Elín H. Lúðvíksdóttir fæddist á Akureyri 6. september 1934. Hún lést á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki 15. desember 2021.

Hún var dóttir hjónanna Guðna Lúðvíks Jónssonar bifvélavirkja frá Tjörnum í Eyjafirði, f. 26. apríl 1909, d. 14. janúar 1984, og Sigurbjargar Guðmundsdóttur, húsmóður og verkakonu frá Dæli í Fnjóskadal, f. 13. maí 1907, d. 22. desember 1998. Þau bjuggu allan sinn búskap á Akureyri, byggðu sér hús í Hríseyjargötu 19 og síðar í Rauðumýri 16. Systkini Elínar voru: Gunnar Lúðvíksson, f. 27. júní 1932, d. 12. janúar 2017, Laufey Aðalheiður Lúðvíksdóttir, f. 28. ágúst 1933, og Svava B. Lúðvíksdóttir, f. 28. febrúar 1939, d. 23. mars 2018.

Þann 20. nóvember 1954 giftist Elín Guðmundi Lúðvík Árnasyni, f. 4. apríl 1930, frá Hafnarhólmi við Steingrímsfjörð, skipstjóra og síðar hafnarverði, d. 15. júlí 2001. Elín og Guðmundur bjuggu lengst af á Sauðárkróki. Eftir að hafa verið heimavinnandi sjómannskona í yfir 20 ár fór Elín út á vinnumarkaðinn og vann fyrst sem talsímavörður hjá Pósti og síma á Sauðárkróki og síðar hjá Kaupfélagi Skagfirðinga þar sem hún vann í móttökunni og svaraði í símann á skiptiborði Kaupfélagsins. Eftir andlát Guðmundar flutti Elín í Kópavoginn þar sem hún bjó til 2016 er alzheimersjúkdómurinn tók af henni völdin og hún fór á Dvalarheimilið á Sauðárkróki. Vinur hennar í Kópavoginum til margra ára var Páll Kristjánsson skipstjóri, f. 12. desember 1937, d. 13. desember 2018.

Börn Elínar og Guðmundar eru: 1) Sigurbjörg þroskaþjálfi, f. 26. febrúar 1955, gift Þorsteini Steinssyni fyrrverandi sveitarstjóra. Þeirra börn eru Guðmundur Vignir, Ríta Björk og Sandra Lind. 2) Anna Jóna leikskólastjóri, f. 6. júlí 1962, unnusti Tómas Hrafn Guðjónsson verslunarstjóri. Börn hennar og fyrrverandi eiginmanns, Finnboga Alfreðs Baldvinssonar framkvæmdastjóra, eru Fjölnir, Björg og María. 3) Pétur sjómaður, f. 6. júlí 1964, kvæntur Mayeth P. Gudmundsson. Barn þeirra er Aimee Áslaug Gudmundsson. Sonur Péturs og Jóhönnu Kolbeinsdóttur er Kolbeinn Skagfjörð. 4) Elín Berglind leikskólakennari, f. 11. desember 1965, gift Trond Olsen bakara. Börn þeirra eru Ragnar Freyr og Elín Anna. 5) Birkir LG Jullum tónlistarmaður, f. 20. desember 1969, kvæntur Sössa Jullum, kokki og athafnakonu. Dætur hans eru Lillý Ásrún og Felicia. Langömmubörnin eru sjö: Tinna Ýr, Emma Ýr, Anna Rakel, Hildur Katrín, Margrét Birta, Anna Lilja og Særún Sjöfn.

Elín verður jarðsungin frá Sauðárkrókskirkju í dag, 5. janúar 2022, klukkan 14. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verður athöfninni streymt á facebooksíðu Sauðárkrókskirkju.

Hlekkur á streymi:

www.facebook.com/saudarkrokskirkja

www.mbl.is/andlat

Mamma var lítil, nett og kvik í hreyfingum en stór og mikill persónuleiki. Hún var sjálfstæð og óhrædd að takast á við þær áskoranir sem lífið bauð upp á. Mamma stjórnaði heimilinu og hennar reglur voru lög. Við lærðum það snemma að það er bara einn skipstjóri á hverju skipi, pabbi á sjónum en í landi réði mamma. Trúi því hver sem trúa vill.

