Guðjón Elisson fæddist í Grundarfirði 3. febrúar 1958. Hann lést á Landspítalanum 29. desember 2021.

Foreldrar Guðjóns eru Elis Guðjónsson, f. 9. ágúst 1931, d. 20. desember 2016, og Bára Bergmann Pétursdóttir, f. 2. desember 1935. Systkini Guðjóns eru Ómar Bergmann, f. 7. júní 1955, Pétur Kristinn, f. 14. júlí 1960, d. 27. maí 2008, Ægir Már, f. 14. maí 1966, og Sigríður Elísabet, f. 24. desember 1968.

Sonur Guðjóns er Kristján, f. 2. febrúar 1979, og dóttir hans er Iðunn Gígja. Sambýliskona Kristjáns er Fríða María Harðardóttir, f. 28. febrúar 1974, og hennar börn eru Sunneva Líf Albertsdóttir og Þorgeir Atli Albertsson. Fyrri sambýliskona Guðjóns var Karítas Anna Þórðardóttir, f. 24. febrúar 1956, d. 13. október 2013. Hennar börn eru 1) Atli Már Hafsteinsson, f. 29. júlí 1977, sambýliskona Sonja Helena Gunnarsdóttir, f. 25. júní 1974. Sonur Atla er Bjartur Ýmir. Börn Sonju eru Vincenzo Atli og Anita. Sonur Vincenzo er Kristófer Antonio. 2) Árni Þórarinsson, f. 3. september 1984, sambýliskona Birna Vala Eyjólfsdóttir, f. 8. maí 1987. Dóttir Árna er Heiða María og sonur Birnu er Hermann Valur. 3) Anna Dís Þórarinsdóttir, f. 15. maí 1986, maki Narfi Jónsson, f. 3. apríl 1986, dætur þeirra eru Vigdís og Sesselja. Sambýliskona Guðjóns er Grazyna Zofia Bajda, f. 22. janúar 1963. Börn hennar eru 1) Katarzyna Bajda, f. 25. nóvember 1990, maki Adrian Oleszczuk, f. 19. janúar 1988. Börn þeirra eru Alexander Dominik og Anna Maria. 2) Dominik Bajda, f. 22. maí 1992, sambýliskona Agnes Sif Eyþórsdóttir, f. 19. júní 1988.

Eftir skyldunám fór Guðjón í Héraðsskólann í Reykholti og þaðan í Menntaskólann á Laugarvatni. Þar lauk hann stúdentsprófi frá eðlisfræðibraut árið 1979. Eftir að hafa til skamms tíma starfað sem kennari við Grunnskólann í Grundarfirði og við fiskvinnslu í frystihúsinu Sæfangi, lá leið hans í Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði þaðan sem hann útskrifaðist sem fisktæknir. Guðjón hélt svo áfram störfum í Sæfangi sem verkstjóri. Um þriggja ára skeið var hann háseti á Runólfi SH 135. Síðar hóf hann smábátaútgerð ásamt bróður sínum sem þeir ráku um 20 ára skeið. Síðustu ár hefur Guðjón verið virkur í ýmsum félagsstörfum í Grundarfirði.

Útför Guðjóns fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 8. janúar 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi.

Eftir standa þessi þrjú hjörtu sem þú sendir í SMS-skilaboðum eftir að ég hafði sent þér batakveðjur og sagst hringja þegar þú gætir svarað í símann. Þetta var það síðasta sem okkur fór á milli.

Í sumar léstu mig hafa minniskubb með gömlum myndbandsupptökum sem þú tókst á gömlu VHS-vélina. Ég horfði á þessa furðulegu tímavél sem fór með mig 36 ár aftur í tímann. Þar voru meðal annars ógnarlöng skot af mér með einhverja stæla við myndavélina. Mér fannst svolítið erfitt að horfa á þetta svo ég setti kubbinn ofan í skúffu án þess að horfa til enda. Eftir að þú kvaddir lauk ég við að horfa og er nú svo innilega þakklátur fyrir þessa síðustu gjöf frá þér.

Uppvaxtarárin mín bjóst þú heima hjá ömmu og afa og ég fékk að vera hjá ykkur í öllum skólafríum. Drykkjan varpaði nokkrum skugga á okkar samband en þú náðir seinna að sigrast á henni með þeirri aðdáunarverðu skapfestu sem einkenndi þig.

