Alls eru nú 26.775 manns á aldrinum 12-59 ára óbólusettir á Íslandi samkvæmt skráningu á Covid.is. Flestir þeirra eru í aldurshópnum 16-29 ára eða tæplega níu þúsund manns en næstfjölmennasti hópurinn er 30-39 ára en þar eru um 7.500 manns óbólusettir.

Alls eru nú 26.775 manns á aldrinum 12-59 ára óbólusettir á Íslandi samkvæmt skráningu á Covid.is. Flestir þeirra eru í aldurshópnum 16-29 ára eða tæplega níu þúsund manns en næstfjölmennasti hópurinn er 30-39 ára en þar eru um 7.500 manns óbólusettir.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að í haust hafi verið skoðað hverjir skiluðu sér ekki í bólusetningu og þá hafi komið í ljós að flestir þeirra voru á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallslega flestir á Suðurnesjum. Fleiri karlmenn en konur eru óbólusettir og ástandið er verst hjá fólki undir fertugu. Þá segir hún að algengt hafi verið að óbólusettir bæru erlend nöfn. „Þetta gaf okkur vísbendingar sem við nýttum okkur þegar við fórum af stað með bólusetningarbílinn. Þar leituðum við til dæmis uppi erlenda karlmenn sem unnu hjá byggingarfyrirtækjum.“

Hún segir að mikil aukning hafi verið í bólusetningu númer 1 að undanförnu, til að mynda hjá fólki sem ferðaðist til annarra landa fyrir jólin. Þá segir Ragnheiður að tölur um óbólusetta kunni að vera villandi, þýðið sé mögulega ekki rétt. Til að mynda séu Íslendingar sem búsettir eru erlendis og hafa verið bólusettir þar ekki skráðir bólusettir hér. Þetta hafi komið skýrt fram þegar margir námsmenn sóttu sér örvunarsprautu í heimsókn hingað yfir jólin. Eins sé óvíst að allir þeir erlendu ríkisborgarar sem hér eru skráðir séu enn á landinu.

Ragnheiður bendir á að einnig sé vert að hafa áhyggjur af stórum hópi fólks sem sé á ónæmisbælandi lyfjum, til að mynda nýjum líftæknilyfjum. Þúsundir séu í þeim hópi og hafi þeir þegið bólusetningu en hún skilar í raun engu. hdm@mbl.is