Marga rak í rogastans þegar eigendur Íslandsbanka tilkynntu í október 2015 að þeir væru reiðubúnir að afhenda íslenska ríkinu eignarhlut sinn í bankanum. Eigið fé hans stóð þá í 185 milljörðum króna. Þetta virtist örlæti af nýrri stærðargráðu.

Marga rak í rogastans þegar eigendur Íslandsbanka tilkynntu í október 2015 að þeir væru reiðubúnir að afhenda íslenska ríkinu eignarhlut sinn í bankanum. Eigið fé hans stóð þá í 185 milljörðum króna. Þetta virtist örlæti af nýrri stærðargráðu. Staðreyndin var þó sú að ríkisstjórnin sem þá sat, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hafði sett kröfuhöfum íslensku bankanna afarkosti. Annaðhvort legðu þeir sitt af mörkum við afnám gjaldeyrishafta eða eignir þeirra yrðu skattlagðar með þeim hætti að mjög mundi svíða undan. Íslensku krónurnar urðu þá góð skiptimynt í augum hrægammanna og eftir stóð ríkissjóður með pálmann í höndunum og gjörbreytta skuldastöðu.

Í fyrra tókst svo loks að keyra í gegn sölu á 35% hlut í Íslandsbanka sem ríkissjóður átti þá að fullu. Var það mikilvægt skref fyrir ríkið og skattgreiðendur enda með öllu ótækt að tveir af þremur stærstu bönkum landsins séu í eigu yfirvalda. Og salan gekk glimrandi vel. Almenningur tók virkan þátt og afraksturinn varð 55,3 milljarðar í beinhörðum peningum fyrir ríkissjóð sem er skuldum vafinn eftir íturvaxið inngrip í efnahagslífið sökum kórónuveirunnar.

Yfirvöld hafa gefið það út að stefnt sé að sölu á eftirstandandi hlut ríkissjóðs í bankanum á næstu tveimur árum. Og er það vel. Virði bankans hefur hækkað talsvert síðan hann var skráður á markað samhliða sölunni á 35% hlutnum og í dag er hlutur ríkissjóðs metinn á ríflega 160 milljarða króna.

Nú þarf Bankasýslan, sem staðið hefur sig vel í söluferlinu hingað til, ásamt fjármálaráðuneytinu og öðrum þeim sem aðild eiga að framkvæmd málsins að halda vel og þétt á málum. Ekki er ástæða til að bíða lengi með næstu skref heldur nýta þann byr sem er í seglum hlutabréfamarkaðarins til þess að hámarka virði almennings fyrir „gjöfina“ sem kröfuhafarnir færðu sællar minningar.

En þessa árangursríku vegferð, sem líkleg er til að skila íslenska ríkinu yfir 200 milljörðum króna, sem nýta má í innviðauppbyggingu og niðurgreiðslu skulda, má nýta til þess að horfa til annarra verðmæta sem liggja í fórum ríkissjóðs en gætu vel, að hluta til eða í heild, verið í eigu einkaaðila. Það á t.d. við um flugvöllinn á Miðnesheiði. Best færi á því að einkaaðilar, stofnanafjárfestar svo dæmi sé tekið, kæmu að málum.