50 ára Eiður er Akureyringur, nánar tiltekið Innbæingur, en býr í Vesturbænum í Reykjavík. Hann er með tvær BA-gráður, annars vegar í sálfræði og hins vegar í íslensku, hvort tveggja frá Háskóla Íslands.
50 ára Eiður er Akureyringur, nánar tiltekið Innbæingur, en býr í Vesturbænum í Reykjavík. Hann er með tvær BA-gráður, annars vegar í sálfræði og hins vegar í íslensku, hvort tveggja frá Háskóla Íslands. Eiður er í meistaranámi í íslenskum fræðum, en er í hléi frá námi og vinnur á leikskólanum Barónsborg.

Áhugamál Eiðs er grúsk af öllu tagi, meðal annars bókmenntir og eldamennska. „Ég er mjög heimakær og finnst best að dunda mér þar. Ég hef mikinn áhuga á tungumálinu og hef verið að setja smá texta saman, en hef aðallega notað Fésbókina til þess, hef ekki gefið neitt út. Til dæmis hef ég klætt hugleiðingar um bernsku mína í skáldlegan búning og kalla þær örleiðingar. Ég hef einnig skrifað pistla um kynjamál og ný hlutverk kynjanna og Fésbókin er góður vettvangur til þess. Mér finnst mikilvægt að fella úr gildi ýmsar óskráðar reglur samfélagsins um hegðun og klæðnað kynjanna.“

Eiður safnar Laxnessbókum og á um 550 bækur eftir Halldór Laxness, bæði íslenskar og erlendar útgáfur, og margar frumútgáfur. „Núna er ég að lesa Sturlungu, fékk nýja safnið í jólagjöf frá kisunni okkar Unu, honum Litlakisa. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég les Sturlungu í heild, en las auðvitað hluta af henni í náminu.“

Fjölskylda Eiginkona Eiðs er Una Margrét Jónsdóttir, f. 1966, dagskrárgerðarkona á Rás 1 og rithöfundur. Systkini Eiðs eru Aðalgeir, f. 1970, og Alma Lára, f. 1979. Foreldrar Eiðs voru Hólmsteinn Hreiðar Aðalgeirsson, f. 1924, d. 1997, múrarameistari, og Guðrún Ólína Valdimarsdóttir Thorarensen, f. 1938, d. 2017, en auk heimilisstarfa vann hún á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Dvalarheimilinu Hlíð.