— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bréfritari fékk „þriðju sprautuna“ í vikunni og bindur vonir við að þær verði ekki mikið fleiri. Það voru töluverð eftirköst og óþægindi eftir fyrstu tvær (af AstraZeneca-tegundinni). Og þeir í Laugardalshöll ráðlögðu, með hliðsjón af því, að fá nú Moderna. Fyrir þann, sem aldrei hefur verið vitsmaður um merkjavörur, var einsýnt að fara eftir þeim ábendingum.

Bréfritari fékk „þriðju sprautuna“ í vikunni og bindur vonir við að þær verði ekki mikið fleiri. Það voru töluverð eftirköst og óþægindi eftir fyrstu tvær (af AstraZeneca-tegundinni). Og þeir í Laugardalshöll ráðlögðu, með hliðsjón af því, að fá nú Moderna. Fyrir þann, sem aldrei hefur verið vitsmaður um merkjavörur, var einsýnt að fara eftir þeim ábendingum.

Eftirköstin urðu nokkur, en mun minni en eftir fyrri sprautur, og þá var sú fyrsta sýnu verst. En nú stóðu hitaköst og slappleiki í tvo til þrjá daga og hiti mun minni en í hin skiptin og sloppið við önnur óþægindi, sem urðu þá.

Óljósar fréttir víða að

Það var heldur lakara að sjá haft eftir breskum heilbrigðisstofnunum að full virkni „örvunarskammts“ stæði aðeins yfir í 8 vikur eða svo og færi svo minnkandi. Ekki var þess þó getið hversu hratt verndin sú gengi niður að loknu þessu átta vikna góðæri, sem hefði verið gagnlegt að vita. En þá rifjaðist upp áfallið þegar viðurkennt var hér og víðar, eins og fréttaþruma úr heiðskíru lofti, að aðalsprauturnar tvær dygðu ekki nema 6 mánuði. Síðar hafa þau tímamörk reyndar orðið æði óljós í báðar áttir. Vekur óneitanlega undrun að enn skuli vera einhver dulúð um þetta, svo mikilvægt sem það er. Síðustu fréttir um það að undanfarið hafi 18 þúsund manns verið í sóttkví(!) sýna að mál eru vissulega komin í óefni og sérstaklega þar sem margar vikur eru frá því að ljóst varð að „Ómíkron-afbrigðið“ var fagnaðarboðskapur en ekki tryllingsefni eins og sum sóttvarnayfirvöld virtust ríghalda í.

Æðstu strumpa ríkisvaldsins hefur langað til að vera áfram nánast stikkfrí í veirumálum, enda eru óendanlegar myrkar gloppur sem hægt er að falla í þar, en sóttkvíaræðið og lögguleikur um smit sem hafa gengið of langt sýna að þeir geta ekki verið ósýnilegir mikið lengur.

Sóttvarnaviðbrögð hafa margar ólíkar hliðar

Það hefur auðvitað verið sjálfsagt að horfa til þeirra sem mesta þekkingu hafa á faraldri, eðli hans og hættum og þar með hugsanlegri þróun og hverju megi afstýra og hvað milda.

En það liggur einnig í augum uppi að þeir sérfræðingar einblína á „sína þætti“ og líta helst ekki til annars, enda eins og ósjálfrátt aukaatriði í þeirra augum. Það er ekkert hægt að segja við því. En þá verður almannavaldið að bregðast við og getur ekki hliðrað sér undan ábyrgð. Þeirra er að tryggja bestu fáanlegar upplýsingar um alla þætti, heilsufræðilega sem aðra, vega það og meta uns sem gleggst heildarmynd liggur fyrir sem grundvöllur ákvarðana þeirra sem lokaábyrgð bera. Séu ákvarðanir teknar blindandi með vísun til heilbrigðisþátta í þrengstu merkingu orðsins er hætt við að margt sem ríku máli skiptir verði útundan. Þar á meðal efnahagslegir þættir og nauðsyn þess að halda sem flestu virku eins og frekast er unnt. Þar með talin er auðvitað skilvirkni atvinnulífsins, bæði til lengri tíma og skemmri. Sé þess ekki gætt þá mun verða þunglamalegra að ná sér á strik eftir að veiran deyr eða laskast nægilega. Án slíkrar fyrirhyggju er til að mynda ljóst að almennri sjúkraþjónustu við almenning, sem draga hefur þurft úr, verður ekki auðveldlega komið í rétt horf á ný.

