Halldór Benjamín Þorbergsson
Halldór Benjamín Þorbergsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ef fram fer sem horfir verða tugir þúsunda komnir í sóttkví eða einangrun innan fárra vikna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ef fram fer sem horfir verða tugir þúsunda komnir í sóttkví eða einangrun innan fárra vikna. Við verðum að finna leið til að láta hagkerfið ganga á sama tíma og þar er að fleiri þáttum að huga en aðeins sóttvörnum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), um stöðuna í atvinnulífinu vegna aðgerða stjórnvalda til að draga úr hraða kórónuveirusmita. Hann stingur upp á endurskoðun á beitingu sóttkvíar.

„Við höfum farið í gegnum hæðir og lægðir í þessu ferli. Á fyrri hluta tímabilsins ollu samkomutakmarkanir mestum búsifjum og hafa enn mikil áhrif. Núna veldur mestum vandræðum hversu útbreidd einangrun og sóttkví er,“ segir Halldór Benjamín. Í gær voru tæplega 15.600 manns í einangrun og sóttkví hér á landi.

Halldór segir aðgerðirnar snerta flestar fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir. „Samfélagið stendur nú frammi fyrir þeirri áskorun að halda nauðsynlegri kjarnastarfsemi gangandi,“ segir Halldór. Segir hann að víða í atvinnulífinu sé erfitt að tryggja lágmarksmönnun.

Starfsemi innviða stöðvist ekki

„Samfélagið og hagkerfið þola ekki að starfsemi grunninnviða í atvinnulífinu stöðvist, jafnvel þótt það sé tímabundið. Veiran ber víða niður, meðal annars á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og ég veit ekki betur en að svokölluð vinnusóttkví sé mest nýtt á Landspítalanum. Starfsfólk í vinnusóttkví fær leyfi til að fara til og frá vinnu, með verulegum takmörkunum,“ segir Halldór.

Halldór segir að ýmis starfsemi hafi staðið tæpt vegna manneklu. Fyrirtæki innan raða SA hafi á undanförnum misserum sótt um undanþágu til stjórnvalda til að halda mikilvægri starfsemi gangandi með vinnusóttkví. Það eigi við um fyrirtæki í öllum atvinnugreinum – sama hvort litið sé til iðnaðar og stóriðju, hafnsækinnar starfsemi, dreifingar lyfja og matvæla, sjávarútvegs, ferðaþjónustu eða annarra greina. Tekur Halldór fram að enginn sé neyddur til vinnu í sóttkví og slíkt standi heldur ekki til. Hins vegar renni flestu starfsfólki blóðið til skyldunnar að halda vinnustöðum sínum gangandi og þar með mikilvægri starfsemi fyrir samfélagið.

Sóttvarnayfirvöld hafi sýnt stöðunni skilning, eins og komið hafi fram í orðum talsmanna þeirra að undanförnu.

Metur stöðuna tvísýna

Hægst hefur á þessum undanþágum og hafa stjórnvöld viljað gera breytingar á kerfinu til að auðvelda afgreiðslu mála. Fallið var frá nýju fyrirkomulagi sem átti að taka gildi um áramót, m.a. vegna andstöðu Alþýðusambands Íslands, og er nú unnið að endurskoðun. Halldór segir aðalatriðið að tryggja snurðulausa afgreiðslu undanþágubeiðna fyrirtækja sem óska eftir að hluti starfsmanna geti verið í vinnusóttkví.

Halldór Benjamín kveðst meta stöðuna í atvinnulífinu tvísýna, eins og raunar oft áður í faraldrinum. Ástandið sé misjafnt eftir greinum. Staðan í nágrannalöndunum hafi einnig áhrif, til að mynda á ferðaþjónustuna. Þá sé ljóst að margir takmarki samskipti við annað fólk, haldi að sér höndum í viðskiptum, og það hafi áhrif á þrótt hagkerfisins og kvíslist út í gegnum æðar alls samfélagsins.

Halldór segir ljóst að samfélagið gangi ekki ef tugir þúsunda þríbólusettra einstaklinga verði innilokaðir í sóttkví. Spurður um lausnir segir hann að vel megi líta til nágrannalandanna þar sem sóttkví sé beitt með vægari hætti en hér á landi.

