Rithöfundurinn „Ég vona að ég megi vera hluti af þessum flotta hópi af íslenskum rithöfundum,“ segir Joachim.
Rithöfundurinn „Ég vona að ég megi vera hluti af þessum flotta hópi af íslenskum rithöfundum,“ segir Joachim. — Ljósmynd/Eva Schram
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Svissneski rithöfundurinn Joachim B. Schmidt er búsettur hér á landi, skrifar um íslenskan veruleika fyrir þýskan markað og nú hefur fyrsta bók eftir hann verið þýdd á íslensku, glæpasagan Kalmann .

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Svissneski rithöfundurinn Joachim B. Schmidt er búsettur hér á landi, skrifar um íslenskan veruleika fyrir þýskan markað og nú hefur fyrsta bók eftir hann verið þýdd á íslensku, glæpasagan Kalmann .

Aðalpersóna bókarinnar heitir einmitt Kalmann og segir Joachim að hann sé svolítið sérstakur. „Hann býr á Raufarhöfn og hann er ánægður með lífið þar. Hann er hákarlaveiðimaður og stundum fer hann í refa- eða rjúpnaveiði. Kalmanni finnst hann vera svolítill „sheriff“, hann gengur um með kúrekahatt, „sheriff“-stjörnu og óhlaðna byssu.“

Svo hverfur ríkasti maður bæjarins, sá eini sem á enn svolítinn kvóta og er auk þess hóteleigandi. Kalmann kemur að blóðpolli sem eru einu verksummerkin eftir hvarfið. Þannig dregst hann inn í sakamálið, lögreglan kemur á staðinn og hann er sá fyrsti sem er yfirheyrður. „Þannig byrjar þetta allt saman og líf Kalmanns fer svolítið úr böndunum.“

Um valið á söguviðinu, Raufarhöfn, segir höfundurinn: „Hugmyndin var að skrifa alvöru íslenskan krimma svo ég var að leita að stað sem mér fannst tilvalinn fyrir það. Raufarhöfn kom illa út úr kvótabraski og fólk flutti burt. Svo var reynt að byggja steinverkið Heimskautsgerðið en það er hálfklárað, það vantar pening í það. Mér fannst eins og ég þekkti Raufarhöfn.“

Joachim fannst hann hafa fundið stað þar sem manni liði eins og maður væri kominn á hjara veraldar. „Mér fannst það mjög heillandi fyrir svona bók. Ég hef auðvitað ferðast mikið um landið og farið um sem leiðsögumaður svo ég þekki landið mjög vel. En síðan fór ég til Raufarhafnar til þess að rannsaka málið betur og þá fann ég einhvern veginn allt annan stað en ég bjóst við. Jú jú, allt sem ég sagði er rétt en fólkið á þessum stað var bara svo skemmtilegt og indælt. Allir voru til í spjall og öllum fannst þetta góð hugmynd og gaman að það væri verið að skrifa um Raufarhöfn. Og kannski þess vegna varð til aðeins öðruvísi saga; ekki drungaleg krimmasaga heldur eitthvað skemmtilegra,“ segir hann.

„Kalmann er með smá þroskahömlun og kemur auðvitað með öðruvísi vinkil inn í þetta. Þetta varð allt í einu einhvers konar portrett af Kalmanni á Raufarhöfn en fyrir tilviljun verður þarna eitthvað vesen.“

Vekur áhuga erlendis

Skáldsagan Kalmann hefur fengið góðar viðtökur í hinum þýskumælandi heimi og hlaut Joachim meðal annars Crime Cologne-verðlaunin fyrir bestu glæpasögu sem skrifuð var á þýsku í fyrra.

„Fólk hefur gaman af henni og mér heyrist ferðamenn, sem hafa lesið bókina, vera farnir að fara til Raufarhafnar, trufla fólkið og spyrja eftir þessum „sheriff“. Það er mjög gaman að því,“ segir Joachim.

