Idris Elba hefur lengi látið sig baráttuna gegn ofbeldi í Lundúnum varða.
Idris Elba hefur lengi látið sig baráttuna gegn ofbeldi í Lundúnum varða. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enska knattspyrnufélagið Arsenal mun um helgina í fyrsta sinn leika í alhvítum búningi í enska bikarnum. Gjörningurinn er liður í No More Red-átakinu sem stefnt er gegn vaxandi hnífaofbeldi í Lundúnum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Þrjátíu ungmenni létust í hnífstunguárásum í Lundúnum á nýliðnu ári – sem er mesti fjöldi sem um getur. Eftir að þetta var upplýst í síðustu viku settust forvígismenn íþróttavöruframleiðandans Adidas og enska knattspyrnufélagsins Arsenal niður til ræða hvernig þeir gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á þessari ógnvekjandi þróun. Niðurstaðan var sú að Arsenal, sem alla jafna leikur í rauðu og hvítu, myndi mæta til leiks í bikarkeppni enska knattspyrnusambandsins í dag, sunnudag, í alhvítum búningi – í fyrsta skipti í 136 ára sögu félagsins.

Kveðjum roðann

Yfirskrift átaksins er No More Red eða Kveðjum roðann og vel fer á því að andstæðingur Arsenal í leiknum sé Nottingham Forest en þaðan kemur einmitt rauði liturinn í búningi liðsins. Öfugt við það sem síðar varð þá óð Arsenal ekki í seðlum á sokkabandsárum sínum og þegar Forest hugðist henda gömlu búningunum sínum og fá sér nýja þáðu Skytturnar í Lundúnum þá gömlu með þökkum. Og hafa haldið sig við rautt síðan. Hvítu ermarnar komu ekki til sögunnar fyrr en 1933.

Ólíkt því sem tíðkast með keppnisbúninga þá verður hvíti búningurinn hvergi til sölu en til stendur að afhenda hann fólki sem hefur látið til sín taka í samfélaginu. Treyjurnar tíu sem útileikmenn Arsenal munu skrýðast í dag verða að leik loknum færðar stofnunum og samtökum sem hafa freistað þess að komast að rótum vandans þegar kemur að hnífaárásum og glæpum ungmenna. Sem dæmi má nefna Ekki stinga framtíð þína (Don't Stab Your Future) sem notað hafa tísku og annað til að freista þess að halda ungmennum frá glæpum.

Átakið nú er í takti við annað átak sem félagið stendur fyrir, Arsenal í samfélaginu, en það hverfist um að koma upp öruggum fótboltavöllum fyrir ungmenni í Lundúnum.

Meðal þeirra sem leggja átakinu lið eru Arsenal-goðsögnin og sjónvarpsmaðurinn Ian Wright og kvikmyndaleikarinn og hjartaknúsarinn Idris Elba, stofnandi samtakanna Ekki stinga framtíð þína.

„Sú hugmynd að Arsenal hlaupi út á völlinn í alhvítum búningi og lýsi yfir því að það kveðji roðann fær vonandi einhverja til að staldra við og hugsa: Bíddu nú hægur, hvað er hér á seyði? Síðan fari fólk og afli sér frekari upplýsinga,“ segir Elba í samtali við sjónvarpsstöðina Sky Sports News.

Hann segir brýnt að gefa ungu fólki, ekki síst táningum, valkost í þessu lífi, annað en hnífaburð og glæpagengi.