Þú varst jákvæður að eðlisfari og gerðir oft grín að bölsýninni í mér. Eitt sumarið kenndir þú mér að lesa. Þú bjóst yfir þeirri þolinmæði sem einkennir góða kennara. Þú keyptir möppu og lestrarblöð í Pöllubúð og verðlaunaðir mig eftir hvert blað sem ég lauk við að lesa. Ég á því þér að þakka að ég varð snemma læs. Þú varst mikill verkmaður og kunnir ýmislegt fyrir þér í smíði. Ég naut góðs af því. Einu sinni smíðaðir þú boga og örvar handa mér sem nú á tímum hefðu umsvifalaust verið haldlögð af lögreglunni. Þú sveigðir harðviðinn með því að bleyta hann og þvinga þar til sveigjan og spennan voru nægileg til að skjóta af stéttinni heima og alveg út að Sæfangi. Þú smíðaðir líka stultur handa okkur Svenna Sveins og kenndir okkur að ganga á þeim. Eitt sinn fengum við Svenni þá djörfu hugmynd að smíða svifdreka. Þér fannst það bara prýðishugmynd og hjálpaðir okkur við smíðina þó að þú aftækir með öllu að við hoppuðum af bílskúrsþakinu.

Frá 15 ára aldri og fram yfir tvítugt var ég á sjónum með þér á sumrin. Ég dáðist að þekkingu þinni og verklagni. Þú kenndir mér að staðsetja miðin út frá kennileitunum í landi. Oftast fórum við snemma morguns og komum aftur að kveldi. Mér er því sérstaklega minnisstætt þegar við fórum alla leið út á Fláka og vörpuðum akkeri undir Skor yfir nóttina. Lágum svo í koju og töluðum saman um heima og geima í lygnri sumarnóttinni.

Einhvern tíma fyrir löngu síðan fórum við saman í göngu. Síðar skaut minningunni um þessa göngu oft upp í huga mér og ég óskaði þess að þær yrðu fleiri. Við lögðum af stað snemma morguns og gengum upp Arnardalinn, austan bæjarins. Fórum um Arnardalsskarð og gengum með fjallgarðinum sunnanverðum í blíðskaparveðri. Undir kvöld fórum við norður yfir fjallgarðinn í Helgrindum, fetuðum okkur niður í Seljadalinn og heim. Við sólbrunnum báðir á vinstri hliðinni því sólin gekk með okkur.

Nú kveð ég þig pabbi minn. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur Iðunni Gígju. Við elskum þig. Kannski sjáumst við síðar. Hver veit? Það hefðir þú að minnsta kosti sagt.

Kristján.

Guðjón Elisson, tengdapabbi minn, er látinn, en aðeins rúmum mánuði eftir að við fréttum af veikindum hans var hann allur. Þetta var óvænt og skyndilegt og eftir sitja ástvinir hans harmi slegnir. Gaui, eins og hann var oftast kallaður, var á besta aldri, rétt skriðinn yfir sextugt. Ég kynntist honum og Grazynu fyrir tæpum sex árum þegar við Kristján, sonur hans, vorum farin að vera saman. Þau tóku alltaf vel og rausnarlega á móti okkur þegar við komum vestur og ég upplifði mig afar velkomna í fjölskylduna.

Gaui hafði hlýja og góða nærveru, virtist lífsglaður og léttlyndur. Hann var iðinn og hjálpsamur, ávallt reiðubúinn að hjálpa ef einhver þurfti aðstoð. Gaui bjó yfir þeim eiginleika að geta sökkt sér á kaf í hugðarefni sín og naut þess að deila því sem hann lærði með öðrum. Hann hafði sterkar skoðanir á ýmsum málum, í sumu vorum við ósammála, en mér þótti í raun magnað hve heill hann var í sinni trú og upptendraður af áhuga. Sem dæmi um það hvernig hann gat sökkt sér í hugðarefni sín og tekið málin í sínar hendur, þá náði hann stórkostlegum árangri í átt að betri heilsu með því að umbylta mataræði sínu fyrir einhverjum árum.

Gaui var eins og fyrr segir hlýr og glaðlyndur maður. Hann var brosmildur og aldrei sá ég hann skipta skapi eða hækka róminn. Hann var bóngóður og hafði augljóslega mikil og jákvæð áhrif á fólkið sem stóð honum næst. Missir ástvina Gauja er því mikill og sorgin þung.

