Jólabjór Tuborg er sem fyrr langvinsælasta jólabjórstegundin á Íslandi.
Jólabjór Tuborg er sem fyrr langvinsælasta jólabjórstegundin á Íslandi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Formlegu sölutímabili jólabjórs er lokið í Vínbúðunum og fram undan er sölutímabil þorrabjórs. Sala á jólabjór hófst hinn 4. nóvember og fram til 3. janúar seldust alls 986 þúsund lítrar í verslunum ÁTVR.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Formlegu sölutímabili jólabjórs er lokið í Vínbúðunum og fram undan er sölutímabil þorrabjórs. Sala á jólabjór hófst hinn 4. nóvember og fram til 3. janúar seldust alls 986 þúsund lítrar í verslunum ÁTVR. Það er nokkru minna en á sama tíma í fyrra. Þá seldust tæplega 1.190 lítrar og nemur samdrátturinn 17% milli ára. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR verður jólabjórinn fáanlegur í verslunum fram í næstu viku.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá hefur úrvalið af jólabjór aldrei verið meira en að þessu sinni, 108 tegundir alls. Vinsælustu tegundirnar voru þó þær sömu og síðustu ár. Ríflega 45% alls jólabjórs sem seldist var Tuborg julebryg. Næstvinsælasta tegundin var Víking jólabjór með 9% hlutdeild sölunnar. Þar á eftir komu Thule jólabjór, Jólagull og Jóla Kaldi með um og rétt undir 6% sölunnar hver.

Sölutímabil þorrabjórs hefst 13. janúar, rúmri viku fyrir bóndadag. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR verða minnst 24 tegundir þorrabjórs á boðstólum í ár auk þriggja tegunda brennivíns. Bjórtegundunum gæti þó fjölgað því enn bíða umsóknir afgreiðslu hjá ÁTVR.