Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Heiminum hefur verið haldið í greipum óttans síðustu misseri. Veira hefur geisað sem enginn sér nema sá sem rýnir í smásjá, en þó getur hún gert usla og kostað milljónir manna lífið.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Heiminum hefur verið haldið í greipum óttans síðustu misseri. Veira hefur geisað sem enginn sér nema sá sem rýnir í smásjá, en þó getur hún gert usla og kostað milljónir manna lífið. Oft hefur virst ætla að rofa til, ekki síst þegar afrek var unnið og bóluefni þróuð gegn veirunni.

En hún lék á þau öll og hélt áfram að dreifa sér. Voru þá bundnar vonir við að veiran yrði veikari fyrir vikið og minna skeinuhætt. Voru því sár vonbrigði þegar vísindamenn, m.a. á vegum Íslenskrar erfiðagreiningar, lýstu því yfir að vonin væri tálsýn. Í raun væri verra að sitja uppi með veikari en meira smitandi veiru. Almenningur veit eðli máls samkvæmt ekki sitt rjúkandi ráð í upplýsingaóreiðu sem þessari.

En nýja afbrigðið, Ómíkrón, sem í lok nóvember var talið að yrði jafnvel enn verra og mannskæðara en Delta, virðist hálfgerð himnasending. Fáir veikjast og einkennin oftast miklu vægari. Enginn liggur á gjörgæslu hér á landi vegna þess.

Og dreifingin, sem virðist vera hömlulaus, fríar yfirvöld að stórum hluta frá því að grípa til endalaust harkalegri aðgerða. Það er ekki til neins, annars vegar vegna þess að dreifingin heldur bara áfram og einnig vegna þess að almenningur er ekki tilbúinn að elta út í hið óendanlega, þegar áhrifin af völdum afbrigðisins virðast í öllu tilliti viðráðanleg.

Nú þegar hlutabréfaverð flugfélaganna hefur tekið snarpan kipp upp á við hefur markaðurinn kveðið upp sinn dóm. Fæstir sem þar spila gera það að gamni sínu. Ferðaviljinn vex og vex þegar almenningur hættir að láta óttann stýra för.