Reyndist þetta fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin sem naut samheldni til að sitja heilt kjörtímabil og gerði svo gott betur með endurnýjuðu og öflugra umboði.

Stjórnmálalífið hefur verið dálítið undarlegt frá þingkosningunum 25. september 2021. Tveggja mánaða töf varð á að alþingi yrði starfhæft vegna óvissu um kjörbréf. Formleg endurnýjun stjórnarsamstarfsins dróst því til 28. nóvember 2021. Þá var stjórnarsáttmálinn kynntur, skipting ráðuneyta milli flokka, fjöldi þeirra og mannval í ráðherrasæti.

Eftir það fór allt á fulla ferð. Forsætisráðherra flutti stefnuræðu 1. desember og fyrsta umræða um fjárlög ársins 2022 fór fram 2. desember. Þingfundir voru til 22. desember og síðan að nýju 27. og 28. desember þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt sem lög frá alþingi.

Að ekki sé forsvaranlegt að kjósa í september vegna þess að þá gefist of skammur tími til að afgreiða fjárlög á ekki við rök að styðjast. Einkennilegt er að nýir þingmenn tali á þennan veg. Almennt hlýtur að koma þeim í fyrstu á óvart hve vinnutímanum á þingi er sóað miðað við aðra staði og hve þingmönnum er erfitt að tileinka sér vinnubrögð til að nýta tímann sem best og á skipulegan hátt.

Í síðustu alþingiskosningum 20. aldarinnar, árið 1999, komst á sú meginflokkaskipan sem enn er. Þá buðu Samfylking og Vinstri-græn fram í fyrsta skipti samhliða Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem sátu saman í ríkisstjórnum frá 1995 til 2007. Frjálslyndi flokkurinn fékk menn kjörna 1999 og átti þingmenn í 10 ár. Fylgið hrundi af honum 2009 í fyrstu alþingiskosningunum eftir bankahrunið.

Í kosningunum 2009 voru sjö flokkar í framboði. Fyrir utan flokkana fjóra fékk Borgarahreyfingin menn kjörna á þing 2009. Hún klofnaði á kjörtímabilinu og komu Píratar í hennar stað 2013, þá fékk Björt framtíð einnig fyrst menn á þing en 15 flokkar voru í kjöri og 6 fengu menn kjörna. Í kosningunum 2016 fékk Viðreisn í fyrsta sinn menn kjörna. Þá voru 12 flokkar í framboði og 7 fengu þingmenn. Árið 2017 fengu Miðflokkur og Flokkur fólksins þingmenn kjörna í fyrsta skipti. Þá voru 11 flokkar í kjöri og 8 fengu þingmenn. Árið 2021 voru einnig 11 flokkar í kjöri og nú gerðist það í fyrsta sinn frá 2007 að enginn nýr flokkur fékk kjörinn mann á þing, sömu flokkarnir 8 hafa því átt menn á þingi frá 2017.

Eftir að þingflokkum fjölgaði reyndist erfiðara að mynda ríkisstjórnir. Ný kjölfesta skapaðist þó að loknum kosningum 2017 þegar forystumenn VG og Sjálfstæðisflokksins tóku höndum saman. Þeir ýttu grundvallarágreiningsmálum til hliðar og mynduðu þriggja flokka stjórn með Framsóknarflokknum. Reyndist þetta fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin sem naut samheldni til að sitja heilt kjörtímabil og gerði svo gott betur með endurnýjuðu og öflugra umboði í kosningunum 25. september 2021.

Aðeins einu sinni frá 2009, í nokkra mánuði 2016 til 2017, komust jaðarflokkar í ríkisstjórn, Björt framtíð og Viðreisn með Sjálfstæðisflokknum. Björt framtíð þoldi ekki álagið og þurrkaðist út í kosningum 2017.

Jaðarflokkarnir sem svo eru nefndir hér brotna yfirleitt af einhverjum hefðbundnu flokkanna, skýrustu dæmin um það nú eru: (1) Miðflokkurinn, stofnandinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, dreif sig af stað að nýju eftir skipbrot innan Framsóknarflokksins, Miðflokkurinn berst nú fyrir lífi sínu. (2) Viðreisn, núverandi flokksformaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hvarf bitur frá varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum. Viðreisn fjarlægist stöðugt upphafserindi sitt, að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Allar fullyrðingar um að bankahrunið haustið 2008 leiddi til uppstokkunar í íslenskum stjórnmálum reyndust rangar. Fjöldi framboða í kosningum til alþingis frá 2013 til 2021 sýnir að gerð hefur verið hver atlagan eftir aðra að grunni flokkakerfisins sem var lagður í kosningunum árið 1999. Atlögurnar hafa misheppnast.

Nú síðast var látið eins og sósíalismi væri kominn í tísku hér og fengi brautargengi með mönnum á þingi. Þeir sigrar unnust hjá álitsgjöfum en ekki við kjörborðið. Skömmu eftir kosningarnar glutruðu sósíalistarnir niður tökunum sem þeir höfðu náð innan alþýðusambandsins með forystu í Eflingu. Hröktust þeir þaðan vegna ásakana um ofríki og mannvonsku.

Snurðulaus afgreiðsla fjárlaga á skömmum tíma fyrir áramót sannaði að góður einhugur er innan þingmeirihlutans. Eftir að þing kemur saman 17. janúar 2022 er markmið forsætisráðherra að fyrir 1. febrúar verði samþykkt þingsályktunartillaga hennar um skipan ráðuneyta. Tillagan er arfur frá stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur sem böðlaði stjórnarráðsfrumvarpi sínu í gegnum þingið um mitt ár 2011.

Frumvarpið flutti Jóhanna í trássi við tvo ráðherra í stjórn sinni og við mikla óánægju innan þingflokks VG. Í þingumræðum var hún sökuð um að ganga gegn varnaðarorðum rannsóknarnefndar alþingis um hættuna af „oddvitaræði“ eða „foringjaræði“. Til að sporna gegn hættunni setti þingnefnd í frumvarpið ákvæði um að ekki yrðu gerðar breytingar á ráðuneytum án samþykkis alþings. Þingsályktunartillaga forsætisráðherra er flutt vegna þessa ákvæðis.

Ýmislegt er enn óljóst varðandi breytta verkaskiptingu milli ráðuneyta. Þau mál skýrast vafalaust í þingumræðunum. Þá hlýtur starfsheitið dómsmálaráðherra að koma til sögunnar að nýju. Skrýtið er að kalla ráðherra dómsmálaráðuneytisins innanríkisráðherra. Enn undarlegra er að rekja þetta nafnarugl til þess að núverandi ráðherra sé ólöglærður. Áður hafa aðrir en löglærðir setið í embætti dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is