[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Nú leggst maður á bæn og vonar að þessir háu herrar fari að sjá ljósið með okkur,“ segir Jóhannes Stefánsson, veitingamaður í Múlakaffi. Bóndadagur er 21.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Nú leggst maður á bæn og vonar að þessir háu herrar fari að sjá ljósið með okkur,“ segir Jóhannes Stefánsson, veitingamaður í Múlakaffi. Bóndadagur er 21. janúar næstkomandi og í eðlilegu árferði ættu fyrstu stóru þorrablót landsins að vera haldin helgina 15.-16. janúar. Miðað við núgildandi samkomutakmarkanir, sem gilda til 12. janúar, er þó útlit fyrir að svo verði ekki.

„Einhvern tímann verður þetta að enda, ég get ekki séð hvernig við veitingamenn eigum að fara inn í þorrann í þriðja skiptið í þessu hörmungarástandi. Það er ekki hægt að bjóða okkur þetta lengur,“ segir Jóhannes sem kveðst vonast til að létt verði á takmörkunum svo hægt verði að blóta þorrann með hefðbundnum hætti. Hann segir að ekki einasta komi núverandi takmarkanir illa við veitingamenn, landsmenn allir þurfi á því að halda að geta lyft sér upp. „Því segi ég bara við Willum Þór Þórsson, vin minn: Stattu í lappirnar!“

Jóhannes hefur staðið vaktina í yfir fjóra áratugi og alltaf boðið upp á þorramat. Hefð hefur myndast fyrir því að íþróttafélög og félagasamtök haldi fjölmenn þorrablót. Það fjölmennasta var haldið í Kópavogi áður en kórónuveirufaraldurinn skall á og voru gestir um 2.600 talsins. Í fyrra voru gerðar tilraunir með fjar-þorrablót og vinsælt var að kaupa þorrabakka eða -trog. Jóhannes segir að fólk geti að sjálfsögðu nálgast þorramatinn í Múlakaffi í ár sem endranær. „Þorramaturinn er búinn að vera í tunnu frá því í september,“ segir veitingamaðurinn en í Múlakaffi hafa jafnan verið framleidd um 10 tonn af þorramat ár hvert.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að sala á þorratengdum vörum hefjist á morgun, á þrettándanum, og fari svo á fullt í næstu viku. „Við erum spennt að sjá hvernig þessi hátíð þróast í ár. Það eru samkomutakmarkanir nú líkt og í fyrra en salan þá rauk upp um fjórðung miðað við árið á undan. Munaði þar mest um hjónabakkana sem við í Krónunni bjóðum upp á frá Múlakaffi,“ segir hún. Annars vegar eru það hjónabakkar með hefðbundnum súrmat á borð við hrútspunga og sviðasultu og hins vegar eru það svokallaðir nýmetisbakkar sem eru fyrir þá sem velja frekar hangikjöt, síld og rófustöppu.

Auk hjónabakkanna jókst mjög sala á öðrum þjóðlegum mat á þorranum í fyrra, svo sem soðnu saltkjöti og soðnum rófum, þorraflatkökum og ýmsu léttöli, og segir Ásta að komið verði til móts við skýrar óskir viðskiptavina um fjölbreytt úrval af þorramat í ár. „Við teljum að rétt eins og í fyrra verði minna um stærri þorrablót og því munu eflaust margir halda þessa hátíð heima hjá sér í smærri hópum. Ég leyfi mér að kalla þetta „Heima með þorra“ með vísan í aðra vinsæla hefð hjá landsmönnum síðustu misseri.“

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að svipað magn sé framleitt af þorramat hjá fyrirtækinu í ár og síðustu ár. „Miðað við hvernig smit eru að þróast held ég að menn hljóti að vera frekar vondaufir um að stór þorrablót verði haldin í ár. Þorramaturinn er þó vara sem á klárlega sinn dygga neytendahóp og okkur er heiður sýndur að þjónusta hann. Við erum einmitt að pakka þorramatnum þessa dagana. Það er allt að verða klárt svo fólk ætti í það minnsta að geta notið þorramatarins heima við og í smærri hópum.“