Anna Bjarnarson fæddist í Reykjavík 13. mars 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu, 22. desember 2021.

Foreldrar hennar voru Stefán Bjarnarson, f. 11.7. 1904 á Sauðafelli í Dölum, d. 20.3. 1976, og Stefanía Guðmunda Sigurðardóttir, f. 6.1. 1911 á Ísafirði, d. 26.2. 1974. Þau bjuggu á Fossvogsbletti 5, Reykjavík.

Bræður Önnu eru: Pétur M., f. 24.6. 1936, Sigurður, f. 13.2. 1938, Björn, f. 28.7. 1943, d. 16.6. 2016, og Jón, f. 6.7. 1951.

Anna giftist 7.7. 1967 Páli G. Björnssyni, f. 8.10. 1936, d. 2.2. 2016. Foreldrar Páls voru Garðar Björn Pálsson og Kristbjörg Líney Árnadóttir. Anna og Páll skildu 1986 en börn þeirra eru: 1) Ragnar, f. 14.3. 1968, kvæntur Guðrúnu Dröfn Ragnarsdóttur, f. 24.11. 1969, börn þeirra eru a) Ragnar Páll, f. 2.6. 1995, b) Ásgerður, f. 26.8. 1999, c) Þorgerður Harpa, f. 5.3. 2003. 2) Ásmundur Jón, f. 18.2. 1969, d. 8.9. 2002, var í sambúð með Guðbjörgu Eddu Árnadóttur, f. 17.3. 1969, þau slitu samvistum, sonur þeirra er a) Stefán Smári, f. 5.12. 1988. Ásmundur Jón giftist Sigurbjörgu Björgúlfsdóttur, f. 7.5. 1970, dætur þeirra eru b) Álfheiður Fanney, f. 6.4. 2000, c) Ásrún Ásta, f. 21.1. 2002.

Anna og Páll bjuggu fyrst á Ásbraut 5 í Kópavogi en fluttu síðan á Hellu á Rangárvöllum árið 1969, reistu sér hús 1973 í Freyvangi 22. Anna keypti litla húsið við Þrúðvang 25 árið 1994 og bjó þar eftirleiðis. Hún hafði mikið yndi af garðyrkjustörfum á lóðinni sinni við ána.

Anna vann lengstum við skrifstofu- og ritarastörf, við Iðnskólann í Reykjavík, Heilsugæsluna á Hellu og Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. Anna vann einnig hjá Kaupfélaginu Þór við Þrúðvanginn og var liðtæk við forfallakennslu við Grunnskólann á Hellu þegar á þurfti að halda fyrstu árin. Anna tók þátt í félagsstörfum á Hellu og var formaður kvenfélags Oddakirkju um skeið.

Útför Önnu fer fram frá Oddakirkju á Rangárvöllum í dag, 5. janúar 2022. Í ljósi aðstæðna fer athöfnin fram í kyrrþey. Duftker hennar verður jarðsett í Fossvogskirkjugarði að hennar ósk.

Nú er komið að því að við kveðjum hana Önnu ömmu. Þótt það hafi verið aðdragandi að kveðjustundinni er sárt að hugsa út í það að nú verða heimsóknir í rauða húsið með græna þakinu ekki fleiri.

Ömmu hafði reyndar farið mjög aftur á seinustu árum, þá sérstaklega árinu sem er að líða, og var erfitt að horfa upp á það svo ég minnist tímanna þar áður frekar.

Þegar maður mætti í heimsókn og amma var að leggja kapal og borða súkkulaðirúsínur eða úti með græna sólderið að laga til í garðinum.

Hún var alltaf til í að spila við mann og kenndi mér ýmis spil. Þær eru líka margar stundirnar sem við sátum við eldhúsborðið og spjölluðum en hún var alltaf til í gott spjall og maður gat rætt hvað sem er við ömmu.

Hún var hörkukona og dugleg og kom ekki annað til greina en að maður væri það líka og komst maður yfirleitt ekki heim án þess að hafa verið settur í einhver verk, eins og að hjálpa til í garðinum, hengja þvottinn út á snúru eða ryksuga. Manni þótti það nú misgaman á yngri árum en alltaf vildi maður samt hjálpa ömmu sinni.

Hún hafði mikla trú á manni og fann ég alltaf hve stolt hún var af mér þegar mér gekk vel. Þegar ég var flutt norður í skóla spjölluðum við saman í síma, símtöl sem ég varð að gefa mér tíma í þar sem þau gátu varað í margar klukkustundir og komst maður ekki endilega mikið að en alltaf fann maður fyrir áhuga og stuðningi og gaman að segja henni frá því sem ég var að brasa.

Anna amma var mikið fyrir að vera fín og koma orð eins og dama og lekkert ofarlega í huga þegar maður hugsar um hana. Þegar við frænkurnar vorum allar hjá henni sem krakkar var aðalsportið að setja upp tískusýningu og fengum við þá að setja upp hattana, slæðurnar, skartið hennar og fara í fínu skóna og þótti okkur og henni alltaf rosagaman.

Hún var alltaf ung í anda og kannski stundum einum of til þess að vera amma manns en í dag er ég mjög þakklát fyrir tímann minn með henni og á ég eftir að sakna hennar, en minningarnar um hana munu lifa áfram með mér út lífið þótt ég kveðji hana nú á þennan hátt.

