Auður Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1944. Hún lést á Landspítalanum 27. desember 2021. Foreldrar hennar voru hjónin Þóra Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 18. september 1907, d. 9. desember 1995, og Sigurður Sveinsson aðalbókari, f. 17. október 1904, d. 13. júní 2006.

Systkini hennar voru Eysteinn, f. 11. nóvember 1939, d. 21. mars 2020, Helga, f. 30. desember 1941, d. 23. mars 1985, og Hallsteinn, f. 1. apríl 1945.

Auður giftist Vigfúsi Þorsteinssyni lækni 10. apríl 1965. Börn þeirra eru: 1) Þráinn tölvunarfræðingur, f. 29. apríl 1965. 2) Þórunn sjúkraliði, f. 29. apríl 1969, gift Reyni Sigurðssyni vélfræðingi. Börn þeirra eru Rakel Ósk, Sigfús Már, Jónína Kristín og Auður Helga. Öll fjölskyldan er búsett í Noregi. 3) Eiríkur efnafræðingur, f. 24. apríl 1972, kvæntur Telmu Halldórsdóttur. Sonur hans og Bjargar Sigurðardóttur er Vigfús Þór menntaskólanemi.

Auður lauk námi í hjúkrun frá Hjúkrunarskóla Íslands 1966 og framhaldsnámi í heilsugæsluhjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum 1981. Hún starfaði við hjúkrun á Landspítalanum og við Heilsugæslustöðina í Kópavogi og Heilsugæslustöðina á Akureyri og víðar, bæði á Íslandi og erlendis.

Útför Auðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 5. janúar 2022, klukkan 13. Hlekkir á streymi:

https://vimeo.com/660972818

https.//www.mbl.is/andlat

Elsku besta mamma mín er farin.

Hún talaði oft um hversu gaman það yrði þegar kæmi að þeim degi að hún hitti aftur mömmu sína, pabba og Helgu systur. Þá yrði veisla. Nú er komið að þeim degi og ég er viss um að veisluhöldin standa sem hæst.

Mamma var mikil fjölskyldumanneskja og lagði ríka áheyrslu á það við okkur að sinna fjölskyldunni, láta okkur þykja vænt um fólkið okkar akkúrat eins og það er. Hún sagði mér oft frá barnæsku sinni í Fossvoginum. Allar sögurnar sem pabbi hennar sagði henni á meðan hann var að sinna hænunum eða öðrum verkum. Hversu hissa hún varð þegar hún uppgötvaði að hann hafði búið til allar sögurnar jafnóðum og gat alls ekki endurtekið þær. Afi og mamma voru mjög náin og góðir vinir og það ríkti skilningur á milli þeirra.

Mamma var alltaf tilbúin til að aðstoða. Hún var alltaf til staðar fyrir börnin sín, barnabörnin, systkinabörnin, systkini og alla sem þurftu á henni að halda. Hún var kletturinn okkar, okkar stoð og stytta og alltaf tilbúin til að leiðbeina og gefa góð ráð. Á unglingsárunum voru þessi ráð ekkert alltaf jafn vel þegin. Hún var heldur ekkert að pakka þeim inn í fínar umbúðir, hún sagði hlutina beint út. Hafandi þann eiginleika vissum við alltaf hvar við höfðum hana, hún sagði alltaf sína meiningu.

Mamma var mikill fagurkeri og hafði yndi af fallegu handverki. Hún saumaði mikið út og prjónaði. Eitt árið datt henni í hug að gaman væri að eiga íslenskan þjóðbúning. Hún tók sig til og innritaði sig á námskeið og saumaði sín eigin peysuföt. Seinni árin málaði hún mikið á postulín óteljandi föt, diskar og bollar liggja eftir hana. Fyrir okkur sem eftir stöndum verður gaman að taka fram borðbúnaðinn sem hún málaði á fyrir okkur og gleðjast og minnast hennar.

Ég er þakklát fyrir að hafa haft mömmu í mínu lífi. Ég er þakklát fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið og öll góðu ráðin, líka þau sem ég fékk á unglingsárunum. Allt sem við höfum gengið í gengum saman hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Mamma, þú hefur gefið mér lífið sjálft.

Takk fyrir allt, elsku mamma.

Þórunn Vigfúsdóttir.

