[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagmál Andrés Magnússon andres@mbl.is Erfitt er að leggja mat á framvindu stjórnmálabaráttunnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar í maí, þar sem forystumál flestra flokka eru mikilli óvissu háð. Dagur B.

Dagmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Erfitt er að leggja mat á framvindu stjórnmálabaráttunnar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar í maí, þar sem forystumál flestra flokka eru mikilli óvissu háð. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur ekki greint frá því hvort hann ætli fram fyrir Samfylkinguna og ljóst að nýr oddviti muni leiða lista Sjálfstæðisflokksins.

Þeir Friðrjón Friðjónsson varaþingmaður og Stefán Pálsson sagnfræðingur ræða borgarmálin í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins, sem opið er öllum áskrifendum. Þeir telja báðir yfirgnæfandi líkur á að Dagur leiði flokk sinn í vor.

Forystumálin eru þó víðar óútkljáð. Framsókn er án borgarfulltrúa nú en mun vafalaust finna skeleggan frambjóðanda til að nýta þann meðbyr sem flokkurinn naut í kosningum í haust. Þá er um það rætt að Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri-grænna, hyggist skora Líf Magneudóttur á hólm og eins að Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, vilji keppa við oddvitann Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur um efsta sætið. Meðal Pírata velti það hins vegar á oddvitanum Dóru Björt Guðjónsdóttur hvort þar verði breyting á efsta sæti.

Um eitt eru þeir Friðjón og Stefán þó alveg sammála, að afar spennandi kosninga sé að vænta í vor.