Mamma hafði gaman af þegar maður einn sagði við hana „þú átt ekkert í þessum krökkum, meiri andskotans frekjan í honum Guðmundi“ en mamma átti heilmikið í okkur öllum, kannski ekki útlitið en einurðin, útsjónarsemin, tónlistin og listfengið er frá henni komið.

Mamma var mjög frændrækin, henni fannst best að vera með fólkinu sínu. Mamma var í Kvenfélagi Sauðárkróks og tók virkan þátt í starfinu. Hún fór sínar eigin leiðir, lét ekkert stoppa sig í því sem hana langaði að gera. Hún fór í jógakennaranám á sjötugsaldri og stundaði jóga flesta morgna. Hún ferðaðist um allan heim og var alltaf til í ferðalag.

Tvisvar fór mamma með pabba að sækja skip. Fyrst til Frakklands þegar Hegranesið var sótt og svo til Japans að sækja Drangey. Í Japan komst mamma nánast í himnaríki, vá, skóbúðirnar voru fullar af skóm sem pössuðu henni! Mamma keypti sér nokkur pör af skóm enda var nóg pláss í skipinu!

Oft var haft á orði „við erum ekki á skipi núna“ þegar pabba ofbauð farangurinn. Þegar við vorum að byggja í Birkihlíðinni langaði mömmu að hafa eldhúsborðið áfast við eldhúsbekkinn. Smiðirnir frá Borginni svöruðu því til að það væri eins og að gefa rollum á garðann!

Árið 1968 flutti fjölskyldan á Sauðárkrók. Fyrsta sumarið á Króknum fór mamma átta sinnum inn á Akureyri. Mamma var músíkölsk, síðasta hljóðfærið hennar var harmónika. Victoría litla fylgdi mömmu hvert sem hún fór og hún spilaði á hana sér og öðrum til mikillar ánægju. Svona var mamma, hún lét ekkert stoppa sig.

Eftir að pabbi dó flutti mamma í Kópavoginn. Hennar lán var að kynnast Palla og saman ferðuðust þau mikið. Þau voru miklir félagar og nutu þess að vera saman. Við mamma áttum ekki alltaf skap saman, stundum mættust stálin stinn, en með árunum lærðist okkur að hemja skap okkar og við áttum margar góðar stundir saman.

Þú varst frábær amma og þín er minnst með mikilli hlýju, gleði og þakklæti. Barnabörnunum fannst gaman að fara í jóga, spjalla, spila og þvælast um með þér.

Mamma hafði mikinn húmor og var mjög hláturmild. Síðustu árin bjó mamma á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki, starfsfólki deildarinnar verður vart fullþökkuð sú hlýja, væntumþykja og virðing sem henni og fjölskyldunni var sýnd.

Ég fæ seint fullþakkað mömmu fyrir seigluna þegar hún lét mig læra heima og bókstaflega tróð náminu inn í hausinn á mér. Í þá daga var ekki til lesblinda eða námsörðugleikar, án mömmu hefði ég ekki komist þangað sem ég er í dag. Þú lést mig ekki komast upp með neitt annað en að læra heima þrátt fyrir mótþróa, fýlu og væl.

Takk fyrir samfylgdina mamma. Ég trúi því að þú sért með fólkinu þínu, hver veit nema það sé tekið í spil, sungið eða dansað við og við.

Þín

Berglind.

Elsku mamma, þegar ég hugsa um þig er mér ást og þakklæti efst í huga. Þú varst góð mamma, mjög smekkleg og smart og mjög listræn sem sést í öllum fallegu myndunum sem þú málaðir. Þú varst líka mjög tónelsk, spilaðir á gítar þegar við vorum lítil og við sungum með þér og allt tekið upp á segulband. Þú spilaðir á píanó og harmonikku og varst í harmonikkusveit. Þú varst sjómannskonan sem gekk í öll verk og stýrðir heimilinu af miklum myndarskap. Pabbi úti á sjó að afla heimilinu tekna og þú sást um allt annað. Þú varst líka alltaf nýmóðins og hafðir gott auga fyrir fallegu umhverfi. Þú hafðir gaman af að dansa og þið pabbi fóruð mikið á böll. Þegar þú fluttir suður fórstu líka mikið út að dansa og þá með eldri borgurum.

