Gautaborg Agla María Albertsdóttir í búningi Häcken sem tók við keppnisleyfi þáverandi Svíþjóðarmeistara Kopparbergs/Göteborg fyrir ári síðan.
Gautaborg Agla María Albertsdóttir í búningi Häcken sem tók við keppnisleyfi þáverandi Svíþjóðarmeistara Kopparbergs/Göteborg fyrir ári síðan. — Ljósmynd/Häcken
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svíþjóð Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Knattspyrnukonan Agla María Albertsdóttir er gengin til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Häcken.

Svíþjóð

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnukonan Agla María Albertsdóttir er gengin til liðs við sænska úrvalsdeildarfélagið Häcken.

Agla María, sem er 22 ára gömul, kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki en hún hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár.

Ásamt Breiðabliki hefur hún einnig leikið með Val og Stjörnunni hér á landi en hún varð Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2016 og Breiðabliki 2018 og 2020. Þá varð hún bikarmeistari með Breiðabliki 2018 og 2021.

Hún skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í gær og heldur utan í janúar þegar undirbúningstímabilið hefst hjá sænska liðinu sem hafnaði í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

„Häcken sýndi mér mikinn áhuga og þeir gerðu nánast allt sem í þeirra valdi stóð til þess að fá mig,“ sagði Agla María í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta er líka félag sem er og hefur verið í toppbaráttu í Svíþjóð og það hafði áhrif á ákvörðun mína. Eins tel ég þetta vera félag sem hentar mér vel og ég sé fram á að geta stimplað mig vel inn í liðið. Ég er líka mjög spennt fyrir því að reyna fyrir mér í Svíþjóð sem er kannski ekkert langt frá Íslandi, menningarlega séð, og það spilaði inn í.

Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin í flýti og ég skoðaði mín mál mjög vel og vandlega. Á endanum var þetta ákveðin tilfinning sem ég hafði. Ég var orðin sannfærð um að þetta væri rétta skrefið fyrir mig. Mér fannst ég finna það og það hefur alltaf verið þannig hjá mér á mínum ferli að maður hefur fundið hvað er rétt og hvað ekki og þetta var rétt val í þessu tilfelli,“ sagði Agla María sem á að baki 42 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað þrjú mörk.

Svíþjóð heillaði

Alls eru níu Íslendingar á mála hjá liðum í sænsku úrvalsdeildinni eins og staðan er núna.

„Það leggst mjög vel í mig að flytja til Svíþjóðar og ég held að þetta sé hárrétti tímapunkturinn til þess að breyta um umhverfi. Ég tel mig hafa ákveðinn þroska núna, þroska sem maður hafði kannski ekki fyrir þremur árum, og eins þá var maður að sinna öðrum hlutum í lífinu eins og skólanum á þeim tíma.

Ég veit aðeins út í hvað ég er að fara líka og ég hef fylgst ágætlega vel með deildinni undanfarin ár. Það voru fleiri félög sem sýndu mér áhuga í öðrum deildum sem maður þekkir kannski ekki alveg nægilega vel, deildir sem eru kannski óskrifað blað ef svo má segja.

Það eru margir íslenskir leikmenn sem eru í Svíþjóð eða hafa spilað þar og maður hefur reynt að fylgjast með, án þess þó að planið hafi endilega verið að fara til Svíþjóðar. Häcken leikur líka í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, sem mér finnst spennandi.“

Krefjandi leiðtogahlutverk

Agla María hefur verið á meðal bestu leikmanna Íslandsmótsins undanfarin tímabil en hún gekk til liðs við uppeldisfélag sitt Breiðablik á nýjan leik frá Stjörnunni árið 2018.

„Frá því að ég gekk til liðs við Breiðablik hefur mitt hlutverk innan liðsins breyst ár frá ári. Ég hef tekið að mér stærra hlutverk eftir því sem árin hafa liðið og á síðustu árum hef ég verið í ákveðnu leiðtogahlutverki. Það hefur verið krefjandi því þetta hefur ekki bara snúist um það hjá mér að skora mörk og leggja þau upp.