„Til dæmis hlýtur að koma til álita að endurskoða hratt og örugglega reglur um beitingu sóttkvíar, þannig að þeir sem eru fullbólusettir og með örvunarskammt fari í smitgát frekar en sóttkví. Sú breyting myndi skipta sköpum.“

Bólusetja í skólum í næstu viku

• Hægt að hátta framkvæmdinni þannig að börnin viti ekki um bólusetningarstöðu skólasystkina Oddur Þórðason

oddurth@mbl.is Bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára ætti að taka um eina viku, en ráðgert er að hún hefjist í næstu viku. Þetta segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir einnig að heilsugæslunni þyki ákjósanlegast að bólusetja börn í skólum. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í gærmorgun að hann óskaði þess að heilsugæslan, sem annast framkvæmd bólusetninganna, segði til um hver ákjósanlegasti kosturinn væri.

Geta verndað friðhelgi barnanna

Skiptar skoðanir eru um hver ákjósanlegasti kosturinn sé. Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur sagt að margir foreldrar barna á aldrinum 5-11 ára séu óánægð með þau áform að bólusetja í skólum. Formaður skólastjórafélagsins, Þorsteinn Sæberg, var á sama máli.

Ein helstu rök þeirra sem vilja ekki að bólusett sé í skólum eru að verið sé að stofna persónuvernd barna í hættu. Skólasystkini, kennarar og aðrir starfsmenn skólans geti vitað hvaða börn eru bólusett og hver ekki, sem umboðsmaður barna segir að séu viðkvæmar upplýsingar.

Óskar segir að hugsað hafi verið fyrir slíku og nefnir að framkvæmdinni megi hátta þannig að nemendur viti ekki um bólusetningarstöðu hver annars. Hann segir einnig að hann hafi heyrt í mörgum foreldrum sem séu ánægð með þau áform að bólusetja börn í skólanum.

„Við teljum okkur geta komið í veg fyrir það. Til dæmis með því að gefa nokkurra klukkustunda frí í skólanum fyrir krakkana og þau fá bara mismunandi tíma og þá verður ekkert hægt að sjá hverjir þáðu bóluefni og hverjir ekki. Við teljum okkur alveg geta séð til þess.“

Laugardalshöllin er plan B

Óskar segir einnig að heilsugæslan vilji helst bólusetja börn í skólunum en komi til þess að það þurfi að breyta um stefnu standi Laugardalshöllin til boða, það sé í raun og veru varaplan.

Hann áréttar þó að eitthvað þyrfti að breyta til í höllinni til þess að þjónusta betur svo ung börn og segir að þegar um þennan aldurshóp ræðir verði að fara öðruvísi að en ella.

Óttast að skólasmitum fjölgi

• Allt að 12,5% starfsmanna grunnskóla frá vegna Covid-19 Skólastarf hófst á nýjan leik í gær eftir jólafrí. Samkvæmt nýjustu tölum af covid.is eru um 1.200 börn ýmist í sóttkví eða í einangrun vegna kórónuveirufaraldursins á landinu öllu. Þá er einnig fjöldi starfsmanna í grunnskólum, leikskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum landsins ýmist í einangrun eða sóttkví, að því er Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, greinir frá í samtali við Morgunblaðið.

„Við fengum yfirlit yfir þetta í gær og þetta er mjög mismunandi á milli skóla. Forföll starfsmanna í grunnskólum eru frá 1,4% upp í 12,5%, í leikskólum 0-40% og á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum eru þau frá 0-30%. Við höfum þó ekki tölur yfir börnin enda höfum við ekki verið að kalla eftir þeim upplýsingum frá skólunum,“ segir Helgi.

Hann segir viðbúið að fleiri smit komi upp á næstu dögum sem muni hafa áhrif á skólahald. Þá sé stefnt að því að taka aftur saman fjölda þeirra skólastarfsmanna sem eru í einangrun eða í sóttkví næsta mánudag.

„Gærdagurinn var fyrsti skóladagurinn svo það er nóg eftir. Þegar fram líða stundir munum við hafa betri mynd af því hvaða áhrif upphaf skólastarfsins hefur á börnin og starfsmenn skólanna, sem eðlilega eru uggandi yfir ástandinu.“

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar á höfuðborgarsvæðinu, tekur í sama streng og segir stöðuna munu skýrast betur á næstu dögum. Hann segir þó áhyggjur uppi um að smitum fari fjölgandi nú þegar skólarnir hafa verið opnaðir að nýju.

„Ég tala nú ekki um ef við fáum aftur svona háar tölur eins og voru í fyrradag. Menn hafa áhyggjur af því að þetta muni slá okkur dálítið á næstu dögum.“ unnurfreyja@mbl.is