Þú varst oft á ferðinni milli landshluta og naust þess að keyra enda góður ökumaður. Þú varst aðalbílstjóri fjölskyldunnar og varst örugglega eina húsmóðirin á Króknum sem var bílstjóri nr. 1. Einu sinni sem oftar varstu á leiðinni suður á Lödunni og misstir hana út af í hálku. Þá dreif þar að karlmenn sem buðu þér hjálp og setja keðjur undir bílinn. Þú afþakkaðir hjálpina og sagðir þeim að þú værir vön að bjarga þér og sæir sjálf um að setja keðjurnar undir.

Þú elskaðir ferðalög og það var sannarlega ferðalag lífs ykkar pabba að sækja Drangey SK 1 til Japans árið 1973. Þið tókuð mikið af slides-myndum og ættingjar og vinir fengu gjarnan tveggja tíma sýningu. Þú varst líka dugleg að heimsækja mig árin sem ég bjó í Noregi og Þýskalandi. Hjálpaðir mér við að sauma gardínur og dúka. Við fórum oft á kaffihús, kíktum í búðir, steiktum kleinur og þú kenndir mér að búa til uppáhaldsmarmelaðið þitt. Uppskrift sem þú fékkst úr Þjóðviljanum og gafst nafnið komma-marmelaði.

Þú tókst virkan þátt í starfi Kvenfélags Sauðárkróks og margar skemmtilegar orlofsferðir fórstu með vinkonum þínum bæði innan- og utanlands.

Það var alltaf svo notalegt hjá þér og hvergi betra að vera. Ömmubörnin nutu þess að vera með þér og þú treystir þeim fyrir ýmsum verkefnum og leyfðir þeim að gera hluti sem þau voru ekki vön að gera heima hjá sér.

Fyrir þig var það líkn að losna úr fjötrum alzheimersjúkdómsins sem rændi þig öllu sem þér var kært. Eftir andlát pabba áttir þú nokkur yndisleg ár í Kópavogi þar sem þið Palli vinur þinn ferðuðust mikið saman.

Það var svo í febrúar 2016 að þú komst inn á deild 3 á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki og þar leið þér vel. Hugsað var um þig af einskærri alúð og hlýju.

Fram að Covid-19 fórum við systur reglulega upp á deild 3 þar sem við sungum og dönsuðum með heimilisfólkinu. Þetta voru yndislegar stundir sem gáfu okkur líka mikið. Þarna fengum við að sannreyna mátt tónlistarinnar gagnvart heilabilun. Fólk með málstol söng með og kunni alla gömlu textana. Þú spilaðir á harmonikkuna meðan þú gast.

Ég geri orð úr textanum „Mamma mín“ með Ellý Vilhjálms að mínum: „Elsku hjartans mamma mín, þín minning er svo kær.“ Ég veit að pabbi og aðrir ástvinir taka vel á móti þér hinum megin.

Takk fyrir allt.

Þín

Anna Jóna.

Komið er að leiðarlokum! Í dag kveðjum við elskulega tengdamóður mína Elínu H. Lúðvíksdóttur. Ellu kynntist ég fyrst þegar við Sibba fórum að skjóta okkur saman. Hún tók mér strax opnum örmum, þegar ég kom feiminn heim í Birkihlíð 21, til þess að hitta Sibbu, frumburð þeirra hjóna, Guðmundar og Ellu. Alla tíð síðan höfum við átt saman gott og farsælt samband.

Ella hafði ákaflega gaman af því að ferðast um landið og eigum við margar skemmtilegar minningar úr ferðalögum með henni og eiginmanninum Guðmundi, sem var skipstjóri á Drangey Sk-1. Farið var í fjallaferðir, útilegur, veiðiferðir og ættingjar sóttir heim. Minningarnar um allar þessar ferðir eru einungis góðar og tilhugsunin um þær vekur upp það góða og skemmtilega í sálartetrinu.

Ella hafði einnig ákaflega gaman af tónlist og spilaði á píanó, gítar, munnhörpu og harmonikku. Ánægulegt var að njóta tónlistarinnar með henni og heyra hversu vel það lá fyrir henni að spila hin mismunandi lög, sem hún hafði gaman af. Tónlistin gaf henni alla tíð mikið og einnig þeim sem í kringum hana voru, hvort sem þeir voru ungir eða aldnir. Glaðværð hennar gaf manni mikið og létti lund, sem er svo gott á hverjum tíma.

