EM 2020 Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson eru reyndir dómarar.
EM 2020 Jónas Elíasson og Anton Gylfi Pálsson eru reyndir dómarar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2022 Kristján Jónsson kris@mbl.is Dómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson eru á leið á EM karla í handknattleik sem fram fer 13.-30. janúar í Ungverjalandi og Slóvakíu. Enn sem komið er vita þeir ekki hjá hvaða þjóðum þeir eiga að dæma en dómurum er eins og jafnan raðað niður á leikina sjálfa með litlum fyrirvara.

EM 2022

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Dómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson eru á leið á EM karla í handknattleik sem fram fer 13.-30. janúar í Ungverjalandi og Slóvakíu. Enn sem komið er vita þeir ekki hjá hvaða þjóðum þeir eiga að dæma en dómurum er eins og jafnan raðað niður á leikina sjálfa með litlum fyrirvara.

„Við förum út á laugardaginn og eigum að mæta á fundi á mánudag, þriðjudag og miðvikudag. Þá verður fundað frá 8 til 16 alla dagana. Á miðvikudaginn fáum við að vita í hvaða riðil við förum. Þetta er nokkuð hefðbundið fyrirkomulag á mótum sem þessum. Stundum dæma menn allan tímann í sama riðlinum en stundum hafa menn dæmt í fleiri riðlum. Út af veirunni er líklegt að menn verði í sama riðlinum alla riðlakeppnina. Svo kemur í ljós eftir riðlakeppnina hverjir halda áfram í mótinu,“ sagði Anton þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.

Anton segir að vinnubrögðin í kringum mótin hafi farið batnandi í gegnum tíðina og reynt sé að gera umhverfið eins faglegt og hægt er varðandi dómarana.

„Menn hafa reynt eins og þeir geta að bæta vinnuumhverfið. Nú fáum við til dæmis aðgang að sjúkraþjálfurum ef á þarf að halda. Nokkuð sem ekki hefur verið áður. Hjá EHF [Handknattleikssambandi Evrópu] hafa menn komið til móts við ábendingar dómara um hvað megi betur fara. Það mjatlast hægt og rólega en það er vilji til að gera hlutina vel.“

Fundahöld í gegnum fjarbúnað

Anton bendir á að undirbúningurinn fyrir mót sé orðinn mun lengri en áður og kröfurnar miklar sem gerðar eru til dómaranna. Hvort sem það er líkamlegt ásigkomulag eða þekkingin á reglunum.

„Fjórir fundir hafa verið haldnir með dómurum í gegnum Teams og er þá fundað í fimm tíma í hvert skipti. Þar er farið yfir ýmislegt eins og áherslur á mótinu. Við byrjuðum í þessu í október og þetta er alveg nýtt. Við höfum tekið tvö reglupróf á netinu. Einnig fáum við æfingaprógramm og eigum að taka það allt upp og senda út. Það er fylgst mjög vel með mönnum. Hér heima höfum við verið að æfa á gervigrasvelli í frostinu vegna samkomutakmarkana. Aðstæðurnar gætu því verið betri en við reynum að gera gott úr þessu,“ segir Anton og ljóst er að allt verður gert til að halda veirunni í skefjum á EM.

„Landsliðið er komið í búbblu og við dómararnir erum komnir í hálfgerða búbblu. Eftir daginn í dag [í gær] verð ég heimavinnandi og loka mig af. Þetta hefur haft áhrif á okkar líf yfir hátíðirnar. Við fórum ekki í boð til að forðast smit og annað slíkt. Fyrirmælin frá EHF eru að halda sig heima eins og hægt er. Við fórum í PCR-próf á sunnudag, tökum annað á morgun og hið þriðja á föstudaginn. Við sendum þau út en tekin eru þrjú próf svo mótshaldararnir geti gengið úr skugga um að við séum örugglega ekki smitaðir.

Við verðum teknir í PCR-próf á tveggja daga fresti í mótinu. Meðan á mótinu stendur verðum við bara uppi á herbergi á milli leikja. Þegar við erum ekki að dæma förum við til dæmis ekki í höllina að fylgjast með leikjum. Maður finnur að það er mikil fagmennska á bak við þetta enda er ekkert grín ef það kæmi smit í dómarahópinn á fundi og hálfur hópurinn gæti fengið veiruna.“

VAR-tæknin nýtt

Anton segir áherslurnar í dómgæslunni svipaðar og síðustu árin. Mikil áhersla sé lögð á að dómararnir dragi ekki úr hraða leiksins.

„Lögð er svipuð lína og síðustu tvö til þrjú árin. Hornabrotin og barátta línumannsins er eitthvað sem er horft á. Einnig er reynt að gera leikinn hraðari með því að stöðva leikinn sem sjaldnast og láta hann fljóta. Gera leikina aðlaðandi fyrir áhorfendur. Við missum áhorfendur ef leikirnir verða of langir.

VAR-tæknin verður notuð í mótinu og við getum nýtt okkur það. Einnig verður hnappur fyrir þjálfara ef þeir vilja taka leikhlé og þá er enginn misskilningur varðandi það. VAR er jákvætt og hefur hjálpað í handboltanum. Menn hafa smám saman náð valdi á að nýta hana á sem bestan hátt. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að við dómararnir stoppum sjálfir leikinn og skoðum atvikið ef okkur þykir ástæða til.“

Sjöunda stórmótið

Anton er að fara á stórmót í sjöunda sinn hjá fullorðnum. Verður þetta í fjórða skipti hjá Jónasi en Anton dæmdi áður á þremur stórmótum með Hlyni Leifssyni.

Spurður hvort eitthvert mót sé eftirminnilegra en annað segir Anton svo ekki endilega vera.

„Maður hefur lent í öllum fjandanum á ferlinum en maður einblínir á það góða. Síðasta stórmót er yfirleitt minnisstæðast. Það var vissulega ógeðslega gaman að komast á Ólympíuleika og dæma undanúrslitaleik á HM. En ég spái ekki of mikið í það sem er liðið og reyni að horfa á næsta mót. Það er kannski klisja en við þurfum að vera einbeittir og eins vel á okkur komnir andlega og líkamlega og mögulegt er.“