Æskudýrkun eða valdamiklir ellismellir

Demókrataflokkurinn í Bandaríkjunum horfir með áhyggjum til þingkosninganna 8. nóvember. Flokkurinn hefur um margt gengið mjög hart fram til að knýja fram mál í bullandi ágreiningi við helming þingheims. Hefur slík framganga verið fremur sjaldséð í Bandaríkjunum. Stóru flokkarnir tveir hafa hvor um sig 50 þingmenn í öldungadeildinni. Fulltrúadeildin er miklum mun fjölmennari með sína 435 þingmenn. Þeir eru aðeins kosnir til tveggja ára í senn en þingmenn öldungadeildarinnar sitja í 6 ár. Því sem næst þriðjungur þeirra er því kosinn á tveggja ára fresti.

Nokkra athygli vekur hversu vel bandarískir þingmenn halda sér virkum í stjórnmálum, hvað sem hækkandi aldri líður. Elsti öldungadeildarþingmaðurinn nú er demókratinn Dianne Feinstein, sem er 88 ára gömul. Elstur í fulltrúadeildinni er repúblikaninn Don Young (ber nafn með réttu) sem er 89 ára. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, verður 82 ára gömul nú í mars og er þekkt fyrir stjórnsemi, þótt repúblikanar, með réttu eða röngu, noti frekar orðið yfirgang. En einnig hefur það vakið verulega athygli hversu henni, og þeim hjónum, hefur tekist að sanka að sér miklum efnum, samhliða miklum pólitískum áhrifum.

En Pelosi sker sig ekki algjörlega úr hvað aldur snertir, því að leiðtogi andstæðinganna í öldungadeildinni, McConnell, verður átræður nú í febrúar og mun ætla sér að verða í framboði til næstu 6 ára í nóvember nk.

Það eldast fleiri en Biden

Það er því ekki endilega aldurinn sem hefur laskað Joe Biden svo mjög eins og nú er rætt, heldur fremur hitt, hvernig hann ber hann og reyndar af því að einkenni hans sem stjórnmálamanns, sem voru fjarri því að vera óþekkt, hafa blasað við hverjum manni frá hinum háa stól.

En þegar rætt er um aldur Bidens og hneykslast á því að demókratar skuli hafa stillt honum upp, má ekki gleyma því að hinn sem kom að lokum til greina auk Bidens sem forsetaframbjóðandi, var Bernie Sanders, gamall „kommi“ sem varð sjálfur áttræður í september sl.

Alráður í sóttvörnum Bandaríkjanna, Anthony Fauci, varð 81 árs nú á aðfangadag og sagði af því tilefni að fáránlegt væri að hann léti af störfum eins og staðan í veirumálum væri núna!

Ekki bara stjórnmálin

En bandarísk stjórnmál eru ekki ein um að treysta til þrautar á vit og reynslu „sinna elstu og bestu manna“. Sama er að segja um Hæstarétt Bandaríkjanna. Íslenskum dómurum við sinn rétt er gert að hætta við 70 ára mörkin, en algengast er að þeir kjósi að láta af störfum 65 ára gamlir, enda halda þeir fullum launum næstu 5 árin og svo fullum föstum launum ævilangt. Bandarísku dómararnir eru sjaldnast á þeim buxunum að hætta, þótt kjörin séu áþekk.

Elsti dómarinn þar, Stephen Breyer, var skipaður af Bill Clinton. Hann verður 84 ára í ágúst nk.

Á síðastliðnu ári var hafður uppi mikill áróður af hálfu „flokkssystkina“ hans í þinginu að Breyer yrði að segja af sér sem allra fyrst svo hægt væri að skipa nýjan dómara á meðan demókratar hefðu enn meirihluta í öldungadeild vegna beitingar atkvæðis Kamala Harris varaforseta, stæðu atkvæði jöfn. Var sérstaklega tekið fram af ákafamönnum að þá yrði valin einhver ung blökkukona, en ekkert var nefnt um hvaða lögfræðilegu hæfileikum væri verið að leita eftir. Nú þegar sitja þrjár konur í réttinum af níu dómurum. Þeir, sem fremstir fóru fyrir kröfum um að Breyer gerði pólitíska skyldu sína og segði af sér, telja bersýnilega að líkur standi til þess að demókratar tapi kosningunum haustið 2022 og það jafnvel illa vegna mikilla óvinsælda Bidens forseta. Bentu þeir gjarnan á dæmið um demókratann Ginsburg. Hún var vinsæll og mikilsmetinn dómari við Hæstarétt, en lést í starfi 87 ára gömul og þá fengu repúblikanar tækifæri til að standa að kjöri næsta dómara. Baráttumönnunum háværu þótti þau spor hræða. Augljóst var hins vegar að þessi læti fóru öfug ofan í „demókratann“ Beyer. Hann situr sem fastast. Aðallega er gengið út frá því að „fyrirhuguð“ fylgisaukning repúblikana muni einkum koma fram í fulltrúadeildinni, en mun meiri óvissa sé um stöðuna í öldungadeildinni, en það er hún sem hefur lokaorðið um nýjan dómara.