Vel sé þér, vinur,

þótt vikirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður,

æðra, eilífan

þú öðlast nú.

(Jónas Hallgrímsson)

Elsku Kristján minn, Iðunn Gígja, Grazyna, Bára og fjölskyldan öll, ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Megið þið finna styrk á erfiðum tímum í nærveru hvert annars og þeirri vissu að minningar um góðan mann muni ylja ykkur um ókomna tíð.

Fríða María.

Elsku nafni minn.

Á þessari sorgarstund koma ótal minningar um þig upp í hugann, æskuárin, skólaárin, unglingsárin og fullorðinsárin. Við vinirnir og frændur áttum lengi samleið, bara þrír dagar á milli okkar og urðum við pabbar ungir með stuttu millibili.

Það voru góðar stundir sem við áttum saman hjá þér í Grundarfirði og hjá mér í Noregi, margt rifjað upp og mikið hlegið.

Elsku nafni, þú kveður allt of fljótt og skilur eftir stórt tómarúm og söknuð, minning um góðan vin og frænda mun alltaf vera í hjarta mér.

Elsku Bára, Ómar, Ægir, Sigga Beta, Kristján, Grazyna og fjölskylda, ég sendi ykkur mínar innilegar samúðarkveðjur.

Þinn nafni,

Guðjón Árni Þórólfsson.

Elsku frændi, það er svo erfitt að kveðjast, við höldum að við eigum morgundaginn vísan og ætlum að gera svo margt þegar tími og tækifæri gefst til en tíminn og lífið er núna, ekki seinna.

Gaui frændi var frá því ég man eftir mér algjör klettur sem treysta mátti á og alltaf tilbúinn að hjálpa og kenna bæði mér og ég held bara öllum sem þurftu á að halda.

Mín fyrsta minning um kennslu var þegar hann kenndi mér að hjóla á tvíhjóli og svo seinna að skylmast með trésverði og ganga á stultum. Frændur mínir voru frábærir og gátu allt, strákarnir hennar Báru frænku þekktu meira að segja stjörnumerkin á himninum og satt að segja öfundaði ég þá og var ekkert smá ánægð þegar mér tókst með hjálp pabba að fá smá glóru í stjörnumerkin með því að finna Sjöstirnið og Fjósakonurnar (belti Óríons), það þekktu strákarnir vel og mörg önnur stjörnumerki. Guðjón var fróðleiksfús, því sem hann lærði og reyndi í lífinu miðlaði hann síðan til annarra enda leituðu margir til hans.

Það má segja að Gaui hafi leiðsagt mér með ýmsum hætti í gegnum lífið. Rétt áður en ég eignaðist fyrsta barnið vorum við öll fjögur foreldrarnir óttalegir unglingar undir tvítugu en Gaui varð 21 árs daginn eftir að Kristján fæddist. Í 70 ára afmæli Péturs afa var Gaui með nýfæddan son og gat gefið okkur sem áttum von á barni mánuði seinna góð ráð og enn sitja eftir lokaorðin í samtalinu góða fyrir næstum því 43 árum, hann sagði: Það er sama hvernig þér á eftir að líða þá ertu ekkert að fara að deyja og svo gleymist allt og verður gott. Ekki flókið.

Að alast upp í samheldnum og kærleiksríkum frændgarði er alveg ómetanlegt og svo dýrmætt. Við höfum alist upp saman, orðið fullorðin saman og eigum sömu ræturnar, við búum mörg hér á æskuslóðunum ennþá og þau sem hafa flutt burtu eiga alltaf ræturnar hér í Grundarfirði og í Mýrarhúsum þar sem alltaf er gott veður eins og var í Grundarfirði á æskuárum okkar.

Það eru svo margar minningar sem koma upp á erfiðum kveðjustundum eins og nú þegar við kveðjum elskulegan frænda minn, hann var alltaf til staðar á góðum stundum, skemmtilegum stundum, erfiðum stundum og á sorgarstundum. Orð eru eitthvað svo fátækleg, ná engan veginn yfir allar minningarnar en minningarnar lifa áfram með okkur.

Guðjón og fjölskyldan misstu mikið árið 2008 þegar Pétur bróðir hans dó aðeins 58 ára. Þá reyndist Gaui Elu og fjölskyldunni stoð og stytta, strákarnir áttu hann svo sannarlega að.

