Ríkisvélin hefur hvergi hikstað, allir opinberir starfsmenn hafa fengið launin sín um hver mánaðamót í þau tæpu tvö ár sem faraldurinn hefur geisað og opinberum stöðugildum hefur fjölgað.

Það urðu ekki miklar breytingar á skattkerfinu núna um áramótin. Fyrir einstaklinga er helsta breytingin sú að viðmiðin fyrir skattþrepin þrjú breytast lítillega, en skattprósentan sjálf breytist ekki. Fyrir flesta launþega felur þetta í sér að þeir greiða um 4.500 kr. minna í tekjuskatt á mánuði, eða um 54.000 kr. á ári. Fyrir þá upphæð er hægt að greiða útvarpsgjaldið næstum þrisvar, þannig að hjón með 18 ára ungling þurfa ekki að örvænta. Syndaskattarnir (bensín, tóbak, áfengi) hækka að vísu allir á móti.

Það er þó rétt að taka fram að tekjuskattur hefur lækkað lítillega, með áherslu á lítillega, á liðnum árum og í kjölfar lífskjarasamninganna hefur hann helst lækkað á lægri tekjur. Það má þó velta fyrir sér hvers megi vænta í skattastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að, svona í ljósi þess að flokkurinn auglýsti það sérstaklega fyrir kosningar að til stæði að lækka skatta.

Bara ef...

Í löngum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er nokkrum sinnum fjallað um skattamál en í flestum tilvikum með nokkuð loðnum hætti. Texti sáttmálans er eins og ríkisstjórnarsamstarfið sjálft, það er alltaf leitað að lægsta samnefnaranum og fundin leið – í þessu tilviki orðagjálfur – til að láta þetta smella saman einhvern veginn.

Þar segir meðal annars;

„Ríkisstjórnin mun stuðla að því að skattkerfið standi undir samneyslu og gegni tekjujöfnunarhlutverki, reglur skattkerfisins séu skýrar og réttlátar og að framkvæmd þeirra sé skilvirk og gagnsæ.“

Það fólk sem skilgreinir sig til hægri í stjórnmálum spyr sig eðlilega að því hvenær það varð markmið eða stefna Sjálfstæðisflokksins að láta skattkerfið gegna „tekjujöfnunarhlutverki“ en það felast svo sem engin stórtíðindi í því að láta skattkerfið standa undir samneyslunni. Það gerir það nú þegar og bæði heimili og fyrirtæki finna daglega fyrir því. Gallinn er þó sá að „samneyslan“ er alltaf að aukast og það er lítið sem bendir til þess að hún minnki undir núverandi ríkisstjórn, því hún ætlar jú að vaxa til velsældar (fyrir ríkissjóð).

Það er tvisvar talað um skattalækkanir í sáttmálanum, en í bæði skiptin kemur fram að almannaþjónusta verði efld og að skattar verði lækkaðir „í samræmi við þróun ríkisfjármála“. Þetta orðalag gefur ekki tilefni til mikillar bjartsýni fyrir þá sem tala fyrir lægri sköttum. Reyndar bara engrar.

...ríkið fær sitt

Ríkissjóður hefur farið illa út úr aðgerðum og ákvörðunum stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldursins og einkageirinn mun þurfa að leggja mikið á sig á næstu árum til að rétta af rekstur ríkisins. Það hefur vissulega verið gripið til ýmissa ráðstafana til að bæta einkaaðilum það tjón sem ákvarðanir ríkisins hafa valdið þeim, en væntanlega felst stærsta aðgerðin í því að viðhalda útþenslu ríkisrekstursins óháð því hvernig hagkerfinu gengur. Ríkisvélin hefur hvergi hikstað, allir opinberir starfsmenn hafa fengið launin sín um hver mánaðamót í þau tæpu tvö ár sem faraldurinn hefur geisað og opinberum stöðugildum hefur fjölgað. Það var mikið hlegið þegar fv. þingmaður Samfylkingarinnar lagði það til að fjölga opinberum starfsmönnum í upphafi faraldursins, en það er minna hlegið nú þegar það varð síðan raunin.

Stóra vandamálið í þessu er að grunnurinn að skattkerfinu er alltaf lagður út frá stöðu og hagsmunum ríkissjóðs, ekki þeirra sem greiða skattana. Það skiptir í raun engu máli hverjir sitja við völd, ríkið heldur áfram að stækka og kostnaðurinn við að halda úti fyrrnefndri „almannaþjónustu“ eykst ár frá ári. Það eru síðan fyrirtæki og heimilin í landinu sem þurfa að skapa aukin verðmæti til að greiða skatta.

Það er í sjálfu sér ekkert að þeirri stefnu að ætla að „vaxa til velsældar“ eins og ríkisstjórnin hefur boðað, þ.e. ef það er einhver meining á bak við það. Það gerist þó ekki án skattalækkana og væntanlega á „velsældin“ að gilda um alla, ekki bara ríkið.

Stjórnmálamenn eru kjörnir til að gæta hagsmuna almennings, þ.m.t. heimila og fyrirtækja. Ef öll verðmætasköpun í landinu fer í það eitt að greiða fyrir sívaxandi rekstur ríkisins þá er allt eins gott að afhenda embættismönnum bara völdin.