Aðrar og ekki síður sláandi tölur

Miðað við aldurstölurnar sem reifaðar voru varðandi helstu valdamenn bandaríska þingsins er fróðlegt að horfa heim. Í þeim samanburði virðist vera mikil æskudýrkun hér en ekki þar.

Hér hefur áttræður maður aldrei tekið sæti á þingi eftir kjör og munar því miklu. Elstur manna við lok þingsetu var Sighvatur Árnason, bóndi í Eyvindarholti, sem var þá 78 ára og 269 daga. Met sitt setti hann árið 1902!

Í Bandaríkjunum lét Ralph Hall af þingsetu í fulltrúadeildinni fyrir fáeinum árum liðlega 91 árs að aldri, elstur manna sem þar hafði setið. Hann hafði verið demókrati í 50 ár, en snerist þá og gekk í flokk repúblikana og sat síðan í 11 ár á þingi fyrir þá, en hafði verið 14 árin á undan fyrir demókrata.

En í góðu samræmi við nafnið þá eiga fulltrúar í öldungadeildinni öll aldursmetin vestra. Nú sitja þar elst demókratinn Dianne Feinstein, 88 ára gömul, og repúblikaninn Chuck Grassley sem er þremur árum yngri. En öll met sló þó Storm Thurmond. Þegar þingferli hans lauk var hann 100 ára og 29 daga! Fyrsta tæpan áratug hans á þingi var hann demókrati en næstu tæpu 40 ár ferilsins var hann repúblikani!

Fjögur árin fyrir þingferilinn var hann ríkisstjóri í Suður-Karólínu.

Verður síðar talin fornfáleg afstaða

Vafalítið er það svo, að kyn og aldur skipta minna máli en nú er í tísku að tala um, sérstaklega varðandi kynin, á meðan öllum þykir næsta eðlilegt að atbeina fólks af báðum kynjum gæti. Eftir að það verður orðið hluti af almennum sannleik, sem stutt er í, þá myndi ekki vera neinn skaði talinn þótt eitt kjörtímabilið hittist svo á að 70% þingmanna kæmu úr röðum kvenna en karlar væru 30%. Og enginn myndi gera neitt með að kjörtímabilið á eftir yrði blandan allt öðruvísi.

Og sjálfsagt gildir það sama um litarhaftið. Enn hafa ekki komið fram kröfur um að ákveðinn hluti þingheims skuli skipaður fólki sem er hærra en 185 cm en hinn hlutinn miðaður við Napoleon Bonaparte, hvort sem hann var nú 149 sentimetrar (sem Frakkar segja að Bretar hafi logið upp á hann), eða 165 eins og hann var mældur áður en kistu (reyndar kistum) hans var lokað fyrir siglinguna heim. Næst gætu menn horft til þyngdar, skallaleysis eða fótaburðar.

Víða um Vesturlönd gætir þess enn að brýnast sé að horfa til þess hvort „kvótar“ t.d. lita séu uppfylltir, þótt stundum virðist það þó aðallega gert með táknrænum hætti.

Ekki víst að Einstein hafi skjátlast

Einhvern tíma var því fleygt og Einstein hafður fyrir því, enda þótti hann vita margt, að eftir aðeins örfáar aldir, jafnvel svo sem ekki nema 10 og jafnvel mun fyrr, þá myndi mannkynið allt vera orðið eins á litinn. Var Einstein sagður hafa giskað á að það yrði ljósbrúnt.

Sjálfsagt má ætla að það myndi þá hafa leyst mál sem menn þenja sig yfir núna. En seint yrði þó sagt að mannkynið yrði litríkara eftir breytinguna. En ef velja þyrfti aðeins einn lit þá væri þessi sjálfsagt prýðilegur.

Þetta innskot minnir eins og óviljandi á hve dapurlegt er að sjá fótboltakappa „taka hné“ fyrir leiki í enskum boltaleik í einhverjum barnalegum misskilningi, óverðskulduðum stuðningi eða aðdáun á „BLM“ sem sýnir að þeir á græna vellinum hafa ekki grænan grun um fyrir hvað þau vafasömu samtök standa, eða skemmdarverk og endalausa fjárglæfra „frumkvöðla“ félagsskaparins sem styttingin stendur fyrir.

Sagt er að einhverjir hafi asnast til að koma fótboltamönnunum út í þessar ógöngur og þeir sömu og aðrir kunni ekki leið til þess að koma sér út úr heimskunni.

Kannski gætu þeir brúkað trikk Framsóknar sem sló í gegn:

„Gæti það ekki verið rétt að hætta bara þessari vitleysu.“