Hljóðfærin voru ekki það eina sem hún spilaði á. Margar voru stundirnar þar sem við sátum saman og spiluðum á venjuleg spil. Þar var hún alltaf ansi klók og var ekki laust við að maður ímyndaði sér að einhver brögð væru, á stundum, með í för. Aðalatriðið í þessu öllu var þó ekki hver stóð uppi sem sigurvegari á hverjum tíma heldur þær góðu stundir sem við áttum saman við spilaborðið með fjölskyldunni og fjölskylduvinum.

Hún hafði einnig gaman af dansi og voru ófá böllin sem við fórum saman á með ykkur hjónum. Maður kom ekki að tómum kofunum þegar dansinn var annars vegar, polki, ræll, vals, skottis eða hvað sem nefnt var, allt lá þetta vel fyrir henni og margar ánægjustundir áttum við saman við iðkun dansíþróttarinnar. Sérstaklega er mér minnisstætt þegar við fórum öll saman út á Skaga í félagsheimili heimamanna, þar sem flestir ábúendur á Skaga voru mættir og í för með okkur voru einnig Lauga og Auður ásamt mönnum sínum Árna og Bjarna. Þar var nú aldeilis dansað og held ég að ekki sé ofsögum sagt að nær allir sem voru í húsinu hafi verið á gólfinu að dansa frá því að byrjað var að spila og þar til skemmtun lauk. Þvílík skemmtun, enda höfum við oft rifjað upp gleðina frá þessari ferð. Síðast dansaði ég við Ellu á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Hún hafði þetta allt í sér þó að glíman við Alzheimer-sjúkdóminn væri erfið.

Elsku Ella, ég vil þakka þér fyrir öll góðu árin sem við höfum átt saman og gleðina sem þú gafst mér og fjölskyldu minni. Ég veit að Guðmundur mun taka vel á móti þér efra og þú munt svífa dansandi og glöð inn í eilífðina.

Minningin um þig verður ávallt sterk í hugum okkar sem eftir lifum. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þinn vinur og tengdasonur

Þorsteinn Steinsson

og fjölskylda.

Elsku amma. Takk fyrir allar góðu stundirnar, fyrir allan hláturinn, tónlistina og spilamennskuna. Takk fyrir að fara þína leið, og með því sýna okkur í verki að við gætum svo sannarlega farið okkar. Þú varst svo góð og hlý amma, ljúf og róleg en hafðir alltaf eitthvað fyrir stafni; sem í minningunni var alltaf ævintýri, sama hversu hversdagslegt það var. Ég man svo sterkt eftir litlum heimilisstörfum sem þú settir mig í, og ég var svo stolt af að fá það mikla ábyrgðarhlutverk að þurrka af litlu hlutunum í glerskápnum; sem fyrir mér voru gersemar úr heimi sem ég vissi enn ekkert um – og svo fylgdu sögurnar um hvaðan hlutirnir voru. Þetta hefur eflaust kveikt á sérstakri ást minni á bæði litlum hlutum og ferðalögum.

Þar sem ég vann tvisvar í ömmu-lottóinu hlakkaði ég sérstaklega til að verða gömul þegar ég var lítil. Þú og þín leið til að lifa lífinu gaf mér þá tilfinningu að besta tímabil lífsins yrði þegar maður yrði virkilega gamall (sem þú varst að sjálfsögðu ekki þá). Þú lifðir lífinu til fulls, máttir ekkert mikið vera að því að passa þar sem þú varst á ferðalagi, að dansa, að mála, í jóga eða að læra tungumál. Mér fannst ekkert eðlilegra en að það væru tvö sjónvörp hlið við hlið og útvarp í gangi á sama tíma, að þú værir í tungumálaskóla, eða að þú kenndir jóga í stofunni fyrir útvalda (sem ég fékk að taka þátt í og svaf mest í gegnum þegar ég var í heimsókn). Í dag veit ég að þetta var allt saman frekar óvenjulegt. Þvílík gjöf fyrir mig að hafa átt þig að sem ömmu.

Eftir að þú fluttir suður var alltaf gott að vera hjá þér, og stoppaði ég hjá þér á leið milli landa til að spila rommí og fá góðan mat, en það besta við okkar hittinga var hláturinn, og kenndir þú mér hversu gott það er að geta hlegið að sjálfum sér. Hjá þér var alltaf fallegt, góð lykt og góður andi, og þó að þú hafir alltaf verið að upplifði ég mikla ró hjá þér.