Elsku mamma, það er sárt að kveðja þig í hinsta sinn. Á sama tíma er gott til þess að hugsa að þú lifðir viðburðaríku og góðu lífi, bjóst víða um landið og í tveimur öðrum löndum. Þú náðir að koma þremur börnum til manns. Við systkinin munum alltaf búa að góðu uppeldi og að hafa alltaf haft góða og örugga höfn í þér ef eitthvað bjátaði á. Alltaf mætti maður stuðningi og skilningi hjá þér þegar maður var að fóta sig sem barn, unglingur og loks fullorðinn. Það er ómetanlegt og alls ekki sjálfsagt að eiga slíkan klett í lífi sínu.

Ég man að þú varst mjög stolt af starfi þínu, þú náðir að knýja fram margar góðar breytingar og hafa góð áhrif á mörg skólabörn sem skólahjúkrunarfræðingur í nokkrum skólum. Þú varst einmitt skólahjúkkan í Kársnesskóla á sama tíma og ég var þar sem 10-12 ára pjakkur. Það var ekki alltaf þægilegt fyrir ærslabelg að vita af móður sinni á kennarastofunni en það var engu að síður góð tilfinning að vita af þér á svæðinu. Saga sem þú sagðir mér stolt við nokkur tækifæri var af því að þú, hjúkrunarfræðingur án stúdentsprófs, værir að kenna við Háskólann á Akureyri. Það fannst þér merki um að hafa náð langt.

Þú varst alltaf heiðarleg í framkomu og sagðir þínar skoðanir beint út. Einnig varstu mikill húmoristi og fékk ég líklega stríðnina í móðurarf að mestu leyti. Fólki leið vel í kringum þig og þú reyndist þínu fólki mjög vel. Þegar eldri systir þín féll frá allt of ung reyndist þú börnum hennar afar vel og urðum við öll frændsystkinin afar náin og trúi ég að það hafi verið að þinni tilstuðlan.

Sunnan yfir sæinn breiða

sumarylinn vindar leiða.

Draumalandið himinheiða

hlær – og opnar skautið sitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Gakk þú út í græna lundinn,

gáðu fram á bláu sundin.

Mundu, að það er stutt hver stundin,

stopult jarðneskt yndi þitt.

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt!

Allt hið liðna er ljúft að geyma

láta sig í vöku dreyma.

Sólskinsdögum síst má gleyma,

segðu engum manni hitt!

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þitt fólk úr Laugardalnum,

Eiríkur, Telma og Vigfús.

Auður móðursystir mín var hlý og heilsteypt kona, með báða fætur á jörðinni og heilmikla heilbrigða skynsemi. Í veikindum mömmu og eftir lát hennar reyndist hún okkur systkinunum verulega vel og tók stærra hlutverk í mínu lífi en hún hefði annars líklega haft. Ég gat alltaf leitað til hennar varðandi bæði stærri og smærri mál – allt frá uppeldisráðgjöf til uppskrifta, hún tók mér alltaf opnum örmum. Hún kenndi mér svo ótrúlega margt, bæði hagnýt atriði eins og umsjón pottablóma, garðyrkju og bestu leiðina til að elda steik, en einnig um tilfinningar og þá list að læra að samþykkja okkur sjálf eins og við erum. Þegar ég var krakki man ég að mér fannst hún aldrei tala við mig eins og fullorðnir tala gjarnan við börn, heldur gerði hún alltaf ráð fyrir því að þeir sem hún talaði við hefðu vit í kollinum og notuðu það.

Auður var húmoristi og sagði gjarnan skemmtilegar sögur, oft af krökkunum sínum. Ein sem stendur upp úr er þegar henni fannst vera heldur mikil læti í eldhúsinu á Kársnesbrautinni og frekar en að hækka róminn sagði hún lágt „ssssssssssssss“. Þá gall við í Þráni: „Heyriði krakkar! Það er sprungið á henni mömmu!“

Hún sagði mér stundum frá því þegar hún sem stelpa í Bústaðahverfinu fór út í garð með pabba sínum og sat í grasinu og horfði á hann taka upp kartöflur, þá væntanlega enn of lítil til að hjálpa til við þá iðju sem síðar meir varð að samverustundum stórfjölskyldunnar á hverju vori og hausti. Afi sagði henni þá gjarnan sögur, stundum þjóðsögur en stundum það sem Auður kallaði „bullsögur“ og nefndi „kartöflutröllkallinn“ sem eina fígúruna sem hún mundi eftir.