Guðjón missir síðan sambýliskonu sína Karítas Önnu úr krabbameini árið 2013.

Guðjón kynntist Grazynu Zofiu og áttu þau gott líf saman, börn og barnabörn Grazynu voru stór og bjartur þáttur í lífi þeirra.

Bára er nú að kveðja annan ástkæran son sinn og eru þeir bræður nú sameinaðir ásamt fjölda annarra ástvina innan um stjörnurnar.

Ómar, Ægir og Sigga Beta kveðja núna annan elskulegan bróður sinn.

Kristján og Iðunn Gígja kveðja elsku pabba og afa.

Grazyna kveður nú heittelskaðan sambýlismann.

Minning um góðan dreng lifir í hjörtum okkar.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Olga Sædís, Grétar og fjölskylda.

Sárt er að kveðja æskuvin sinn hinsta sinni. Kærleiksríkar minningar sækja að manni og um leið þakklæti fyrir þær minningar.

Sagt er að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Það má til sanns vegar færa að þess nutum við Gaui í uppvextinum. Búandi hlið við hlið við Grundargötuna, verandi saman öllum stundum að leik. Í fjörunni, uppi í fjöllunum, í giljum og lækjum, snuddandi í kringum vinnandi fólk í frysti- og saltfiskverkunarhúsum eða á bryggjunni. Fylgdumst með framkvæmdum sem voru í þorpinu eða vorum annars staðar þar sem eitthvað var um að vera. Og ekki tíðkaðist í þá daga að gerðar væru athugasemdir við það að tveir ungir drengir væru að leik í kringum vinnandi fólk.

Við urðum samstiga í gegnum lífið fyrstu áratugina, unnum oft saman við hin ýmsu störf á sumrin, báðir stúdentar frá ML með árs millibili, sem var okkar aldursbil, og kenndum síðar saman einn vetur í Grunnskóla Grundarfjarðar. Menntakerfið varð minn ævistarfsvettvangur en Gaui lagði fyrir sig sjómennsku og vinnu í landi tengda sjávarútvegi. Átti m.a. og rak í félagi við bróður sinn smábáta sem þeir gerðu út frá Grundarfirði í árafjöld. En alla tíð héldum við Gaui góðu sambandi með heimsóknum eða símtölum.

Gaui tók virkan þátt í starfsemi Eyrbyggja – Hollvinasamtaka Grundarfjarðar en þau samtök hafa m.a. gefið út 10 bækur sem eru safn til sögu Eyrarsveitar. Þess utan unnu þau að örnefnasöfnun og merkingum á víðmyndir er Gaui gerði og kort af Eyrarsveitinni og í því efni vann hann mikið verk. Tók myndir af sjó af fjöllum og fjörðum, merkti kennileiti inn stafrænt og kom öllu í prentvænt form. Eins skráði hann niður fiskimið á grunnslóð í kringum Grundarfjörðinn og út í Breiðafjörð byggt á þekkingu forfeðra hans og reynslu hans. Ómetanlegt framlag allt saman og unnið í sjálfboðavinnu. Tryggð Gauja við Grundarfjörð, sinn heimabæ, var ótvíræð.

Hann vann einnig stórvirki fyrir Menntaskólann að Laugarvatni þegar hann tók að sér að endurvinna og endurgera nokkur skólaspjöld, myndaspjöld af nemendum skólans, sem voru farin að láta á sjá. Það var mikil og seinleg nákvæmisvinna, öllu var komið yfir á stafrænt form, hver mynd lagfærð pixil fyrir pixil, prentuð að nýju og sett upp á sama spjaldið. Þetta vann Gaui í hjáverkum yfir nokkurra ára tímabil meðfram öðrum hugðarefnum sínum. Lítið vildi hann þiggja fyrir vinnuna, gat þó sæst á að fá fyrir útlögðum kostnaði. Kærleikur Gauja og tryggð til síns gamla skóla var mikil.

Gaui var staðfastur í sínu, hafði ákveðnar skoðanir og fylgdi sinni sannfæringu. Traustur vinur, kærleiksríkur fjölskyldumaður og afi.

Ég votta ástvinum öllum og aðstandendum Guðjóns Elissonar mína dýpstu samúð.

Halldór Páll (Dolli).

