Minni tónleikar, þar sem sóst er eftir nálægð við flutninginn, hafa ekki reynst hentugir í streymi.
Minni tónleikar, þar sem sóst er eftir nálægð við flutninginn, hafa ekki reynst hentugir í streymi. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Tónlistarfólk hefur orðið fyrir miklum búsifjum í veirufaraldrinum vegna samkomutakmarkana.

Tekjur tónlistarfólks af almennu tónleikahaldi hafa minnkað um 87% milli áranna 2019 og 2021. Þetta kemur fram í samtali ViðskiptaMoggans við framkvæmdastjóra höfundarréttarsamtakanna STEFs, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur.

„Þessi upphæð lækkaði strax milli áranna 2019 og 2020, eða um 79%, en svo harðnaði enn á dalnum og lækkunin er 87% á árinu 2021 miðað við 2019,“ segir Guðrún.

Fengu 20 þúsund í kassann

Hún segir að ýmislegt hafi verið reynt til að bregðast við eins og með því að halda streymistónleika. „STEF prófaði sjálft að halda ferna streymistónleika um páskana árið 2020, þar sem fólk gat lagt fram frjáls framlög. Þetta voru allt í allt fernir tónleikar og þeir skiluðu samtals um tuttugu þúsund króna tekjum,“ segir Guðrún og segir að augljóslega hafi það einungis verið dropi í hafið. „Þetta var tilraun til að skoða hvort þetta módel gæti gengið upp. Tekjurnar reyndust mjög litlar, en samt voru nokkur þúsund manns að horfa.“

Guðrún segir að vissulega hafi einhverjir streymistónleikar skilað góðum tekjum í faraldrinum en það hafi einkum verið þeir þar sem mikið hafi verið lagt í framleiðsluna og vinsælustu tónlistarmenn landsins komu fram. „En allir þessir minni tónleikar, þar sem sóst er eftir nálægð við flutninginn, þar kaupir fólk ekki aðgang að streymi.“

Sígild og samtímatónlist komið verst út úr ástandinu

Allra verst kemur ástandið niður á þeim tónhöfundum og flytjendum sem eru í sígildri og samtímatónlist að sögn Guðrúnar. „Sá geiri er mjög viðburðadrifinn. Þetta er tónlist sem er ekki jafn mikið spiluð í útvarpi og á öðrum vettvangi.“

Guðrún nefnir dæmi af áhugamannakór sem hún syngur sjálf í. Hætt var við jólatónleika kórsins en atvinnutónlistarmenn sem jafnan koma að flutningnum missi þar spón úr aski sínum. Þá missi tónhöfundar af tekjum fyrir flutninginn.

„Við höfum átt samtal við forsætisráðherra og ráðherra menningarmála og kallað eftir sértækum aðgerðum til að mæta þessu. Við höfum bent á að bæði í Danmörku og í Noregi hefur tónhöfundum verið bættur upp þessi tekjumissir.“

Í Noregi var það gert að sögn Guðrúnar í gegnum systursamtök STEFs þar sem reiknað var út miðað við tekjur fyrri ára hvernig fjármunum ætti að skipta niður á tónlistarmenn. Í Danmörku aftur á móti var farin sú leið að reiknað var út tjón tónhöfunda og hver og einn gat svo sótt sér bætur til yfirvalda á grundvelli útreikningsins.

STEF einnig tapað tekjum

„Svo hefur STEF sjálft orðið fyrir tekjutapi líka. Ofan á þetta kemur líka hrun í tekjum vegna bakgrunnstónlistar, sem hótel, veitingahús og verslanir greiða. Tekjurnar hafa dregist þar saman um 30% miðað við venjulegt ár. Nú í desember úthlutuðum við fimmtíu milljónum króna minna vegna þessa en við hefðum annars gert.“

Guðrún segir að staðan sé almennt slæm hjá tónlistarmönnum vegna ástandsins og flótti kominn úr atvinnugreininni. Hún bendir á að miðað við stöðuna í dag sé ekki von til þess að hlutirnir lagist á fyrsta fjórðungi þessa árs, enda sé veiran enn á miklu flugi.

Snúi sér að öðru

Þórunn Gréta Sigurðardóttir, varaformaður STEFs og formaður Tónskáldafélags Íslands, segir að aðalvettvangur þeirra sem starfa við sígilda og samtímatónlist til opinbers flutnings sé lifandi flutningur. „Þannig að þetta hefur komið mjög illa niður á þessum geira.“

Hún segir að hljóðritanir hafi aukist aðeins í faraldrinum, en bagalegt sé að geta ekki fylgt útgáfu eftir með tónleikahaldi. Slíkt sé nauðsynlegt til að halda keðjunni gangandi. „Þetta er brothættur geiri og ég hef verulegar áhyggjur af því að einhverjir ákveði að söðla um og snúa sér að öðru.“