Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson ávarpar kosningavöku eftir fylgistapið 2018, en myndaði svo meirihluta með minnihluta atkvæða og hélt stólnum.
Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson ávarpar kosningavöku eftir fylgistapið 2018, en myndaði svo meirihluta með minnihluta atkvæða og hélt stólnum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Mikið mun velta á gengi Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum í vor hvort meirihlutinn heldur velli eða fellur. Hún er burðarflokkur núverandi meirihluta og sá sem langmestu ræður með sína sjö borgarfulltrúa í samstarfi við tvo Pírata, tvo úr Viðreisn og einn borgarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Innan samstarfsflokkanna er kurr um að lítið hafi þokast í „þeirra málum“, en við bætast áhyggjur af fjárhagsstöðunni og gagnrýni á grunnþjónustu bítur.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Mikið mun velta á gengi Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum í vor hvort meirihlutinn heldur velli eða fellur. Hún er burðarflokkur núverandi meirihluta og sá sem langmestu ræður með sína sjö borgarfulltrúa í samstarfi við tvo Pírata, tvo úr Viðreisn og einn borgarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Innan samstarfsflokkanna er kurr um að lítið hafi þokast í „þeirra málum“, en við bætast áhyggjur af fjárhagsstöðunni og gagnrýni á grunnþjónustu bítur.

Kemur Dagur aftur?

Stóra spurningin er sú hvort Dagur B. Eggertsson gefi áfram kost á sér. Dagur hefur verið borgarstjóri samfleytt frá 2014 og réði auk þess afar miklu í samstarfi við Besta flokkinn 2010-2014 þrátt fyrir að hafa helmingi færri borgarfulltrúa að baki sér. Hann verður fimmtugur í sumar.

Margir vilja lesa sitthvað í það hve tregur hann hefur verið til þess að segja af eða á um fyrirætlanir sínar, sumir samstarfsmenn í Ráðhúsinu telja víst að hann sé hættur í huganum en aðrir segja að þvert á móti sé hann að ráðgera sitt síðasta kjörtímabil enda eigi hann mörgu ólokið. Athyglisvert er að hvorir tveggja nefna því til stuðnings útgáfu bókar borgarstjórans, Nýrrar Reykjavíkur, þótt hún hafi raunar ekki komist á neina metsölulista. Aðrir að með henni hafi hann viljað skrifa sína eigin arfleifð, hinir að hún sé ljóslega liður í kosningabaráttu.

Það er vissulega rétt athugað að Dagur hefur lagt grunn að ýmsum stórum málum og gefið óefnd kosningaloforð, sem hann vill vafalaust þoka lengra áleiðis. Á móti kemur að fjármál borgarinnar stefna í hrein óefni og óvíst að hann vilji vera borgarstjóri þegar kemur að þeim skuldadögum og úr litlu að moða í grunnþjónustu eða gæluverkefni.

Svo er auðvitað möguleiki að hann vilji fara bil beggja, leiða listann í kosningabaráttu og reyna að mynda meirihluta, en miða við að fara í landsmálin áður en kjörtímabilinu lýkur, enda forystuval í uppsiglingu hjá Samfylkingunni. Það er þó ekki áhættulaust, því ef hans tæpi meirihluti fellur er óvíst að hann geti lappað upp á hann líkt og eftir tvennar síðustu kosningar og ekki gefið að Viðreisn vilji halda samstarfi áfram þótt hann héldi.

Styrleikakönnun fram undan

Hvort heldur verður er ljóst að það verður keppst um efstu sætin á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, þótt enginn geri aðsúg að Degi vilji hann vera áfram. Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, telur sig vafalaust eiga 2. sætið, en það er ekki víst að Skúli Helgason sé henni sammála um það, svona fyrir utan það að hann er bróðir þingflokksformannsins Helgu Völu, sem laut í lægra haldi fyrir Heiðu í varaformannskjöri fyrir rúmu ári. Talsvert rót hefur verið á öðrum borgarfulltrúum, en Guðrún Ögmundsdóttir lést á gamlársdag 2019 og þrír aðrir hurfu til annarra starfa. Sjálfsagt vilja Sabine Leskopf, Ellen Jacqueline Calmon og Aron Leví Beck Rúnarsson halda sætum sínum, en það er alls ekki útilokað að aðrir gefi kost á sér í baráttuna. Þar hafa nöfn ýmissa flokkshesta verið nefnd, en svo er þrálátlega rætt um að Rósa Björk Brynjólfsdóttir væri einmitt sú baráttukona sem listinn þurfi til þess að endurnýja erindi sitt eftir þrásetu við kjötkatlana.

Bindandi flokksval

Samfylkingin í Reykjavík hefur boðað til bindandi flokksvals í sex efstu sæti listans fyrir borgarstjórnarkosningar, en það fer fram dagana 12. og 13. febrúar.

Atkvæðisrétt hafi bæði flokksmenn og skráðir „stuðningsmenn“ eldri en 16, svo segja má að það sé hálfopið.

Sem fyrr segir verður valið bindandi um sex efstu sæti, en uppstillingarnefnd velur svo í önnur sæti á listanum. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er formaður hennar.

Borgarfulltrúar

Samfylkingarinnar eru nú:

1. Dagur B. Eggertsson

2. Heiða Björg Hilmisdóttir

3. Skúli Helgason

4. Hjálmar Sveinsson (5.)

5. Sabine Leskopf (6.)

6. Ellen Jacqueline Calmon (10.)

7. Aron Leví Beck Rúnarsson (11.)

Tölur í svigum segja til um sæti á framboðslista 2018.