Guðný Bjarnveig Sigvaldadóttir fæddist 24. mars 1935 í Múla í Þorskafirði. Hún lést 20. desember 2021. Móðir hennar var Guðrún María Kristjánsdóttir, f. 27. mars 1899, d. 4. nóvember 1942. Faðir hennar var Sigvaldi Júlíus Dagsson, f. 23. nóvember 1913, d. 19. október 1999.

Hálfsystir (og fósturdóttir) er Vigdís Guðrún Sigvaldadóttir, f. 4. september 1963. Hennar börn eru Sigvaldi Arnar Hjaltason, f. 27. ágúst 1990, og Jónný Hekla Hjaltadóttir, f. 27. september 1996.

Fyrri maður Guðnýjar var Hafsteinn Snæland, f. 25. ágúst 1934, seinni maður hennar var Jón Helgi Jónsson, f. 31. maí 1933, d. 24. mars 1992. Guðný flutti til Reykjavíkur 16 ára gömul. Fyrstu störfin hennar í Reykjavík voru sem vinnukona og barnfóstra, hún starfaði á tveimur heimilum um hríð. Hún starfaði svo í bakaríi, mjólkurbúð og við ýmis verslunarstörf.

Guðný starfaði svo í eldhúsinu á Landspítalanum. Síðar flytur hún ásamt manni sínum árið 1968 í Borgarnes og seinna flytja Arnfríður og Vigdís til þeirra. Guðný var fyrsti starfsmaðurinn á dvalarheimili í Borgarnesi þar til heilsubrestur gerði vart við sig og hún varð að hætta störfum þar. Síðar átti hún eftir að starfa á prjónastofu Borgarness þar til heilsan gaf sig.

Guðný hélt fullri reisn til lokadags þrátt fyrir að vera illa farin af liðagigt.

Útförin mun fara fram í Borgarneskirkju í dag, 5. janúar2022, klukkan 14. Jarðsett verður í Borgarneskirkjugarði.

Þá er elsku Guðný mín farin í ljósið. Hún var systir mín, móðir mín og kletturinn minn.

Móðir Guðnýjar var illa farin af gigt er Guðný fæddist og tók fæðingin langan tíma. Þegar barnið fæddist var ekkert líf með því og Inga ljósmóðir (Inga ljósa) þurfti að hrista, slá og soga upp úr barninu. Eins og Inga ljósa sagði mér síðar: „Ég hafði aldrei þurft að berja nýfætt barn fyrr en þarna því að ég ætlaði ekki að gefast upp og þurfa að tilkynna móðurinni sem var búin að þrá barn í mörg ár að því miður hefði barnið fæðst andvana.“

Annar atburður átti sér stað nokkru síðar, en þá veiktist Guðný og var ekki hugað líf. Með góðum ráðum batnaði Guðnýju og varð frekar hraust barn. Að mörgu leyti má segja að þessir fyrstu ævidagar Guðnýjar hafi sagt til um hvernig manneskja hún yrði. Hún missti móður sína sjö ára gömul og sú reynsla mótaði hana líka. Hún fer þá til afa síns og ömmu (Kristjáns og Sesselíu) og er þar nokkur ár eða þar til pabbi okkar og mamma mín taka saman. En þá flytur hún með þeim. Er þau slíta samskipti flytur hún aftur til afa síns og ömmu. Sveitin var hennar himnaríki; sveitin og Vaðalfjöllin. Alla tíð.

Guðný og Jón tóku mömmu að sér er hún varð ófrísk af mér, það var mitt gæfuspor. Ég var elskuð af tvennum foreldrum og ég elskaði þau og fannst eðlilegasti hlutur í heimi að eiga tvö sett.

Guðný var með sterkustu konum sem ég hef þekkt, ekki endilega líkamlega heldur andlega.

Ótrúlegur styrkur, slatti af þrjósku, mikill slatti og kjarkur. Mér fannst hún ósigrandi. Mátti ekkert aumt sjá og boðin og búin að hjálpa öllum. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá henni er maður leitaði ráða. Henni fannst alveg sjálfsagt að sjá um mig, mömmu og börnin mín enda sjálf alin upp á heimili sem var alla tíð opið þeim sem þurftu á aðstoð að halda. Börnin mín kölluðu Guðnýju frænku en hún var samt amma þeirra með stóru A-i.

