Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Alls bárust Vinnumálastofnun níu tilkynningar um hópuppsagnir á öllu nýliðnu ári þar sem 497 manns var sagt upp störfum.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls bárust Vinnumálastofnun níu tilkynningar um hópuppsagnir á öllu nýliðnu ári þar sem 497 manns var sagt upp störfum. Engar tilkynningar bárust um hópuppsagnir í seinasta mánuði ársins samkvæmt yfirliti sem Vinnumálastofnun hefur tekið saman.

Fram kemur að flestir sem misstu vinnuna í hópuppsögnum í fyrra störfuðu í flutningum, 253 alls eða 51% þeirra sem sagt var upp störfum í hópuppsögnum á seinasta ári.

84 misstu vinnuna í fiskvinnslu, 57 í sérfræðistarfsemi, 55 sem misstu vinnuna höfðu starfað í fjármála- og vátryggingastarfsemi og 48 störfuðu í verslun.

„Um 77,5% tilkynntra hópuppsagna á árinu 2021 voru á höfuðborgarsvæðinu, um 10,5% á Suðurnesjum, 6,4% á Vesturlandi, og 5,6% á Norðurlandi eystra,“ segir í samantekt stofnunarinnar.

469 þeirra hópuppsagna sem tilkynntar voru í fyrra komu til framkvæmda á seinasta ári en 28 koma til framkvæmda á yfirstandandi ári. Flestar hópuppsagnirnar áttu sér stað í júnímánuði, eða 287, sem eru 57,7% allra hópuppsagna á árinu. Samtals hefur 21.846 manns verið sagt upp í hópuppsögnum á tímabilinu frá 2008 til 2021 samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar. Flestir misstu vinnuna á árinu 2020 eða alls 8.789 manns. 5.074 misstu vinnuna á ári fjármálahrunsins 2008 og 1.780 á árinu 2009. Fæstir misstu vinnuna í hópuppsögnum á árinu 2014 eða 231 einstaklingur.