Með greiningu frárennslisvatns mætti sjá umfang smitbylgju mun fyrr en ella

Í Ottawa, höfuðborg Kanada, kom Ómíkron-afbrigðið af kórónuveirunni fyrst fram 11. desember. Viku síðar var afbrigðið orðið allsráðandi í útbreiðslu veirunnar. Ómíkron-afbrigðið var sérlega fljótt að ná undirtökunum. Það hafði tekið Alfa-afbrigðið fjórar vikur að ryðja forvera sínum úr vegi og Delta-afbrigðið tvær vikur.

Þessar niðurstöður fengu Kanadamennirnir ekki með hefðbundnum hætti. Þær komu beint úr klóakinu.

Í borginni eru tekin sýni með skipulögðum hætti úr frárennslisvatni borgarbúa og var byrjað á því strax í apríl 2020. Þannig geta yfirvöld fylgst með og verið viðbúin því sem koma skal. Í Boston í Massachusetts er unnið með svipuðum hætti. Þar er líkt og í Ottawa hægt að fara inn á heimasíðu veitustofnana ríkisins og fylgjast með niðurstöðum mælinga í hreinsistöðvum.

Nú stendur til að taka þessar aðferðir markvisst upp í Þýskalandi og örugglega víðar.

Ómíkron-afbrigðið hefur breiðst hratt út hér á landi líkt og annars staðar og hafa verið uppi getgátur um að það sé mun útbreiddara en tölur um smit segja til um, ekki síst vegna þess að margir finna lítil sem engin einkenni. Einkennalaust fólk hefur að öðru óbreyttu ekki ástæðu til að fara í sýnatöku og því líklegt að fjöldi smita sé ógreindur. Þetta ætlar Íslensk erfðagreining einmitt að kanna nú í upphafi árs til að komast að því hversu útbreidd veiran er í raun þessa dagana.

Hér hafa sýni úr frárennslisvatni verið notuð til að greina ýmislegt. Helst hefur ratað í fréttir þegar það hefur verið gert til að greina umfang fíkniefnaneyslu.

Með því að greina frárennslisvatnið úr holræsunum gætu heilbrigðisyfirvöld áttað sig á því mun fyrr en ella jafnvel þannig að munaði einni eða tveimur vikum. Smit kæmi fram í þvagi einstaklings nokkru áður en hann fyndi fyrir einkennum. Með þessari aðferð væru þegar komin svör við þeim spurningum, sem leita á svara við með rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar, og Persónuvernd hefði tæplega tilefni til afskipta.

Heilbrigðisyfirvöld hafa iðulega líkt baráttunni við kórónuveiruna við blindflug. Hér er komið tæki sem gæti auðveldað blindflugið.