Heilbrigðisráðherra hefur breytt reglum um sóttkví fyrir fólk sem er þríbólusett eða hefur verið bólusett tvisvar og smitast af kórónuveirunni. Í tilkynningu segir að breyttar reglur, sem tóku gildi í gær, eigi við um tvo hópa.

Heilbrigðisráðherra hefur breytt reglum um sóttkví fyrir fólk sem er þríbólusett eða hefur verið bólusett tvisvar og smitast af kórónuveirunni. Í tilkynningu segir að breyttar reglur, sem tóku gildi í gær, eigi við um tvo hópa.

Annars vegar einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi var útsettur fyrir smiti. Hins vegar einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir.

Áfram gildir grímuskylda

Breytingarnar eru á þann veg að viðkomandi er heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur.

Þeim er aftur á móti óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt var að ofan.

Þá er þeim skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð.

Þeim er óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar, og er sömuleiðis skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.

Eru breytingarnar sagðar gerðar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.