Þær eru svo ótalmargar, innihaldsríkar og lifandi, minningarnar. Ég man að mamma, Helgi bróðir og ég heimsóttum Auði, Tótu og Eika á Vík í Mýrdal þegar Auður var í verknámi á heilsugæslustöðinni þar, eftir útilegu í Brynjudal þegar við krakkarnir vorum litlir, hringferð um landið sem systurnar fóru í með mennina sína og okkur krakkana, og óteljandi veiðiferðum hingað og þangað um landið og vani þeirra Dússa að þegar kom að nestistímum settust þau hjónin gjarnan með bökin saman, sem veitti báðum betri hvíld á meðan þau borðuðu. Svo eru það heimsóknirnar til Svíþjóðar og til Akureyrar sem standa upp úr, ferðalagið til Hríseyjar, frænkuboðin fjölmörgu og símtölin óteljandi.

Það er mikill missir að henni Auði frænku. Synir mínir og ég kveðjum hana með sorg í hjarta og þakklæti fyrir alla ástina, þolinmæðina og umhyggjuna sem hún hefur sýnt okkur alla tíð.

Sigrún María.

Í dag kveðjum við kæra skólasystur, Auði Sigurðardóttur.

Haustið 1962 hófu 24 stúlkur nám í Hjúkrunarskóla Íslands fullar eftirvæntingar um það sem biði þeirra. Af ýmsum orsökum vorum við talsvert færri sem útskrifuðumst þremur árum síðar eða 16 talsins.

Allar vorum við á heimavist eins og skylda var og kynntumst þess vegna öðru vísi og e.t.v. nánar en ef við hefðum dvalið í heimahúsum eða leigt okkur herbergi út í bæ. Á þessum tíma voru nemendur teknir tvisvar á ári inn í Hjúkrunarskólann og var hver hópur kallaður holl og við hollsystur, en ekki var algengt að strákar sæktu í skólann.

Eftir útskrift þremur árum seinna réðum við okkur til starfa ýmist á Landspítalann eða á sjúkrahús úti á landi. Auður þurfti þó að bíða með útskrift í hálft ár því hún var búin að hitta hann Vigfús sinn og eignuðust þau sitt fyrsta barn. Við reyndum að halda hollkvöld eftir útskrift, þegar færi gafst.

Auður og Vigfús voru um árabil í Ameríku og Svíþjóð, hann í framhaldsnámi og hún að vinna á sjúkrahúsi. Síðan voru þau lungann úr sinni starfsævi á Akureyri. Þar vann Auður sem heilsuverndarhjúkrunarfræðingur, en slíka menntun hafði hún sótt í Nýja Hjúkrunarskólann .

Þegar þau fluttu suður tókust raunverulega ný kynni með okkur öllum, því flestar vorum við þá hættar störfum að mestu.

Auði fannst við orðnar alltof værukærar og stakk upp á að við stofnuðum gönguklúbb sem við og gerðum og hittumst einu sinni í mánuði í nokkur ár og þeir eiginmenn sem höfðu áhuga komu með. Auður var límið í gönguhópnum og tók að sér að ákveða gönguleiðir og hlaut nafnbótina gangráður. Í fyrstu komum við saman í kaffisopa hjá hver annarri fyrir gönguferð, en síðan breyttist það í heimsókn á mismunandi kaffihús eftir göngu.

Þegar heilsa Auðar fór að dala dró heldur úr gönguferðum hennar og hitti hún okkur eftir göngu á kaffihúsi en sleppti gönguferðinni.

Þau Vigfús keyptu sér sumarbústað á Suðurlandi fyrir nokkrum árum og buðu gönguklúbbnum í heimsókn einn fagran sumardag. Þetta var fyrir covid. Við áttum dýrðlegan dag með þeim Vigfúsi, þar sem hann stóð við grillið og sá um að við hefðum nóg að borða og drekka.

Covid kom í veg fyrir að hollið gæti hist í haust en við Arnheiður náðum að heimsækja Auði og Vigfús í lok nóvember og áttum ljúfa stund með þeim sem við erum þakklátar fyrir.

Auður tókst á við veikindi sín af aðdáunarverðu æðruleysi og yfirvegun og þótt hún yrði sífellt háðari súrefni og ætti erfitt með gang og þyrfti oft á sjúkrahús hindraði það hana ekki í að fara í sumarbústaðinn með Vigfúsi sem studdi hana með ráðum og dáð, eða að heimsækja dóttur sína og hennar fjölskyldu til Noregs. Henni tókst að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og njóta hvers dags sem kostur var.

Við munum sakna hennar úr hópnum okkar og hugsum til hennar með hlýju. Við hollsysturnar sendum innilegar samúðarkveðjur til Vigfúsar, barnanna þeirra og barnabarna.

F.h. hollsystranna,

Inga Teitsdóttir,

Arnheiður Ingólfsdóttir.