Myndin sem WVUE birti af Raynu Foss í september.
Myndin sem WVUE birti af Raynu Foss í september. — WVUE
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir fjórum mánuðum lýsti héraðssjónvarpsstöðin WVUE í New Orleans í Bandaríkjunum eftir konu. Rayna Foss var sögð vera 51 árs gömul, 160 sm á hæð og 90 kg að þyngd en engar upplýsingar lágu fyrir um klæðaburð.

Fyrir fjórum mánuðum lýsti héraðssjónvarpsstöðin WVUE í New Orleans í Bandaríkjunum eftir konu.

Rayna Foss var sögð vera 51 árs gömul, 160 sm á hæð og 90 kg að þyngd en engar upplýsingar lágu fyrir um klæðaburð. Þá kom fram í upplýsingum frá lögreglu að seinast hefði verið vitað um ferðir hennar 7. september nærri sambýlinu sem hún bjó á. Þeim sem gátu mögulega gefið upplýsingar var bent á að hafa þegar í stað samband við lögreglu.

Leið nú og beið þangað til í vikunni að rokkmiðlar vestra fóru að gera sér mat úr málinu enda Foss kunn úr málmheimum; átti aðild að nýmálmbandinu Coal Chamber í kringum aldamótin. Plokkaði þar bassa. Það varð til þess að málið upplýstist – Raynu Foss er alls ekki saknað. Það staðfesti dóttir hennar, Kayla Rose, á Instagram-reikningi sínum daginn eftir að fréttin fór sem eldur í sinu um rokkheima.

„Þið öll, sem hafið haft samband, og fjölmiðlar, sem hafa verið að segja fréttina: Leyfið mér að upplýsa málið. Ég hef séð alla póstana um að móðir mín, Rayna, sé horfin síðan í september og hef ekki grænan grun um hvaðan þessar sögur koma. Ég ræddi síðast við móður mína í gær og sambandið hefur aldrei slitnað. Amma mín og afi hafa líka verið í sambandi við móður mína, og við vitum öll upp á hár hvar hún er niður komin. Ég hef sent lögreglunni í New Orleans upplýsingar þar um og bíð svars.“

Svo mörg voru þau orð.

Rose nýtti tækifærið til að kveða niður fleiri sögusagnir; eins og þann að faðir hennar og fyrrverandi eiginmaður Raynu Foss, trymbillinn Morgan Rose úr rokkbandinu Sevendust, væri að troða illsakir við Dez Fafara, fyrrverandi söngvara Coal Chamber.

Vonandi ekkert næsta skipti

„Þær sögur eru líka ósannar. Faðir minn og Dez eru vinir og hafa verið um langt árabil. Ég átta mig ekki á því hvaðan allt þetta er sprottið en ég stöðva það hér og nú,“ ritar Rose. „Ég vona að það verði ekkert næsta skipti en ef það gerist mega menn gjarnan kynna sér málið áður en þeir birta fréttir sínar. Þannig má komast hjá því að valda fjölskyldu minni óþægindum.“

Rayna Foss og Morgan Rose skildu árið 2003, þegar Kayla var aðeins fjögurra ára. Ári áður hafði Foss endanlega sagt skilið við Coal Chamber. Nadja Peulen tók við bassanum – fyrir þá alla hörðustu í málmi.

Af þessu tilefni rifjaði málmgagnið Blabbermouth.net upp að Morgan Rose og Dez Fafara hefðu í raun og sann skylmst opinberlega snemma á öldinni og menn gert því skóna að lag þess fyrrnefnda, „Enemy“ af Sevendust-plötunni „Seasons“, sé um Fafara. Sunnudagsblað Morgunblaðsins selur þá sögu ekki dýrar en það keypti hana.

Coal Chamber lagði upp laupana, eins og frystihúsin forðum, árið 2003 en kom aftur saman 2011. Þá var Foss hvergi að sjá. Fafara gaf útvarpsþættinum Full Metal Jackie svohljóðandi skýringu á þeim tíma: „Rayna var ekki beðin [um að vera með]. Langt er síðan Rayna yfirgaf bandið.“

Það var þó aðeins ári á undan Fafara sjálfum. En það er allt önnur saga. orri@mbl.is