Góður félagi og vinur hefur nú kvatt þessa jarðvist langt um aldur fram. Fyrstu samskipti okkar og kynni voru þegar ég kenndi 2. bekk á unglingastigi veturinn 1972-1973 í kjallara skólastjórabústaðarins sem þá var. Ósköp ljúfur og góður drengur sem var átta árum yngri en kennarinn. Þá kenndi ég líka allar íþróttir við lélegan tækjakost í Samkomuhúsi Grundarfjarðar þar sem barnaskólinn var til húsa 1945-1962. Mér tókst að kría út glímubelti á þessum árum og Guðjón talaði oft um hvað það hefði gert honum gott að læra glímubrögðin og þá helst að læra hvernig bera ætti fyrir sig hendur við fall. Leiðir okkar lágu svo aftur saman líkamsræktinni í Grundarfirði 2010 og þar mættum við eftir það saman snemma morguns í tíu ár, oftast þrisvar í viku, og mest reyndum við okkur við bekkpressuna og skráðum samviskusamlega árangur niður því Gaui vildi að við settum okkur markmið sem við kappkostuðum að ná. Útbjó hann excel-skjöl sem fyllt voru út samviskulega og þegar okkur óx fiskur um hrygg var ákveðið að hafa metadag fyrsta mánudag í mánuði. Ég var reyndar með nokkurt forskot þar sem ég hafði sótt um nokkurt skeið líkamsrækt úti í Ólafsvík áður en ég fór að mæta í Ræktina í Grundarfirði sem var opnuð haustið 2009. Hans markmið var að ná mér og mitt markmið var að reyna að koma í veg fyrir að hann næði mér. Í ársbyrjun 2018 fékk ég blóðtappa við litla heila sem hafði veruleg áhrif á marga þætti hjá mér. Eftir að ég kom heim af spítalanum leið ekki á löngu þar til Gaui var mættur í heimsókn til að styðja við vin sinn. Þannig var Gaui ávallt reiðbúinn til að hjálpa og leggja ættingjum og vinum lið. Hann var á því að ég myndi hafa gott af því að komast af stað í ræktina aftur og þegar líða fór á vetur og ég að braggast var hann mættur fyrir utan á bílnum sínum til að taka mig með og því hélt hann áfram samviskusamlega þar til covid-vágesturinn setti strik í reikninginn og öllu var skellt í lás. Við reyndum þó að mæta áfram í hvert sinn sem losna tók um hömlur og áttum góðan sprett í september til október á síðasta ári. Við höfðum einu sinni eða tvisvar tekið okkur sumarfrí á þessu tímabili okkar en vorum búnir að komast að því að ef vorum frá æfingum í tvo mánuði tók það okkur fjóra að ná fyrri metum svo við æfðum orðið með tilliti til þess. En eftir að við komumst aftur í ræktina eftir covid-stoppið var árangurinn eins og eftir langt sumarfrí. Hann var uppfullur hugmyndum um hvernig haga skyldi æfingum til að ná okkur upp sem fyrst og lá yfir youtube til að finna út hvað virkaði best. En svo kom enn ein bylgjan og eyðilagði allt, líka vin minn Gauja.

Far vel, vinur minn, ég held að þú siglir nú með himinskautum á trillunni þinni og horfir mót sólrauðum dýrðarheimi til móts við áður farna ættingja og vini sem þar taka á móti þér.

Fjölskyldu og vinum færi ég innilegar samúðarkveðjur.

Gunnar Kristjánsson.

Traustur og góður samferðamaður er fallinn frá. Hann beit í skjaldarrendur og barðist við þann fjandvin, sem við áttum sameiginlegan, og tókst að koma honum á kné. Kynnin af Gauja voru mannbætandi – hann hafði góðan mann að geyma, traustan, heiðarlegan, leitandi, og hann var sannur vinur.

Hann tókst einnig á við annan af bölvöldum hins vestræna heims, þann bölvald sem hleður á okkur kílóum og veldur fjölmörgum sjúkdómum. Það gerði hann af þvílíkri röggsemi að eftir var tekið og komst í fjölmiðla.

Þá hefur hann átt fastan sess í fyrirlestrum þess, sem hér ritar, en í þeim bregður gjarnan fyrir mynd, þar sem pabbi hans hefur hengt strákinn upp á lúðukrókinn og stendur álengdar með órætt glott á vör. Þetta var gert til að lina þá bakverki sem Gaui fékk gjarnan á trillunni þegar vel veiddist. Það var einmitt vegna bakvandans sem við kynntumst nánar, og Gaui tókst á við það vandamál af sömu einurð og innlifun og einkenndi allt verklag hans og hugsun.

