Magnús Óli Magnússon, forstjóri og einn af stofnendum Innness.
Magnús Óli Magnússon, forstjóri og einn af stofnendum Innness. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innnes áformar að velta um 11 milljörðum á næsta ári. Forstjórinn segir launahækkanir áhyggjuefni.

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, stofnaði heildsöluna undir lok níunda áratugarins ásamt tveimur félögum sínum úr Hafnarfirði.

Veltan var tæplega 100 milljónir árið 1991 en áttfaldaðist að nafnvirði í 800 milljónir um aldamótin. Hún hefur síðan ríflega tífaldast að nafnvirði, og fimmfalt að raunverði, í um 10,5 milljarða á þessu ári.

Magnús Óli segir birgðastöðuna óvenjugóða um áramótin. Raunar þá bestu í sögu heildsölunnar.

Verðhækkanir á erlendum mörkuðum og hækkandi flutningskostnaður í kjölfar faraldursins hafi haft óveruleg áhrif á verð hjá Innnesi.

Nýjar leiðir lækka kostnað

„Við höfum náð að stíga ölduna og verið grimm á því að leita nýrra leiða til að draga úr kostnaði. Þessi þróun hefur komið misjafnlega illa við innflutning, og sömuleiðis útflutning, en eins og staðan er nú er hún ekkert gríðarlegt högg,“ segir Magnús Óli.

Magnús Óli kveðst hafa verulegar áhyggjur af launaþróun á Íslandi.

Nýjasta hækkunin, 17 þúsund á mánuði, þýði ein og sér að launakostnaður Innness hækki um 50 millj. með launatengdum gjöldum.

„Burtséð frá því hef ég áhyggjur af stöðu íslensks atvinnulífs varðandi samkeppni við útlönd. Ég held að við séum á hættulegum stað varðandi samkeppnishæfnina. Lægstu laun hér á landi eru þau hæstu í heimi,“ segir Magnús Óli.

Íslenskt atvinnulíf beri ekki svo háan launakostnað til lengdar.