Guðný var eins og áður sagði með þeim þrjóskari, var með svokallaða ekta vestfirska þrjósku og strandamannaþráa. Fyrir um tveimur árum fórum við á heimilinu að nefna það að fá hjólastól fyrir hana því liðagigtin var farin að hefta mikið hreyfingar.

„Nei takk, ég er sko enginn aumingi. Ég kemst það sem ég ætla mér.“

Guðný hafði fótaferð til hins síðasta dags og gerði það sem hún gat á heimilinu þótt hún væri aðeins búin að nefna að sennilega væri kominn tími til að fara á hjúkrunarheimilið, svona til að létta á mér. Ég er mjög þakklát að Guðný lést heima, í húsinu sem hún og Jón byggðu. Að hún hélt reisn sinni og varð ekki upp á aðra komin, það hefði hún átt erfitt með. Að áliti Guðnýjar var hennar hlutverk í lífinu að sjá um að öðrum liði sem best, hún gat svo þegið aðstoð „svona ef þú hefur tíma“.

Til að lýsa hversu sterkur persónuleiki Guðnýjar var er besta lýsingin upplifunin fyrstu tvö kvöldin eftir að hún lést. Húsið var tómt, galtómt, stóra kraftmikla sálin var farin.

Guðný mín, við sjáumst hinum megin, það er ég viss um. Guð geymi þig og varðveiti.

Vigdís Guðrún

Sigvaldadóttir.

Kæra Guðný mín, ég sakna þín ósköp mikið.

Ég hugsa að ég muni aldrei almennilega komast yfir að missa þig, enda svona stór og mikilvægur hluti af lífi mínu nú farinn.

En á sama tíma horfi ég jákvætt fram á við enda veit ég að þú munt fylgja mér í anda.

Lexíurnar sem þú kenndir mér ásamt styrknum sem þú veittir mér mun móta mér bjarta framtíð, það er ég viss um. Eins og þú sagðir alltaf: „Nú beitum við í vindinn! Við erum ekkert blávatn!“

Ég vil þakka þér fyrir að hjálpa til við að ala mig upp þegar mamma var upptekin, fyrir að trúa á mig þegar staðan var erfið og að vera sterk, hlý og vitur kona allt að því síðasta.

Ég elska þig um alla tíð.

Sigvaldi Arnar Hjaltason.

Guðný var alveg einstök, og ég get sagt alveg með sanni að ég hef aldrei á ævinni átt heiðurinn á að kynnast jafn miklu hörkutóli. Ég hef lært margt og mikið af henni, hún tók mig á beinið þegar ég var með gleypugang og kjánaskap, agaði mig til og kenndi mér ýmis húsráð og lexíur um lífið. Að vísu vorum við ekki alltaf sammála eins og gengur og gerist, enda oft sagðar líkar í skapi og þá lenti okkur stundum saman eins og hundi og ketti, en ég hef áttað mig meira á því, því eldri sem ég verð, að þetta var hennar leið til að sýna að henni stæði ekki á sama.

Guðný var alveg yndisleg kona, kjarkmikil og það fór ekki á milli mála að henni þótti vænt um okkur öll. Hún var mikil hjálparhella fyrir mömmu að ala mig og bróður minn upp.

Hún Guðný mín gekk í gegnum mikið í lífinu, en gafst aldrei upp. Hún var svo þrjósk að það hálfa væri nóg, þrátt fyrir að vera hrjáð slæmri gigt og hefði átt að vera í rauninni rúmliggjandi síðustu árin gekk hún nú samt um með göngugrindina sína og gerði allt það sem henni var kleift.

Oft þegar við fjölskyldan sátum og horfðum á þætti eða bíómyndir settist hún í stólinn sinn, tók lesgleraugun sín og horfði með okkur og því þótti mér alltaf gaman að og vænt um. Hún var með betra minni en ég þótt hún væri 61 ári eldri en ég, og alveg meiri háttar skýr í kollinum.

Ef ég yrði að hálfu jafnmikið hörkutól og hún þegar ég verð eldri þá væri það mikill heiður. Ég vil gera hana stolta af mér. Ég mun ávallt bera mikla virðingu fyrir henni og elska hana.

Jónný Hekla Hjaltadóttir.