Sigríður Guðrún Sigurðardóttir fæddist á Ísafirði 26. október 1943. Hún lést 16. desember 2021 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Foreldrar hennar voru hjónin Þórunn Gyða Árnadóttir, f. 2. desember 1915, d. 6. desember 1999, og Sigurður Stefán Baldvinsson, f. 6. ágúst 1914, d. 31. maí 1984.

Systkini Sigríðar eru: Ingibjörg Margrét, f. 2. júní 1947, Þórunn Anna, f. 8. mars 1950, d. 20. nóvember 2014, Málfríður Sólveig, f. 30. júní 1952, d. 24. nóvember 1956, og Árni Baldvin, f. 9. apríl 1955, d. 28. júlí 2006.

Sigríður Guðrún giftist hinn 8. júní 1963 eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Hólm Kristjánssyni, f. 12. ágúst 1943. Börn þeirra eru: Sigurður Kristján, f. 8. júlí 1964; Sólveig, f. 19. júlí 1968; Katrín, f. 1. janúar 1973, og Steinunn Gyða, f. 14. september 1976. Barnabörn Sigríðar og Guðmundar eru níu og langömmu- og langafabörnin fjögur.

Jarðsett verður í kyrrþey að ósk hinnar látnu en athöfninni verður streymt á facebooksíðunni Jarðarfarir í Akureyrarkirkju – beinar útsendingar klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Mig langar að minnast mágkonu minnar, Siggu eins og hún var alltaf kölluð. Hún var gift elsta bróður mínum Mumma (Guðmundi Hólm). Samrýndari hjón var varla hægt að finna, svo náin voru þau að þau voru oftast bæði nefnd í sömu andránni.

Þegar ég hugsa til baka koma fram margar góðar minningar um Siggu og Mumma, bæði þegar ég var lítil og á seinni árum þegar við Pétur heimsóttum þau í Seljahlíðina. Það var alltaf gott að koma til þeirra og mjög auðvelt að líða vel í návist Siggu. Það var alltaf eins og við hefðum hitt hist í gær.

Því miður kvaddi elsku Sigga mágkona of fljótt. Ég er þakklát fyrir að hafa hitt hana bæði í vor, þegar Mummi og hún komu til okkar Péturs, og þegar ég fór norður síðastliðinn september.

Þegar ég hugsa um hana núna sé ég fyrir mér myndarlega, hlýja og brosandi konu. Siggu var margt til list lagt og lék flest í höndunum á henni. Hún var mjög trygg og hugsaði vel um fólkið sitt.

Megi Guð almáttugur vernda sál þína, elsku Sigga.

Elsku Mummi! Missir þinn er svo mikill að orð fá honum ekki lýst. Einnig eiga börnin þín, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn um sárt að binda.

Ég votta ykkur öllum innilega samúð og sendi kveðju frá Pétri manninum mínum.

Sigurveig (Veiga mágkona).

Kær mágkona mín, Sigríður Sigurðardóttir, er fallin frá eftir stutt en snörp veikindi. Ég var aðeins fjögurra ára þegar þau Mummi, stóri bróðir minn, gengu í hjónaband og hefur hún því verið samferða mér í fjölskyldunni í tæp 60 ár. Elsku Sigga. Mikið verður tómlegt fyrir okkur Mirru að koma í Seljahlíðina og engin þú þar, en við munum halda því áfram og skulum reyna eftir bestu getu að hlúa að elsku Mumma, fá okkur harðfisk, kaffi og súkkulaði eins og þú værir enn hjá okkur og minnast þín. Elsku bróðir minn og fjölskylda. Missir ykkar er mikill og sár. Guð veri með ykkur og styrki.

Blessuð sé minning þín, elsku Sigga.

Hólmfríður S.

Kristjánsdóttir.