Verbúðin Jón Hjaltalín og Harpa hans Gríms.
Verbúðin Jón Hjaltalín og Harpa hans Gríms.
Ég horfði á annan hluta Verbúðarinnar um helgina og skemmti mér ágætlega, enda er leikarahópurinn frábær og áhugavert að Vesturporti skyldi detta í hug að gera framhaldsþætti um áhrif kvótakerfisins.

Ég horfði á annan hluta Verbúðarinnar um helgina og skemmti mér ágætlega, enda er leikarahópurinn frábær og áhugavert að Vesturporti skyldi detta í hug að gera framhaldsþætti um áhrif kvótakerfisins.

Þættirnir eiga að gerast um miðjan níunda áratuginn og þar er með ýmsum hætti reynt að endurskapa menningu og tísku þess tíma. Í svona þáttum mega staðreyndirnar auðvitað ekki þvælast of mikið fyrir sögunni en ég verð að viðurkenna að það fóru nokkrir hlutir aðeins í taugarnar í blaðamanninum í mér.

Fyrir það fyrsta var Jón Hjaltalín í byrjun þáttarins kynntur sem þingmaður Norðvesturkjördæmis en það kjördæmi varð ekki til fyrr en um síðustu aldamót þegar kjördæmaskipun var breytt; síðar í þættinum var Vestfjarðakjördæmið raunar mætt aftur til leiks.

Í annan stað var talað um úthlutun byggðakvóta en ég held örugglega að það hugtak hafi ekki orðið til fyrr en um miðjan tíunda áratuginn.

Og loks fannst mér frekar ankannalegt, þegar verið var að samþykkja lög á verkfall á Alþingi, að þingforsetinn tilkynnti, þegar samþykki meirihluta þingmanna lá fyrir, að Alþingi legði til að sett yrðu lög á verkfallið og að þau tækju gildi án tafar! Ég er ekki viss um að Birgir Ármannsson myndi samþykkja slíka málsmeðferð.

Guðmundur Sv. Hermannsson

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson