Benedikt Magnússon
Benedikt Magnússon
Ferðaþjónusta Um 750 fyrirtæki skiluðu jákvæðri rekstrarafkomu (EBIT) í íslenskri ferðaþjónustu í fyrra. Námu tekjur þeirra alls 48 milljörðum króna og afkoman 5,9 milljörðum. Á hinn bóginn skiluðu 1.488 félög neikvæðri rekstrarafkomu á sama mælikvarða.

Ferðaþjónusta

Um 750 fyrirtæki skiluðu jákvæðri rekstrarafkomu (EBIT) í íslenskri ferðaþjónustu í fyrra. Námu tekjur þeirra alls 48 milljörðum króna og afkoman 5,9 milljörðum.

Á hinn bóginn skiluðu 1.488 félög neikvæðri rekstrarafkomu á sama mælikvarða. Tekjurnar námu 98 milljörðum og var afkoman neikvæð um 33 milljarða króna.

Þetta kemur fram í skýrslu um stöðu ferðaþjónustunnar sem KPMG vann fyrir Ferðamálastofu.

Minnkuðu um 46 milljarða

Benedikt Magnússon, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG og einn skýrsluhöfunda, segir að samanlagt hafi rekstrarafkoma (EBIT) greinarinnar verið neikvæð um 26,5 milljarða á árinu 2020 en rekstrarafkoman hafi þá dregist saman um 46 milljarða króna. Þá hafi EBITDA greinarinnar verið neikvæð um sjö milljarða króna og afskriftir numið 19,6 milljörðum króna.

Niðurstaða KPMG sé að aðgerðir stjórnvalda til að milda höggið af kórónuveirufaraldrinum hafi sennilega numið allt að 25 milljörðum árið 2020 og þannig komið í veg fyrir mun meira tap.

„Við horfum svolítið á EBIT af því að sum félög eiga fasteign eða tæki en önnur leigja þau. Til að félögin séu samanburðarhæf teljum við rétt að taka tillit til afskrifta.

Það eru jákvæð tíðindi að svo mörg fyrirtæki skuli þó hafa skilað jákvæðri afkomu. Það hefur sitt að segja að mörg félög eru jöfnum höndum í viðskiptum við innlenda og erlenda viðskiptavini.

Innlend eftirspurn vó þungt

Til dæmis juku bílaleigur við langtímaleigu og gististaðir á landsbyggðinni, sem hafa reynslu af því að aðlaga sig að mikilli árstíðarsveiflu, nutu góðs af innlendum ferðamönnum á sumarmánuðum. Þá naut hluti fyrirtækja í veitingaþjónustu góðs af öflugum innlendum markaði í faraldrinum,“ segir Benedikt. baldura@mbl.is