Ég hef kannski verið sá leikmaður í sókninni sem hefur verið leitað til þegar við höfum þurft mörk eða þegar okkur gengur ekki vel í leikjum. Maður hefur þurft að stíga aðeins upp og axla meiri ábyrð sem hefur verið mjög lærdómsríkt. Þetta hefur líka snúist um að sýna stöðugleika og að skila sínu fyrir liðið, sama í hvernig standi maður er. Ég var því ekki komin í einhvern þægindaramma í Kópavoginum því maður setur alltaf pressu á sjálfan sig að standa sig vel fyrir sjálfan sig og liðið auðvitað.“

Frábær undirbúningur

Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrst íslenskra liða síðasta haust en Blikar luku keppni í B-riðli Meistaradeildarinnar með eitt stig og ekkert mark skorað.

„Ég skal alveg viðurkenna það að gengið í Meistaradeildinni var smá skellur fyrir okkur en á sama tíma var þetta mjög dýrmæt reynsla fyrir alla sem að liðinu koma og það er mikilvægt fyrir okkur að horfa á það jákvæða úr þessu Meistaradeildarævintýri. Við vorum líka með frekar þunnskipaðan hóp eftir sumarið sem spilaði klárlega inn í og hafði áhrif á úrslitin í riðlakeppninni.

Það var mjög krefjandi að spila fram í desember og halda sér í standi með viðeigandi aðhaldi. Við höfum ágætis reynslu af því að spila þétt en þessi keyrsla í Meistaradeildinni var meira en maður er vanur. Þegar ég horfi til baka núna þá var þetta frábær undirbúningur fyrir mig persónulega og það sem er fram undan hjá mér í Svíþjóð.“

Mjög erfitt að kveðja

Agla María er uppalin hjá Breiðabliki sem hefur verið í fremstu röð í íslenskum kvennabolta til margra ára.

„Það er mjög erfitt að kveðja Breiðablik enda hefur mér liðið mjög vel hjá félaginu. Ég var í stutta stund í Val, átti frábær tvö ár í Stjörnunni en Breiðablik er og verður alltaf minn klúbbur á Íslandi. Það verður erfitt að kveðja stelpurnar og spila ekki með þeim næsta sumar. Breiðablik hefur unnið frábært starf kvennamegin og önnur félög á Íslandi mættu svo sannarlega taka sér félagið til fyrirmyndar þegar horft er til þess hvernig staðið er að hlutunum.

Kvennaboltinn hérna heima er á réttri leið finnst mér og við sjáum bætingar á hverju einasta ári. Við erum að sjá margar ungar stelpur springa út árlega þannig að við erum klárlega að gera eitthvað rétt. Það er hins vegar mikilvægt að staldra ekki of lengi við og halda áfram á sömu braut. Ísland er lítið land og allt það en efniviðurinn er svo sannarlega til staðar,“ bætti Agla María við í samtali við Morgunblaðið.

Níu íslenskar í deildinni

Níu íslenskar knattspyrnukonur eru nú á mála hjá félögum í sænsku úrvalsdeildinni. Þær leika með sjö af fjórtán liðum deildarinnar en liðunum var fjölgað úr 12 í 14 frá og með komandi tímabili þannig að 26 umferðir verða leiknar í ár í stað 22 áður.

Guðrún Arnardóttir leikur með meistaraliði Rosengård, Agla María Albertsdóttir og Diljá Ýr Zomers með Häcken og Amanda Andradóttir með Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, en þessi þrjú félög fara í Meistaradeild Evrópu síðsumars.

Þá leikur Berglind Björg Þorvaldsdóttir með Hammarby, Berglind Rós Ágústsdóttir með Örebro, Hlín Eiríksdóttir með Piteå og þær Hallbera Guðný Gísladóttir og Andrea Thorisson með nýliðum Kalmar.