Bókin hefur nú þegar verið þýdd á nokkur tungumál. „Við vitum það öll að Ísland er mjög vinsælt erlendis, það er alveg sama hvað við gerum þá finnst öllum allt æðislegt hér. Raufarhöfn er kannski ekki venjulegt póstkorta-Ísland eins og við könnumst við úr herferðum eins og Inspired by Iceland. Þessi bók er öðruvísi og fjallar um aðra hlið á Íslandi. Fólki í öðrum löndum finnst það áhugavert.“

Joachim nefnir að íbúar landa á borð við Þýskaland og Sviss kannist vel við vandamál eins og þau sem hafa komið upp á Raufarhöfn. „Það þekkir það þegar smábæir úti á landi einhvern veginn missa tilganginn. Þetta vandamál er þekkt alls staðar, hvernig á að halda samfélagi lifandi svona langt í burtu. Það er heillandi fyrir marga að lesa um og því finnst kannski gaman að lesa að fólki líður samt vel þarna og finnst lífið þarna gott.“

Íslenska þýðingin „stór sigur“

Kalmann kemur nú loks út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar og hefur sú útgáfa mikla þýðingu fyrir Joachim. „Þetta er bara eins og að vinna í lottó. Ég er búinn að berjast fyrir þessu svo lengi. Ég hef verið meðlimur í Rithöfundasambandi Íslands í nokkur ár.“ Hann segir að þar hafi hann verið boðinn velkominn. „Ég er íslenskur ríkisborgari og allt saman. En það vantaði bara þessa bók til þess að sanna að ég væri að gefa út hér og skrifa um okkur hér á Íslandi. Þess vegna er þetta svona stór sigur fyrir mig.

Ég hlakka rosalega til að heyra hvað fólki hér finnst. Ég er ekki fæddur hérna og það er ekki sjálfgefið að ég megi skrifa um fólk til dæmis á Raufarhöfn án þess að hafa búið þar. Ég vona að ég megi vera hluti af þessum flotta hópi af íslenskum rithöfundum.“

Joachim hefur verið búsettur hér á landi síðan árið 2007, hann bjó hér fyrst veturinn 2003-2004 og kom til landsins sem ferðamaður fyrir þann tíma. „Fyrst var ég bara forvitinn. Ég hafði haft mjög gaman af Íslandi sem unglingur og ferðamaður en í dag finnst mér gott að búa hér. Ég á íslenska konu og tvö börn og mér finnst mjög gott að ala upp börn og vera með fjölskyldu á Íslandi. Ég sé marga kosti við það, eins og leikskóla og frístundir. Mér finnst það gott kerfi fyrir fjölskyldur. Svo eru aðrir kostir eins og jafnrétti sem mér finnst Ísland vera framarlega í og Sviss kannski aðeins aftarlega. Sviss er svolítið íhaldssamt svo mér finnst gott að komast úr því þótt ég sakni þess auðvitað líka. Svo heillar náttúran mig auðvitað,“ segir hann og bætir við að hann verði aldrei leiður á henni. „Ég bjóst við að eftir nokkur ár þætti mér ég vera búinn að sjá allt. En jafnvel í dag, það er svo ömurlegt veður, en þessar vindhviður eru samt svo stórkostlegar.“

Hann segist líka njóta þess að sjá kosti og galla samfélagsins. „Fólkið hér er bara venjulegt fólk. Það er ekki allt yndislegt á Íslandi og það er áhugavert, sérstaklega ef ég er að skrifa þá skiptir auðvitað máli að ekki sé allt í góðum málum. Ég get alveg kvartað líka og stundum hlæ ég aðeins of hátt yfir áramótaskaupinu af því maður er hálfreiður. En ég kem alltaf aftur að því að mér finnst gott að búa hér. Ef ég fer til útlanda byrja ég fljótt að sakna Íslands og þá veit ég að ég vil vera þar.“

Næsta bók Joachims kemur út fljótlega í Sviss, Austurríki og Þýskalandi.

„Hún fjallar um Wilhelm Tell, aðalsagnahetjuna í Sviss. Bóndann sem skaut epli af höfðinu á syni sínum. Ég tek þá sögu upp og dæli smá Íslendingasögum inn í söguna. Ég stelst smá í stolt Íslendinga af Íslendingasögunum og reyni að koma því aftur til Sviss því þar eru ekki allir svo stoltir af hetjunum.“