Faraldurinn Togarinn Júlíus Geirmundsson ÍS komst í fréttir árið 2020 þegar kórónuveirusmit komu upp um borð. Nú gerðist það aftur í vikunni.
Faraldurinn Togarinn Júlíus Geirmundsson ÍS komst í fréttir árið 2020 þegar kórónuveirusmit komu upp um borð. Nú gerðist það aftur í vikunni. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Fimm skip þurftu að snúa aftur til hafnar í fyrstu viku ársins eftir að upp kom grunur um smit meðal skipverja. Öll tilvikin eiga það sameiginlegt að allir í áhöfnunum voru skimaðir fyrir brottför og að einn eða fleiri skipverjar greindust með hraðprófi um borð, um það bil sólarhring eftir að lagt var frá bryggju.

Fréttaskýring

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fimm skip þurftu að snúa aftur til hafnar í fyrstu viku ársins eftir að upp kom grunur um smit meðal skipverja. Öll tilvikin eiga það sameiginlegt að allir í áhöfnunum voru skimaðir fyrir brottför og að einn eða fleiri skipverjar greindust með hraðprófi um borð, um það bil sólarhring eftir að lagt var frá bryggju.

Ljóst er að sjávarútvegurinn hefur ekki farið varhluta af faraldrinum sem haft hefur áhrif á samfélagið allt, enda um 5% þjóðarinnar komin í sóttkví eða einangrun. Þróun síðustu daga veldur bæði sjómönnum og útgerðum áhyggjum þar sem báðir aðilar kunna að sjá fram á tekjumissi, jafnvel aukinn kostnað í tilfelli útgerðanna. Þá virðist vera vaxandi óánægja meðal sjómanna sjálfra og útgerðanna með þær reglur sem gilda um sóttkví fyrir sjómenn sem kunna að vera þríbólusettir og við góða heilsu. Í breyttum reglum um sóttkví, sem kynntar voru í gær, segir að heimilt sé að sækja vinnu að uppfylltum skilyrðum, en óljóst er hvernig það verður framkvæmt þegar áhafnir skipa eru annars vegar.

Meðal útgerðarmanna hefur heyrst að það sé ákveðinn léttir fyrir suma að smitin séu að koma upp á þessum árstíma þar sem veður á það til að trufla veiðar hvort sem er, en á móti eru áhyggjur af því að þetta bæti í þau vandræði. Virðast ólík sjónarmið stjórnast af tegund og stærð útgerða þar sem sumar útgerðir kunna að vera mjög háðar stökum skipum sem afla mikilla verðmæta enda getur hver úthaldsdagur sem ekki er nýttur verið dýr í slíkum tilfellum.

Þá er söguleg loðnuvertíð hafin og hefur verið rætt um að útgerðir kunna að verða í erfiðum að ná öllum þeim afla sem þeim hefur verið úthlutað. Bætir það gráu ofan á svart að missa skip úr veiðum við slíkar aðstæður.

Haldi skipum við bryggju

Skipverji sem reynist smitaður af kórónuveriunni er skikkaður í einangrun, en hann heldur aflahlutdeild sinni og þar með tekjum sínum þar sem hann telst vera frá vinnu vegna veikinda.

Einn útgerðaraðili sem blaðamaður ræddi við velti því upp hvort útgerðir muni sjá hag sinn í því að halda skipum við bryggju ef stór hluti áhafnarinnar reynist smitaður þar sem mikill kostnaður fylgi því að greiða bæði sjómönnum í veikindaleyfi og afleysingamönnum aflahlutdeild. Ekki er vitað til þess að slík staða hafi komið upp til þessa.

Víða er þó óttast að minni veiði kunni í einhverjum tilvikum að hafa áhrif á vinnslurnar sem gæti skort hráefni þegar færri geta sótt sjóinn og er þegar verið að takast á við töluverða skerðingu í þorskkvótanum.

Tekjumissir fyrir sjómenn

Staðan hefur til þessa verið allt önnur fyrir þá sem sæta sóttkví og verða því af aflahlutdeild sinni. Sjómenn í sóttkví hafa í besta falli fengið hámarksgreiðslur sem ríkið veitir vegna sóttvarnaaðgerða og nema þær 21.100 krónum á dag, eða 105.500 krónum miðað við fimm daga í sóttkví. Um er að ræða töluvert lægri upphæð en hefði fengist fimm daga á sjó og verða sjómenn fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna þessa.

Oft vinna tvær áhafnir á skipi á móti hvor annarri og ljóst að fleiri dagar úr túr geta haft verulegar afleiðingar fyrir tekjuöflun. Hafa sjómenn því haft áhuga á því að fundnar verði einhverjar nýjar lausnir við útfærslu sóttkvíar sjómanna.

Sóttvarnayfirvöld hafa leitað til Sjómannasambands Íslands vegna hugsanlegs samráðs um sóttvarnareglur.