[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tæplega 80% almennra lækna eru mjög ósammála eða frekar ósammála fullyrðingunni að Landspítali sé aðlaðandi vinnustaður. Rúmlega 40% eru mjög ósammála eða frekar ósammála um að Landspítali sé framtíðarvinnustaður sinn.

Tæplega 80% almennra lækna eru mjög ósammála eða frekar ósammála fullyrðingunni að Landspítali sé aðlaðandi vinnustaður. Rúmlega 40% eru mjög ósammála eða frekar ósammála um að Landspítali sé framtíðarvinnustaður sinn.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem Berglind Bergmann gerði fyrir Félag almennra lækna og greint er frá í Læknablaðinu. Berglind er fyrrum formaður stjórnar FAL og situr nú í stjórn. Niðurstöðurnar byggja á svörum rúmlega 180 almennra lækna. 65% þeirra starfa nú á Landspítala, 15% á heilsugæslu og 12% eru komin í sérnám erlendis.

Yfirvinna án greiðslu

Samkvæmt niðurstöðunum hafa 21,5% almennra lækna mjög oft upplifað kulnunareinkenni á síðustu 12 mánuðum. Önnur 22% hafa oft upplifað þau. Samtals finna því nærri 44% almennra lækna oft eða mjög oft fyrir kulnunareinkennum. 25% eru því frekar eða mjög sammála að hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi. Fram kemur í niðurstöðunum að yfir 92% almennra lækna meti það sem svo að þeir vinni yfirvinnu í klukkutíma eða meira á viku án þess að laun komi fyrir.

Í samtali við Læknablaðið segir Berglind að tæp 15% læknanna hafi íhugað nær daglega að hætta á Landspítala, 17% hafi íhugað það vikulega og tæp 15% einu sinni í mánuði. Þannig hafi tæpur helmingur lækna sem tóku þátt í könnuninni íhugað í það minnsta einu sinni í mánuði að hætta. „Það væri slæmt fyrir Landspítala að missa þetta fólk,“ er haft eftir Berglindi í Læknablaðinu. Könnunin nú sýni að álag og vinnuumhverfi stýri upplifun almennra lækna.

Fram kemur í greininni að 34% almennra lækna telji sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, kynbundinni mismunum, ofbeldi og/eða einelti. Rúm 8% almennra lækna telja sig hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi í starfi sínu. Algengast er að það hafi verið af hendi sjúklings. Rúm 17% almennra lækna segja að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi, oftast af hálfu sjúklings.