Upplifun Tónleikasalurinn Oratorio del Gonfalone er skreyttur 16. aldar freskum í hólf og gólf. Pamela De Sensi stjórnar framhaldsnemendum Tónlistarskóla Kópavogs á tónleikum.
Upplifun Tónleikasalurinn Oratorio del Gonfalone er skreyttur 16. aldar freskum í hólf og gólf. Pamela De Sensi stjórnar framhaldsnemendum Tónlistarskóla Kópavogs á tónleikum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þátttakendur öðlast dýrmæta reynslu í svona samstarfi, efla tengslanet sitt og eignast jafnvel vini fyrir lífstíð,“ segir flautuleikarinn Pamela De Sensi sem kennir við Tónlistarskóla Kópavogs.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þátttakendur öðlast dýrmæta reynslu í svona samstarfi, efla tengslanet sitt og eignast jafnvel vini fyrir lífstíð,“ segir flautuleikarinn Pamela De Sensi sem kennir við Tónlistarskóla Kópavogs. Í samstarfi við tvo aðra kennara skólans, þ.e. Eydísi Franzdóttur óbóleikara og Ásdísi Hildi Rúnólfsdóttur fiðluleikara, skipulagði hún tónleikaferð 17 nemenda sem eru í framhaldsnámi við Tónlistarskóla Kópavogs til Ítalíu um miðjan desember. Nemendurnir, sem eru á aldrinum 14-20 ára, eru að læra á flautu, píanó, fiðlu, klarínett, gítar og hörpu.

„Tónleikaferðin var haldin í tengslum við Erasmus+ verkefni tónlistarskólans,“ segir Pamela og rifjar upp að verkefnið hafi hafist 2018 og átt að vera til tveggja ára. „Verkefnið felur í sér samstarf milli Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarháskólans Santa Cecilia í Róm og tónlistardeildar Tækniháskólans í Luleå í Svíþjóð,“ segir Pamela og tekur fram að það hafi auðvitað veitt nemendum Tónlistarskóla Kópavogs mikinn innblástur að starfa með háskólanemum í hinum skólunum tveimur.

Með plan a, b, c og jafnvel d

„Vorið 2019 fór hópur framhaldsnema við Tónlistarskóla Kópavogs í tónleikaferða til Rómar, en áður höfðum við fengið nemendur og kennara samstarfskólanna til okkar. Þetta heppnaðist allt mjög vel. Seinni hluti verkefnisins hófst í upphafi árs 2020, þegar nemendur úr Santa Cecilia Tónlistarskólanum í Róm, komu til Íslands og héldu með okkur tónleika í Salnum og Hörpu,“ segir Pamela og rifjar upp að tónleikarnir í Hörpu hafi verið hluti af Myrkum músíkdögum 2020. „Á efnisskránni var frumflutningur nútímatónverka sem tónsmíðanemendur við tónlistardeild Tækniháskólans í Luleå í Svíþjóð höfðu samið sérstaklega fyrir okkur,“ segir Pamela og bendir á að ætlun íslenska hópsins hafi verið að fara með sömu efnisskrá í tónleikaferð til Rómar vorið 2020, en yfirstandandi heimsfaraldur þá sett strik í reikninginn.

„Nemendurnir höfðu því beðið í hálft annað ár eftir að komast í seinni tónleikaferðina og einstaklega ánægjulegt að af henni hafi orðið núna,“ segir Pamela og tekur fram að ferðin hafi öll gengið eins og í sögu. Hún játar því að flækjustigið hafi verið meira með tilkomu Covid-19, en stuttu fyrir brottförina til Ítalíu hafi beina flug hópsins verið fellt niður og hann því þurft að millilenda í Amsterdam á leið sinni út. „Við vorum með plan a, b, c og jafnvel d, því við vildum undirbúa okkur eins vel og hægt væri ef eitthvað óvænt skyldi koma upp. En sem betur fer gekk þetta allt ótrúlega vel og dvölin í Róm reyndist sannkallað ævintýri. Hópnum gafst m.a. tækifæri á að skoða Kólosseum, Péturskirkjuna, Vatíkanið, njóta stemningarinnar í borginni og ekki síður matarmenningarinnar,“ segir Pamela og tekur fram að hópurinn hafi komið fram á þremur tónleikum við afar góðar viðtökur viðstaddra.

Nemendur koma heim reynslunni ríkari

„Fyrstu tónleikarnir voru hluti af í tónleikaröðinni „20 Eventi“ í Santa Lucia-kirkjunni, aðrir í hinum fræga tónleikasal Accademica Sal í Santa Cecilia og þriðju í einstökum tónleikasal Oratorio del Gonfalone sem er skreyttur 16. aldar freskum í hólf og gólf,“ segir Pamela og bætir við: „Það var mjög tilfinningaþrungin stund fyrir mig að sjá tvo 14 ára nemendur mína koma fram í Santa Cecilia, því þegar ég var á þeirra aldri fyrir um þremur áratugum þreytti ég í þessum sama sal inntökupróf mitt í tónlistarháskólann,“ segir Pamela og tekur fram að sérlega ánægjulegt hafi einnig verið að sjá nemendahópinn blómstra og koma heim reynslunni ríkari. „Þegar kennslan hófst aftur eftir jólafrí var líka greinilegt að þau höfðu öll verið dugleg að æfa sig í fríinu, þannig að það er ljóst að svona ferð veitir mikinn innblástur og hvatningu í áframhaldandi vinnu.“ Í ljósi góðrar reynslu Tónlistarskóla Kópavogs af Erasmus+ verkefnum segir Pamela mikill áhugi hjá skólanum og stjórnendum hans að taka þátt í fleiri slíkum verkefnum. „Við tókum þannig þátt í Erasmus+ verkefni með tónlistarskóla í Tékklandi 2019 og stefnum að tónleikaferðalagi til Tékklands 2022,“ segir Pamela bjartsýn að lokum.