„Vonandi hefur þetta áhrif, hvetur önnur knattspyrnufélög til dáða og stuðlar að frekara samstarfi og fjárfestingu í gagnlegum hlutum sem hjálpa ungu fólki, hvort sem það er á sparkvöllum eða öðrum miðstöðvum, eins og þeirri í Forest Gate, þar sem ég stundaði mínar íþróttir og féll raunar fyrir kvikmyndagerð.“

Tengdi strax við átakið

Ekki kemur á óvart að Arsenal og Adidas hafi snúið sér til Elba en leikarinn hefur verið óþreytandi við að vekja fólk til vitundar um glæpi af þessu tagi. „Ég tengdi strax við þetta átak. Ég á marga unga aðdáendur og þeir segja gjarnan við mig: Idris, þú ólst upp á sama stað og ég. Hvernig fórstu að þessu? Sama máli gegnir um knattspyrnumennina. Að sjá þessa tvo risa lýsa yfir vilja sínum til að hafa áhrif, láta gott af sér leiða, hreif mig strax,“ segir Elba.

Leikarinn gerir sér engar grillur um að hann, Adidas og Arsenal séu þess umkomin að leysa vandann fyrir fullt og fast. „Við getum hins vegar vakið umtal sem aftur gerir það af verkum að fólk verður betur meðvitað um stöðu mála. Allt frá þeim sem framleiða og selja hnífana til þeirra sem halda á þeim og beita. Þetta snýst um að auka vitundina og gera öllum ljóst að við séum að fylgjast með.“

Það er gömul saga og ný að enginn maður er eyland og þess vegna leggur Elba mikið upp úr þátttöku sem flestra í verkefninu.

„Það á ekki síst við um aðdáendurna. Sérhvern laugardag og sunnudag mæta þeir í hundraða þúsunda og milljóna tali á völlinn til að horfa á knattspyrnu. Vegferð leikmannanna sjálfra hefst á unglingsárunum og þess vegna er samtakamátturinn mikill þar.“

Raunar metur Elba það svo að óvíða sé betra að þétta raðirnar en á vettvangi knattspyrnunnar enda sé samstaða manna í þessum heimi hvergi sterkari en á vellinum, þar sem hjörtu þúsunda slái sem eitt.

„Í knattspyrnunni standa menn saman; það er máttur íþróttanna, ekki síst knattspyrnunnar. Menn nýta rödd sína bókstaflega til að hvetja og brýna leikmennina og knattspyrnan er sennilega ekki nægilega vel nýttur farvegur til að tengja við æskuna og lýsa henni veginn inn í framtíðina.“

Að lifa frjáls og án ótta

Elba er það sannur heiður að taka saman höndum með Ian Wright í þessu verkefni enda var miðherjinn markheppni honum fyrirmynd þegar hann var að vaxa úr grasi. Auk þess að vera talsmaður verkefnisins, ásamt Elba, kemur Wright fram í forvarnarmyndböndum ásamt uppöldum Lundúnabúum í liði Arsenal, Bukayo Saka, Emile Smith Rowe og Reiss Nelson, sem nú er í láni hjá Feyenoord í Hollandi.

„Öll ungmenni eiga skilið tækifæri til að tjá sig og búa í öruggu umhverfi. Að lifa sínu lífi frjáls og án ótta við ofbeldi,“ segir Wright við Sky Sports News.

„Við getum aldrei sætt okkur við að dauðsföll ungmenna vegna ofbeldis í borginni okkar sé „eðlilegt mál“ og þess vegna verðum við öll að snúa bökum saman og skapa betra umhverfi fyrir unga fólkið okkar. Með því að fjölga stöðum, þar sem hægt er að leggja stund á íþróttir, og veita ungmennum aukinn aðgang að fólki sem er þeim innblástur getum við lagt okkar að mörkum til að hjálpa ungu fólki í Lundúnum.“

Upplýstari ákvarðanir

Freddie Hudson, yfirmaður verkefnisins Arsenal í samfélaginu, tjáir sig einnig við Sky Sports News og segir Kveðjum roðann-átakið til þess fallið að hjálpa ungmennum að taka betri og upplýstari ákvarðanir um framtíð sína.

„Átakið sendir einnig þau skilaboð í víðara samhengi að með því að nýta hæfileikana og einbeita sér að því sem er jákvætt og uppbyggilegt þá eru valkostir fyrir hendi.“