Nýárskveðjum Ingólfs Ómars fylgdi: „Datt í hug að lauma vísu að sem er kannski smá hughreysting, ég tala nú ekki um á meðan þessi veira er.“ Oft þó vilji hrella hug harmkvæli og gremja. Vísa skaltu böli á bug og bjartsýni þér temja. Gunnar...

Nýárskveðjum Ingólfs Ómars fylgdi: „Datt í hug að lauma vísu að sem er kannski smá hughreysting, ég tala nú ekki um á meðan þessi veira er.“

Oft þó vilji hrella hug

harmkvæli og gremja.

Vísa skaltu böli á bug

og bjartsýni þér temja.

Gunnar J. Straumland segir að í upphafi nýs árs sé tími sjálfsrýni. Því rifji hann upp þessa dróttkveðnu sjálfsmynd:

Höfuðskelin hefur

heila nokkuð veilan,

gefið lítt af gáfum,

giska fátt um visku.

Tunga framhjá tengir

tali, er hann malar,

kviður tómar kveður,

kvæðafjöld án gæða.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir „Sjálfslýsingu (sléttubönd, hringhent)“:

Piltur besti, aldrei er

ódæll versti dóni.

Stilltur brestum fjarri fer,

fráleitt mesti róni.

Eða öfugt:

Róni mesti, fráleitt fer

fjarri brestum stilltur.

Dóni versti ódæll er

aldrei besti piltur.

Guðmundur sendir „kveðju á nýju covid-ári“:

Tíminn líður og læknar sár,

læt nú vísu flakka.

Góðu vinir, gleðilegt fár.

Gamla fárið þakka!

Philip Vogler Egilsstöðum svarar:

Gilda engin gleðitár

um gamla kófsins fár.

Að hætti það ég síst er sár

- sé nú fram á betra ár.

Jón Atli Játvarðarson skrifar: „Margt ber fyrir augu þegar maður ætlar að fletta Feisbúkk sér til einhvers gagns eða fróðleiks. Ekki alltaf á vísan að róa.“

Heldur er viðhengið veilt,

en vitrænum klókindum beitt,

skoðunum skrítnum er deilt

og skrifað um hreint ekki neitt.

Jón Gissurarson bætir við:

Mér er ekki lífið leitt

ljúfu og kæru vinir

yrki því um ekki neitt

eins og flestir hinir.

Í „Ljóðmælum“ yrkir Hrólfur Sveinsson um „hirðusemi“:

Af æviskrám mikilmenna

hef ég margdregið lærdóm þenna:

Það hendir oss flest

að hirða hvað best

þau blöð, sem vér ættum að brenna.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is