Hafnartorg í hátíðarbúningi. Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hefur veltan á Hafnartorgi aukist jafnt og þétt.
Hafnartorg í hátíðarbúningi. Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn hefur veltan á Hafnartorgi aukist jafnt og þétt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verslunarmenn á Hafnartorgi í Reykjavík bera sig vel og segja söluna hafa haldið áfram að aukast milli ára. Verslun á Hafnartorgi hófst þegar verslun H&M var opnuð haustið 2018.

Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu hjá Regin, sem Hafnartorg heyrir undir, segir veltuna í október og nóvember hafa aukist um 75% milli ára. Tvö fyrirtæki, Reðasafnið og Joe & the Juice, hafi verið lokuð um jólin í fyrra en hin níu fyrirtækin verið með opið. Tölurnar séu því samanburðarhæfar.

„Hafnartorg er orðið hluti af jólaversluninni. Það er komið á kortið en það tekur tíma fyrir ný verslunarsvæði að verða hluti af verslunarleiðangri fólks,“ segir Baldur Már.

Salan aukist jafnt og þétt

Frank Michelsen úrsmíðameistari rekur verslunina Michelsen 1909 á Hafnartorgi. „Árið hefur verið mjög gott. Ég get ekki verið annað en ánægður með árið. Við höfum haft góða og jafna aukningu [í sölunni] og við erum svo lánsöm að hafa haft nóg að gera,“ segir Frank.

Verslun Michelsen var opnuð haustið 2019 en samhliða flutningunum var verslun Michelsen á Laugavegi lokað.

Frank segir aðspurður að salan á Hafnartorgi sé mun meiri en á Laugavegi.

Með hátt þjónustustig

„Verslunin á Hafnartorgi er byggð upp á annan hátt en gamla verslunin á Laugavegi. Hér sérhæfi ég mig í vörum frá Sviss, Þýskalandi og Ítalíu í efri gæðaflokki og þær vörur hafa fengið afskaplega góðar viðtökur. Verslunin sem slík er upplifunarverslun og ein sú fyrsta á landinu sem er byggð upp á því að veita mikla persónulega þjónustu, maður á mann, ef svo má að orði komast. Ég er með fjóra úrsmiði til að þjónusta. Hjartað er verkstæðið, eða vinnustofan, þar sem við sitjum og önnumst viðgerðir. Við bjóðum mjög hátt þjónustustig í verslun og þjónustu,“ segir Frank.

Hann segir Hafnartorgið hafa fest sig í sessi sem verslunarkjarna. Þar hjálpi til að framkvæmdum á Austurhöfn sé lokið og að fólk skuli nú geta gengið milli Hörpu og Lækjartorgs um Reykjastræti.

Búið að skoða á netinu

„Jólasalan var mjög góð og hófst fyrr en í fyrra. Hún byrjaði í raun í október en þetta færist sífellt framar. Fólk verslar orðið meira á netinu og er gjarnan búið að mynda sér skoðun. Það kemur á staðinn til að máta og kaupa og er búið að skoða heimasíðuna sem er mjög öflug,“ segir Frank. Það hafi verið rétt ákvörðun að flytja frá Laugavegi á Hafnartorg. Þau fái oft að heyra að verslunarkjarninn minni á útlönd.

„Þetta er algjör breyting. Hér er friður og ró og ekki verið að höggva í okkur litlu kaupmennina. Hér fáum við að vera í friði frá pólitíkinni. Hér verður nýr miðbær með auðveldri aðkomu. Nýr kjarni með íbúðum, gistingu, veitingum, verslun, þjónustu og menningu, allt á litlum reit. Hér er góð aðkoma og nóg af stæðum í bílakjallara. Það er einmitt umkvörtunarefni fólks númer eitt, tvö og þrjú að það sé svo erfitt að komast um miðbæinn. Við erum með aðra verslun í Kringlunni, sem hefur tekið mjög vel við sér líka, en fólk spyr oft hvort það geti fengið að sækja vöruna í Kringluna.“

Hákon Hákonarson, einn af eigendum Fata & skóa ehf. sem rekur meðal annarra verslana Collections á Hafnartorgi, segir söluna þar hafa aukist um 70% milli ára.

Skýringin sé að hluta sú að verslun Íslendinga hafi færst heim í faraldrinum en jafnframt að verslunin á Hafnartorgi hafi skotið rótum.

Eins og að versla erlendis

„Viðskiptavinir okkar segja að upplifunin sé eins og að versla í fínum verslunarhverfum erlendis. Það má segja að Íslendingar hafi uppgötvað hvað það er gott að versla heima. Úrvalið hjá okkur af merkjavöru á borð við Boss, Polo, Sand og Armani er á pari við það sem þekkist erlendis,“ segir Hákon.

Hann segir aðspurður að erlendir ferðamenn hafi verið að baki 30-35% af veltunni í verslun Collections árið 2019, innan við 10% árið 2020 og sömuleiðis á árinu 2021.

Hjörtur Gísli Sigurðsson, safnstjóri Reðasafnsins, sagði stígandi í aðsókninni sem væri ágæt í ár. Til dæmis hefðu um 200 manns á dag sótt safnið yfir jólahelgina.