Þú sýndir það í verki að eina leiðin í lífinu er okkar eigin, og að maður þarf ekki að hafa skoðun á málum sem koma manni ekki við. Það er svo margt sem þú gafst mér og kenndir sem mun lifa áfram, og er ég enn spennt fyrir að eldast og mun gera mitt besta til að verða eins svöl amma og þú.

Þín

Björg Önnu- og

Finnbogadóttir.

Elsku amma. Þegar ég hugsa til þín skjótast upp ótal jákvæðar minningar. Ég sé þig í garðinum í Birkihlíðinni þar sem við frændsystkinin eyddum ótal stundum, og settum jafnvel heimsmet í að halda fótbolta á lofti. Ég var býsna góður en Ríta frænka var enn betri sem þér líkaði vel því þú varst mikil jafnréttismanneskja, bæði fyrir réttindum kvenna og síðar varstu fastagestur á Gay Pride (því þar var jú mikið fjör). Þú hafðir alltaf eitthvað fyrir stafni og þér var svo margt til listanna lagt. Þú fórst að kenna jóga, spilaðir á harmoniku, byrjaðir að taka listmálaraáfanga á sjötugsaldri og þú naust þess að ferðast. Þú hafðir þennan saklausa stríðnisglampa í augunum og varst fyndin og skjót að svara fyrir þig. Þegar ég var krakki spurðirðu mig hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég var ekki í skapi til að svara, og hreytti út úr mér að ég ætlaði bara að verða ríkur; þú leist þá snöggt til mín og svaraðir um hæl: „Jæja Fjölnir minn, þú verður þá bara að finna þér ríka konu.“

Fátt var betra en að fara með afa á Alkanum að veiða í Skagafirðinum og koma síðan heim til þín í kvöldmat. Eftir matinn var spilað rommý, manni eða vist. Eldhúskrókurinn frægi er fjölskyldudjásn og þar eyddum við ótal stundum, alltaf var fullsetið við þetta blessaða borð, fólk var að koma og annað að fara; sem jú var táknrænt fyrir ættina sem hefur verið mikið á faraldsfæti. Fyrir mér varstu hjarta þessarar stóru fjölskyldu og reyndir að halda henni saman og það gilti enn meira eftir að afi dó sumarið 2001. Þú varst svo dugleg að vera í sambandi við öll barnabörnin. Þú heimsóttir okkur til að mynda í Cuxhaven, bæði með afa og ömmu Bellu. Þú og Bella eigið heima í ömmu-„dream teaminu“. Þið voruð flottar saman á hjólunum í Cuxhaven og í enskuskóla á Englandi og það var ávallt hlegið mikið yfir sögunum ykkar. Þið mættuð líka báðar saman á háskólaútskrift mína í Boston árið 2005. Ógleymanleg er líka heimsókn þín og mömmu til mín í Halifax í Kanada. Mikið var það sárt að horfa upp á alzheimer hægt og bítandi ræna þig, þessa glaðværu og bjartsýnu manneskju, vitinu og lífinu.

Þú og afi voruð oft eins og hundur og köttur, sem var meira spaugilegt að horfa upp á en að það þyrfti að taka það alvarlega. Eitt dæmi var ákvörðunin um að hafa tvö sjónvörp í stofunni svo þið gætuð bæði stjórnað á hvað þið horfðuð; og samt setið hlið við hlið.

Ég skrifaði eitt sinn ritgerð um afa og spurði hann spjörunum úr, m.a. hvað væri það besta sem hefði komið fyrir hann. Það stóð ekki lengi á svarinu, því það var að hafa fengið að kynnast þér og giftast þér, amma. Einn daginn veit ég að ég sest aftur við borðið með þér, afa og öðrum ættmennum og við munum drekka kaffi, hlusta á fréttirnar og ræða um lífið á meðan við spilum.

Það er ljúft að hugsa til þess að þið afi séuð nú sameinuð á ný og enda ég þetta á síðustu línunum úr Undir bláhimni, einu af uppáhaldslögunum þínum.

Og svo dönsum við dátt, þá er gaman

meðan dagur í austrinu rís.

Og svo leiðumst við syngjandi saman

út í sumarsins paradís.

(Magnús K. Gíslason)

Fjölnir Finnbogason.