – og fólkið sem setti reglurnar gerist jafnharðan uppvíst að því að brjóta þær. Svo er George Floyd myrtur, og um allan heim brjótast út mótmæli lituð af ofbeldi, þjófnaði og eignatjóni. Með logandi bíla og byggingar í bakgrunninum lýsa fjölmiðlar mótmælunum sem friðsamlegum, og heilbrigðisyfirvöld og stjórnmálamenn segja göfugan ásetning mótmælenda vega þyngra en smitvarnir.

Stóru tæknifyrirtækin byrja að ritskoða samfélagsumræðuna og sjónarmið sem stangast á við stefnu yfirvalda hverju sinni fá ekki að heyrast. Í aðdraganda nýrra forsetakosninga rata alvarlegar sögur af Hunter Biden í fréttirnar, en samfélagsmiðlar koma í veg fyrir að fréttin fái einhverja dreifingu og helstu fjölmiðlar taka höndum saman um að fullyrða að sögurnar séu uppspuni og ætlað að villa um fyrir kjósendum. Fljótlega eftir kosningar kemur í ljós að sögurnar af Hunter Biden voru sannar.

„Sama fólkið og sagði þér allar þessar sögur er sama fólkið og segir þér núna að bóluefnin séu örugg, allir verði að láta bólusetja sig, og þeir sem gera það ekki verðskuldi að vera annars flokks borgarar. Skilurðu núna af hverju sumir eru hikandi við að verða bólusettir?“ spyr Kisin.

Vitum við hvað við höfum eyðilagt?

Kisin greinir vel hvernig traustið til stjórnvalda og fjölmiðla hefur gufað upp. En traustið á meðal almennings hefur líka rýrnað. Samfélagið hefur klofnað í andstæða hópa sem virðast ekki með nokkru móti geta rætt málin og fundið heppilegan meðalveg. Annar hópurinn óttast veiruna og hinn hópurinn óttast að missa frelsið.

Haustið 1961 fór í loftið þáttur í bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni The Twilgiht Zone , sem fjallar um kjarnorkuvána en lýsir samt ágætlega því sem gerðist í samfélaginu eftir að faraldurinn fór á kreik.

Sumarið 1961 var allt á suðupunkti í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Krjústsjev krafðist þess að herlið bandamanna hypjaði sig tafarlaust úr vesturhluta Berlínar og hótaði að beita annars kjarnavopnum. Kennedy svaraði með því að vera í senn sveigjanlegur og fastur fyrir og tókst að ljúka deilunni með því að reisa múr til að skilja að Vestur- og Austur-Berlín. En hótanir Krústsjevs mögnuðu upp ótta bandarísku þjóðarinnar við kjarnorkustríð og til varð nýr iðnaður í kringum smíði kjarnorkubyrgja fyrir bandarísk heimili.

Þátturinn „The Shelter“ hefst á heimili Stockton-fjölskyldunnar. Þar eru vinir og vandamenn komnir saman til að halda upp á afmæli heimilsföðurins og í gleðskapnum berst í tal að hann hafi innréttað lítið sprengjubyrgi í kjallaranum.

Gleðin er rofin þegar þulur í útvarpinu tilkynnir að eldflaugavarnakerfi hersins hafi greint merki um að kjarnorkuflaugar séu á leiðinni. Fyrst stíast hópurinn í sundur og Stockton fjölskyldan leitar skjóls í byrginu, en svo snúa sumir gestanna aftur, óttaslegnir og örvæntingarfullir enda ekki búnir að koma sér upp sínu eigin byrgi. En Stockton-byrgið er bara með pláss og birgðir fyrir þrjá. Gestirnir grátbiðja heilmilisföðurinn um að hleypa sér inn en allt kemur fyrir ekki. Allir eru logandi hræddir um að lifa ekki af það sem er í vændum.

Karlarnir í hópnum sækja langa stöng sem þeir nota til að brjóta sér leið inn í byrgið. Og í þann mund sem þeir brjóta upp hlerann sem lokar byrginu heyrist tilkynning í útvarpinu: hættan er liðin hjá. Það sem leit út fyrir að vera kjarnorkuflaugar reyndust bara vera gervihnettir.

„Við skulum borga fyrir skemmdirnar,“ segir einn gesturinn, sauðslegur á svipinn.

Heimilisfaðirinn svarar með spurningu sem á vel við í dag: „Ætli nokkurt okkar átti sig raunverulega á hvað það er sem við höfum eyðilagt?“