Nánust var þó vináttan gegnum spor okkar í samfélagi sem telur milljónir um allan heim og er eitt merkasta mannræktarsamfélag samtímans.

Við félagarnir færum öllum aðstandendum Gauja okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minningin um góðan dreng.

Jósep Ó. Blöndal.

Kveðja frá samstúdentum frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1978

„ Manni kemur alltaf eitthvað til hugar“ var Guðjóni Elissyni bekkjarbróður okkar frá Menntaskólanum að Laugarvatni tamt að segja. Núna þegar Gaui er allur koma upp í hugann ýmis skemmtileg minningabrot frá skólaárunum fyrir rúmum fjórum áratugum. Árið 1978 útskrifaðist frá skólanum 48 manna hópur sem hafði tengst órjúfandi böndum eftir samveru í heimavistarskóla. Gaui er sá þriðji í hópnum sem fellur frá.

Haustið 1974 birtist á Laugarvatni stuttur prakkaralegur náungi sem sagðist heita Guðjón og vera frá Grundarfirði. Fljótlega kom í ljós að mikill galsi einkenndi pilt þennan. Hann var einstaklega fimur og honum var mjög tamt að ganga á höndum – jafnvel langar leiðir. Einnig fór hann létt með alls kyns stökk og fimleika – jafnvel heljarstökk. Klifurhæfileiki Gauja nýttist honum vel til ýmissa hluta á menntaskólaárunum.

Í heimavistarskólum landsins fundu ungmenni sem þar dvöldu ýmislegt sér til dægrastyttingar. T.d. tók Gaui í 1. bekk til við að stytta sér stundir með því að prjóna en það var mjög óvanaleg iðja fyrir stráka í þá daga. Eitt sinn tók Gaui sig til og hnýtti saman teppi og lök og lét sig síga út um glugga heimavistarherbergisins sem var á 3. hæð. Vatnsslagir voru stundaðir reglulega og þar var Gaui í essinu sínu eins og í ýmsum fleiri hefðum skólans.

Hjá nemendum ML var nokkuð vinsælt á vorin að sigla á Laugarvatni á litlum árabátum. Vorið 1975 vildi til það óhapp að árabáti með tveimur bekkjarfélögum okkar Gauja hvolfdi úti á vatninu og féllu þeir útbyrðis. Brást Gaui þá fljótt við og fór ásamt þremur bekkjarfélögum á öðrum árabáti og náðu þeir að bjarga þeim. Mátti þarna varla tæpara standa þar sem þeir sem lentu í ísköldu vatninu voru orðnir mjög kaldir. Báðir náðu sér að fullu og má það m.a. þakka miklu snarræði Gauja.

Gaui hafði sérstakan áhuga á ljósmyndun og minnumst við hans með myndavélina á lofti við að fanga lífið og umhverfið á Laugarvatni á mynd. Hafði hann næmt auga fyrir góðu myndefni. Eftirminnilegar eru ýmsar myndir sem hann framkallaði sjálfur og birtust gjarna í skólablaðinu.

Segja má að eftir Laugarvatnsárin hafi leiðir Gauja og gömlu bekkjarfélaganna sjaldnar legið saman en hann lét sig ekki vanta á árgangamótin. Við munum síðast eftir honum glöðum og reifum á Laugarvatni árið 2018 þegar hópurinn fagnaði 40 ára stúdentsafmæli. Það var þá, eins og alltaf á slíkum samkomum, líkast því að hópurinn hefði alla tíð verið saman – slík var samkenndin, gleðin og vináttan.

Á skólaslitum ML 2018 var minnisstætt fyrir okkur bekkjarfélagana þegar Gaui var heiðraður fyrir að hafa lagfært nokkur gömul skólaspjöld með nemendamyndum sem voru farnar að dofna og sett á stafrænt form að miklu leyti í sjálfboðavinnu. Sýnir þetta hug þann sem Gaui bar til síns gamla menntaskóla.

Vertu kært kvaddur góði vinur. Við minnumst góðs drengs sem var glaðvær, orðheppinn, hjálpsamur og hafði góða nærveru.

Við vottum aðstandendum Guðjóns innilega samúð okkar.

F.h. útskriftarárgangs,

Guðni Olgeirsson og Hannes Siggason.