[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Leitarbeiðnir vegna týndra ungmenna sem bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrra voru 158 talsins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Leitarbeiðnir vegna týndra ungmenna sem bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrra voru 158 talsins. Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem sinnir þessi verkefni af hálfu lögreglunnar, segir að beiðnirnar hafi ekki áður verið jafn fáar frá fyrsta heila árinu sem hann var í þessu starfi 2015. Mögulega má rekja það til Covid-19-faraldursins og eins gæti starf lögreglunnar og barnaverndar við leit að týndum ungmennum hafa leitt til fækkunar. Fjöldi leitarbeiðna hefur sveiflast nokkuð á milli ára og eins milli mánaða hvers árs.

„Við fengum 208 leitarbeiðnir árið 2020, árið 2019 voru þær 190 og árið 2018 komu 285 leitarbeiðnir og hafa aldrei verið fleiri,“ sagði Guðmundur.

Af leitarbeiðnunum í fyrra voru 93 vegna stúlkna og 65 vegna pilta. Að baki þessum leitarbeiðnum voru 52 einstaklingar, það er 25 stúlkur og 27 piltar. Það merkir að stúlkurnar týndust oftar en piltarnir.

Ungmennin sem leitað var að voru fædd á árabilinu 2003-2009 eða frá tólf ára og þar til þau náðu 18 ára aldri. Flest sem leitað var að í fyrra voru fædd 2005 eða á 16. ári.

„Börnin sem leitað var að í fyrra áttu lögheimili víða. Af þessum 158 beiðnum voru 134 vegna höfuðborgarsvæðisins. Hinar voru vegna barna utan af landi. Þau koma til höfuðborgarinnar til að fara í ýmiss konar meðferð eða fóstur og strjúka og þá lenda þau á borðinu hjá mér,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að jafnframt færu börn af höfuðborgarsvæðinu í meðferðarúrræði eða fóstur úti á landi og ef þau strykju þaðan lenti það hjá lögregluembættum á viðkomandi svæðum eða hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Ungmennum í þessum hópi sem glíma við alvarlegan vímuefnavanda hefur greinilega fækkað. Aftur á móti fjölgar þeim sem eiga í einhvers konar hegðunarvanda, glíma við skerðingar eða andleg veikindi,“ sagði Guðmundur. Í fyrra lést einstaklingur sem verið hafði í hópnum og var nýlega orðinn 18 ára.