Boeing 777-300ER eru 73,9 metrar að lengd og vænghafið er 64,8 metrar. Hæðin er 18,5 metrar.
Boeing 777-300ER eru 73,9 metrar að lengd og vænghafið er 64,8 metrar. Hæðin er 18,5 metrar.
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Íslenska fraktflutningafyrirtækið Bluebird Nordic hefur tekið á leigu þrjár breiðþotur af gerðinni Boeing 777-300er og stefnir á landvinninga í fraktflutningum á lengri leiðum.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is
Íslenska fraktflutningafyrirtækið Bluebird Nordic hefur tekið á leigu þrjár breiðþotur af gerðinni Boeing 777-300er og stefnir á landvinninga í fraktflutningum á lengri leiðum.
Þetta hefur ViðskiptaMogginn eftir áreiðanlegum heimildum. Leiga á þessum vélum boðar nýja stefnu hjá Bluebird sem hefur fram til þessa aðeins verið með Boeing 737-vélar í flota sínum en þær eru mun minni en 777-breiðþoturnar sem nú koma í flota fyrirtækisins. Má gera ráð fyrir því að burðargeta síðarnefndu vélanna sé allt að fimmfalt meiri en 737-vélanna sem nú eru í þjónustu fyrirtækisins. 777-þoturnar eru engin smásmíði en þær geta hæglega borið 400 farþega, séu þær búnar til þess. Þá hafa þær drægni upp á tæplega 14.000 km.

Samkvæmt heimildum blaðsins er gert ráð fyrir að Bluebird taki við vélunum á þessu ári og að þær séu sem stendur útbúnar til farþegaflutninga. Þeim verði beitt í þjónustu fyrirtækisins enn um sinn í því formi, þ.e. að frakt verði komið fyrir í farþegarými (e. Preighter). Hins vegar gera leigusamningarnir ráð fyrir því að vélunum verði að fullu breytt í fraktvélar árið 2024. Blaðið hefur ekki upplýsingar um til hversu langs tíma leigusamningarnir eru.

Ljóst er af frekari tíðindum af flotamálum Bluebird að fyrirtækið stefnir á stóraukin umsvif á komandi misserum. Þannig mun það taka við tveimur Boeing 737-800-vélum á yfirstandandi ársfjórðungi og munu þær bætast við þær níu 737-vélar sem nú þegar eru í flotanum. Það eru nýir eigendur Bluebird sem lagt hafa upp með vaxtarferli fyrirtækisins en það var Avia Solutions Group sem keypti allt hlutafé fyrirtækisins í Bluebird í janúar árið 2020. ASG er með um 90 skrifstofur og starfsstöðvar í um 50 löndum. Hjá fyrirtækinu og dótturfélögum þess starfa um 5.000 manns. Höfuðstöðvar Bluebird eru á Íslandi og forstjóri fyrirtækisins er Sigurður Ágústsson.