[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgeir Jónas Andrésson fæddist 5. janúar 1947 í Reykjavík og ólst upp í Norðurmýri. „Ég var á sumrum í sveit hjá frændfólki mínu í Þrándarholti í Gnúpverjahreppi hinum forna og á þaðan góðar minningar.

Þorgeir Jónas Andrésson fæddist 5. janúar 1947 í Reykjavík og ólst upp í Norðurmýri. „Ég var á sumrum í sveit hjá frændfólki mínu í Þrándarholti í Gnúpverjahreppi hinum forna og á þaðan góðar minningar.“

Hann gekk í Austurbæjarskóla og Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1966. Hann lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1969 og meistaraprófi í verkfræði frá DTH (nú DTU) í Kaupmannahöfn árið 1972.

Þorgeir starfaði sem verkfræðingur hjá Hönnun verkfræðistofu frá 1972 til 1979. Hann réðst til Landsvirkjunar árið 1980 og starfaði þar og hjá Landsneti til 2016. Hann vann sem ráðgjafi hjá Verkfræðistofunni ARA Engineering 2017-2018. „Starfsvettvangur minn var nær eingöngu í uppsetningu og rekstri á háspennulínum og spennistöðvum.“

Hann stundaði söngnám í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Garðars Cortes óperusöngvara og Guðrúnar A. Kristinsdóttur píanóleikara. Hann naut einnig tilsagnar hjá óperusöngkonunni Liliönu Aabye í Hamborg og hins þekkta píanóleikara dr. Eriks Werba bæði hérlendis og erlendis. Þorgeir var ráðinn söngvari hjá ríkisóperunni í Hamborg 1986 og við Wagner-hátíðina í Bayreuth í Þýskalandi 1987.

Hann hefur sungið einsöng með fjölda íslenskra kóra, m.a. Fóstbræðrum, Gömlum Fóstbræðrum, Kór íslensku óperunnar, Fílharmóníusveitinni, Stefni, Karlakór Akureyrar, Mótettukór Hallgrímskirkju, Dómkórnum, Kvennakór Reykjavíkur og Karlakórnum Heimi í Skagafirði. Þorgeir hefur sungið inn á fjölda geisladiska.

Helstu hlutverk Þorgeirs á óperusviðinu eru Svanurinn í Carmina Burana, Borsa í Rigoletto, Tamino í Töfraflautunni, Rudolfo í La Boheme, Cassio í Otello, Gastone í La Traviata, Edwin í Sardasfurstynjunni, Nornin í Hans og Grétu, Camille í Kátu ekkjunni, Keisarinn í Turandot, Loki í Niflungahring R. Wagners og Galdra-Loftur í samnefndri óperu Jóns Ásgeirssonar sem flutt var á listahátíð í Reykjavík 1996.

Spurður hvað sé eftirminnilegast á söngferlinum svarar Þorgeir að það sé þátttaka hans í frumflutningi á óperunni Galdra-Lofti eftir Jón Ásgeirsson en þar söng Þorgeir titilhlutverkið. Í umsögn Morgunblaðsins frá þessum tíma segir Þuríður Pálsdóttir óperusöngkona m.a.: „Þorgeir Andrésson fer með hið kröfuharða hlutverk Lofts og er erfitt að ímynda sér að nokkur annar tenór hefði fetað í fótspor hans í því hlutverki. Þorgeir vann stóran söng- og leiksigur með frammistöðu sinni í Galdra-Lofti.“

Þorgeir hefur síðustu misseri og ár verið að syngja með Gömlum Fóstbræðrum og Karlakórnum Heimi í Skagafirði sem hann heldur mikið upp á. „Ég var að syngja með Heimi undir stjórn Stefáns Gíslasonar frá Miðhúsum fyrir tveimur árum. En við náðum bara að halda eina tónleika, sem voru í Eyjafirði, áður en lokað var fyrir það út af Covid. Núna held ég mér við í söngnum með því að hreyfa röddina, ég segi nú ekki á hverjum degi, svo hún sé í lagi þegar á þarf að halda.

Svo er nú annað sem hefur verið að hrjá mig undanfarin ár og það er golfið en ég greindist með golfbakteríuna fyrir fimmtán árum. Ég bý svo vel að það er fyrirtaks golfvöllur í nágrenni við mig, Nesvöllurinn, þar sem ég spila og víða annars staðar með vinum mínum og félögum. Svo er það fjölskyldan, ég reyni að vera með mínu fólki eins og kostur er, en það er bæði sunnan og norðan heiða.“

Fjölskylda

Eiginkona Þorgeirs er Guðrún Erla Sigurðardóttir f. 11.2. 1957, lögfræðingur og íslensku- og þýskukennari við Kvennaskólann í Reykjavík. Þau búa í Reykjavík. Foreldrar Guðrúnar Erlu voru hjónin Guðrún Ingibjörg L. Guðjónsdóttir, f. 6.1. 1916, d. 11.7. 1999, húsfreyja og Sigurður Kári Jóhannsson, f. 21.1. 1916, d. 28.9. 1995, stýrimaður. Fyrri eiginkona Þorgeirs er Þrúður Gunnlaugsdóttir, f. 4.5. 1945, fyrrverandi bankastarfsmaður.

Börn Þorgeirs eru: 1) Gunnlaugur, f. 3.7. 1968, leigubílstjóri, maki: Eva Björg Skúladóttir, náms- og starfsráðgjafi, f. 27.4. 1976, d. 15.8. 2020; 2) Andrés Kristinn, f. 2.4. 1974, verkstjóri, maki: Aldís Björg Guðjónsdóttir heilsunuddari; 3) Viðar, f. 10.7. 1976, tölvunarfræðingur; 4) Hjörtur, f. 3.3. 1993, háskólanemi í DTU Kaupmannahöfn, unnusta: Kinga Sofia Demény, háskólanemi við Háskóla Íslands; 5) Guðrún Ingibjörg, f. 16.4. 1993, læknir, maki: Haukur Smári Hlynsson hjúkrunarfræðingur.

Barnabörnin eru Herdís Ósk, Auðbjörg Kristín, Guðjón Örn, Þorgeir Viðar og Þrúður Júlía.

Systkini Þorgeirs: Viðar Andrésson, f. 3.11. 1934, d. 10.12. 1962; Erna A. Hansen, f. 22.1. 1936, húsmóðir; Sigrún Andrésdóttir, f. 10.2. 1939, fyrrverandi fiðlu- og söngkennari; Kristín Guðlaug Andrésdóttir, f. 11.11. 1940, fyrrverandi skólastjóri; Þorgeir Jónas Andrésson, f. 1.11. 1943, d. 28.7. 1944.

Foreldrar Þorgeirs voru hjónin Andrés Kristinn Hansson, f. 15.4. 1908, d. 3.7. 1996, vörubílstjóri og Þuríður Björnsdóttir, f. 10.11. 1910, d. 24.7. 2003, húsfreyja. Þau bjuggu í Reykjavík, lengst af á Skeggjagötu 25 í Norðurmýri.