Erla Bolladóttir
Erla Bolladóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn Ásgrímsson Oddur Þórðarson Erla Bolladóttir var að vonum ánægð með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi í gærmorgun úr gildi úrskurð um að endurupptökubeiðni máls hennar skyldi hafnað.

Þorsteinn Ásgrímsson

Oddur Þórðarson

Erla Bolladóttir var að vonum ánægð með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi í gærmorgun úr gildi úrskurð um að endurupptökubeiðni máls hennar skyldi hafnað.

Erla var sakfelld í Hæstarétti árið 1980 fyrir að hafa borið svokallaða Klúbbsmenn röngum sökum í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Kjarni rökstuðnings Erlu hverfist um að hún hafi verið beitt þrýstingi af lögreglumönnum til þess að bera ljúgvitni gegn Klúbbsmönnum.

„Ég vil bara óska Íslendingum til hamingju með þetta,“ segir Erla í samtali við mbl.is.

Eftir niðurstöðu héraðsdóms í morgun mun Erla því geta farið fram á endurupptöku máls síns, að því gefnu að ríkisvaldið áfrýi ekki niðurstöðunni til Landsréttar.

Áfangasigur

„Þetta er ekki fullnaðarsigur í þeirri merkingu að það er ekki búið að sýkna mig. En þetta er viðurkenning á því að það sé full þörf á að taka mitt mál upp að nýju.“

Spurð að því hvort hún sé vongóð um að nú fáist loks sýkna í enduruppteknu máli hennar, segir Erla að það verði að teljast líklegt. Hún vandar þó ráðamönnum landsins ekki kveðjurnar og segir að það kæmi ekki á óvart ef reynt yrði að halda málinu til streitu og áfrýja til Landsréttar.

„Þegar ríkið á í hlut þá getur allt gerst, því miður,“ segir hún.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu, sagði í samtali við mbl.is eftir að dómurinn féll: „Þetta er gríðarlegur áfangasigur fyrir Erlu. Hún hefur barist í þessu máli hetjulega undanfarna áratugi.“ Bendir hann á að nú sé búið að flytja málið ítarlega í héraðsdómi og leiða fyrir vitni og við það hafi afstaðan breyst og niðurstaðan sú að Erla hafi ekki gerst sek um rangar sakargiftir, sem var það sem hún var dæmd fyrir á sínum tíma.

Ragnar segir að í sjálfu sér geti ríkið áfrýjað dóminum til Landsréttar. Ef það sé ekki gert geti Erla lagt málið fyrir endurupptökudóm. „Ég tel hins vegar rétt að ríkisstjórnin ætti að ljúka öllum þessum málum sem nefnd eru Guðmundar- og Geirfinnsmál og hætta að berjast við fólk. Það ætti að ljúka þessu með samkomulagi sem fæli mögulega í sér bótagreiðslu,“ segir Ragnar, en í lok síðasta árs var íslenska ríkið dæmt til að greiða Guðjóni Skarphéðinssyni og dánarbúi Kristjáns Viðars Júlíussonar, tveimur af sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, samtals 610 milljónir.

Ragnar segir að ef ekkert komi frá ríkisstjórninni og ef málinu verður ekki áfrýjað sé skýrt að Erla muni fara fram á endurupptöku fyrir endurupptökudómi. Ef endurupptaka væri heimiluð færi málið svo beint fyrir Hæstarétt í formi sýknukröfu.