[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Novak Djokovic , besti tennisleikari heims í karlaflokki, fær tækifæri til þess að verja titil sinn á Opna ástralska meistaramótinu sem fram fer í Melbourne og hefst 17. janúar.

* Novak Djokovic , besti tennisleikari heims í karlaflokki, fær tækifæri til þess að verja titil sinn á Opna ástralska meistaramótinu sem fram fer í Melbourne og hefst 17. janúar. Reglur mótshaldara kveða á um að allir keppendur í Melbourne þurfi að vera bólusettir gegn kórónuveirunni en Djokovic hefur ekki gefið það upp. Reglur mótshaldara kveða hins vegar einnig á um að hægt sé að fá undanþágu frá bólusetningarskyldu með læknisvottorði, sem Serbinn mun nýta sér.

* Newcastle United hefur samið um kaup á fyrsta leikmanninum eftir að nýir eigendur eignuðust knattspyrnufélagið. BBC greindi frá því í gær að Newcastle og Atletico Madríd hefðu komist að samkomulagi um að bakvörðurinn Kieran Trippier færi á milli félaganna nú í janúar.

* Sinisa Bilic er genginn til liðs við Álftanes sem leikur í 1. deild karla í körfuknattleik, þeirri næstefstu á Íslandsmótinu. Álftanes verður fjórða liðið sem Bilic spilar með hérlendis frá því hann kom til landsins frá Slóveníu árið 2019. Hann lék með Tindastóli tímabilið 2019-2020. Á síðasta tímabili lék hann með Val en skipti yfir í Breiðablik í sumar.

*Handknattleikssamband Evrópu, EHF, tilkynnti í gær að leikmenn sem smituðust af kórónuveirunni þyrftu að bíða í fjórtán daga þar til þeim yrði veitt heimild til að taka þátt í leikjum Evrópumóts karla. Það þýðir einfaldlega að þeir sem smitast eftir komuna til Ungverjalands og Slóvakíu verða ekki meira með.

*Liverpool hefur formlega óskað eftir því að leik liðsins annað kvöld gegn Arsenal í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu verði frestað. Æfingu var frestað hjá Liverpool í gær vegna kórónuveirunnar en smitum hefur fjölgað innan félagsins.

* Leik Fjölnis og Breiðabliks í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, sem fram átti að fara í Grafarvogi í kvöld, hefur verið frestað. Í tilkynningu frá KKÍ segir að frestað sé vegna sóttkvíar og einangrunar hjá leikmönnum úr Breiðabliki. Áður var búið að fresta leik Hauka og Njarðvíkur í sömu deild sem átti einnig að fara fram í kvöld.

*Trae Young fór á kostum fyrir Atlanta Hawks þegar liðið tapaði með fimm stiga mun gegn Portland Trail Blazers í NBA-deildinni í körfuknattleik í Portland. Leiknum lauk með 136:131-sigri Portland en Young gerði sér lítið fyrir og skoraði 56 stig í leiknum, ásamt því að gefa fjórtán stoðsendingar. Er þetta í annað sinn á ferlinum sem Young skorar 50 stig eða meira í NBA. Hann skoraði 50 stig á móti Miami Heat í febrúar 2020.