Ásgerður Ragnarsdóttir.

Anna systir mín fæddist í Reykjavík 13. mars 1940. Foreldrar okkar voru Stefanía Sigurðardóttir frá Ísafirði og Stefán Bjarnarson ættaður frá Sauðafelli í Dölum. Anna ólst upp í Fossvoginum, sem var þá eins og sveit fyrir utan borgina. Anna fór í Laugarnesskólann og lauk þar unglingastigi og fór síðan í Gagnfræðiskóla Austurbæjar og lauk þaðan gagnfræðaprófi sem þótti ágætismenntun. Eftir það hóf hún störf hjá söluskálanum Nesti í Fossvogi sem þá þótti mikil nýjung á þeim tíma.

Eftir að hafa starfað fyrir Nesti hóf hún störf í Iðnskólanum í Reykjavík sem ritari og síðar starfaði hún um tíma sem ritari hjá Borgarspítalanum.

Árið 1967 giftist hún Páli Björnssyni húsasmíðameistara og bjuggu þau fyrstu árin í Kópavogi. Árið 1969 fluttu þau búferlum að Hellu í Rangárvallasýslu þar sem Páli var boðin vinna við að endurreisa Glerverksmiðjuna Samverk á Hellu. Árin liðu og með tímanum byggðu þau sér veglegt íbúðarhús og eignuðust tvo syni, Ragnar og Ásmund. Síðar skildi leiðir þeirra og ákvað Anna að hafa búsetu áfram á Hellu og festi sér kaup á ævintýralegu húsi á fallegum stað við árbakkann.

Þar undi hún hag sínum vel, ræktaði garðinn sinn og hafði gaman af. Árið 2002 varð hún fyrir miklu áfalli er yngri sonur hennar, Ásmundur, lést. Hafði áfallið mikil áhrif á líf hennar og gjörðir.

Anna starfaði við skrifstofustörf í 20 ár að Gunnarsholti í Rangárvallasýslu. Eftir því sem árin liðu hnignaði heilsu verulega og seinustu árin voru henni erfið. Seinustu mánuði í lífi hennar dvaldi hún á dvalarheimilinu Lundi þangað til hún lést 22. desember.

Hvíldu í friði.

Sigurður og Jóna.

Látin er Anna Bjarnarson, Þrúðvangi 25, Hellu. Hún fæddist í Reykjavík og þar ólst hún upp. Hún átti góða æsku með foreldrum sínum og bræðrum. Hafði hún gaman af að rifja upp minningar frá þeim árum.

Ung að árum flutti hún á Hellu, ætlaði að vera þar í 2-3 ár, en var þar til æviloka. Um 25 ár bjó hún í Þrúðvangi 25, við hliðina á mér, á bakka ytri Rangár, þar sem svanirnir syntu okkur til ánægju. Anna var mikill náttúruunnandi og ræktaði garðinn sinn vel meðan hún hafði krafta til.

Anna var félagi í kvenfélagi Oddakirkju og var formaður um tíma. Þökkum við henni samstarfið árin sem hún var með okkur.

Anna átti við veikindi að stríða á seinni árum ævinnar, þá missti hún bæði son og bróður, það var mikið áfall.

Fjölskyldunni allri sendi ég samúðarkveðjur.

Ég þakka Önnu öll árin okkar á árbakkanum, allar okkar góðu stundir.

Blessuð von, í brjósti mínu

bú þú meðan hér ég dvel,

lát mig sjá í ljósi þínu

ljóma dýrðar bak við hel.

(Helgi Hálfdánarson)

Hvíl í friði.

Guðríður Bjarnadóttir.

Elsku frænka.

Nú þegar þú ert farin í sumarlandið til Ása þíns sem þú svo sárt saknaðir hugsa ég mikið til þess þegar við öll skunduðum yfir heiðina austur fyrir fjall að halda upp á áttræðisafmælið þitt bara svona korter í Covid. Þakka ég fyrir þá flottu veislu. Bræðurnir fóru með flottar ræður og rifjuðust upp skemmtilegir tímar frá ykkar æsku. Þá var mikið rætt um hvað var glatt á hjalla í fertugsafmælinu þínu, en þá var ég bara lítil stelpa í bænum, en er þú varst sextug bauð Ragnar þér til mín til Hollands og áttum við mjög skemmtilega daga saman þar. Keyrðum út um allt og fórum yfir til Þýskalands. Man hláturinn enn og gleðina sem var í húsinu er þið voruð hjá mér, hentumst í bæinn og eitthvað var sjoppað. Er þetta minning sem ég elska að eiga með þér, sem og allar heimsóknirnar í rauða húsið við árbakkann. Stundum sendirðu mig heim með fatnað og fleira af þér, en ég var ekki há, grönn og glæsileg eins og þú. Rauður og bleikur voru þínir litir. Og man hvað þú varst alltaf þakklát fyrir allt sem Ragnar gerði fyrir þig. Eins og nú síðast áður en þú fórst yfir á Lund. Endurnýjaðir stofuna og borðstofustólana með bleikri sessu, engum öðrum líkt nema þér, elsku frænka.

Á ég margar góðar og hugljúfar minningar með þér og hafði gaman af að stoppa á leiðinni austur undir Eyjafjöllin.

Hvíl í friði, elsku frænka.

Þín

Helga.