Leifur Örn Svavarsson er einn sá allra reyndasti í fjallamennsku hér á landi og þótt víðar væri leitað. Hann gerði áhugamálið að ævistarfi og starfar sem fjallaleiðsögumaður.
Leifur Örn Svavarsson er einn sá allra reyndasti í fjallamennsku hér á landi og þótt víðar væri leitað. Hann gerði áhugamálið að ævistarfi og starfar sem fjallaleiðsögumaður. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjallaleiðsögumaðurinn Leifur Örn Svavarsson er ævintýramaður með meiru. Leifur er sá eini í heiminum sem tvisvar hefur gengið á hæstu fjöll allra heimsálfa og báða pólanna.

Fjallaleiðsögumaðurinn Leifur Örn Svavarsson er ævintýramaður með meiru. Leifur er sá eini í heiminum sem tvisvar hefur gengið á hæstu fjöll allra heimsálfa og báða pólanna. Eitt ævintýrið var gönguskíða- og drekaferð yfir þrettán hundruð kílómetra af stórbrotinni og ískaldri náttúru Austur-Grænlands. Ferðin var skrásett og verður heimildarmyndin Eftirsókn eftir vindi sýnd á RÚV í kvöld. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Í stóru hvítu húsi í Skerjafirði býr ævintýramaðurinn, garpurinn og fjallaleiðsögumaðurinn Leifur Örn Svavarsson ásamt konu og þremur dætrum. Á öðrum hæðum hússins má finna fleiri úr stórfjölskyldunni og er því óhætt að segja að húsið sé sannkallað fjölskylduhús. Leifur býður blaðamanni inn í hlýjuna og að sjálfsögðu er byrjað á rjúkandi kaffibolla á þessum undurfallega og kalda janúardegi. Á einum vegg má sjá stóra ljósmynd af tindi Everest-fjalls og röð af fjallgöngumönnum þar á leið upp og niður í halarófu. Myndin var tekin árið 2019 en sambærileg mynd rataði einmitt í heimsfréttirnar vegna örtraðarinnar upp fjallið. Á öðrum vegg er risastórt heimskort með ótal litlum títuprjónum sem sitja fastir þar í óteljandi löndum. Á bak við hvern títuprjón eru frábærar ferðasögur, meðal annars af fjallgöngum og skíðaferðum sem oft voru aðeins á færi þeirra reyndustu. Ferð til Austur-Grænlands árið 2017 var heldur sannarlega ekki fyrir byrjendur, en þangað héldu fimm góðir vinir með skíði og dreka í ævintýraleit.

Leiðsögn var lykillinn

Leifur er alinn upp í stóru fjölskylduhúsi í Kópavogi og segir að strax sem barn hafi áhugi kviknað á ýmis konar ævintýramennsku.

„Ég bjó í húsi sem amma mín byggði en þar bjuggu mamma og okkar fjölskylda ásamt systur hennar mömmu og það var innangengt á milli hæða. Foreldrar mínir voru ekkert mikið í útivist en fóru þó í ferðalög og mamma var dugleg að fara með okkur á skíði og skauta.“

Leifur segir að áhuginn á fjallamennsku hafi kviknað fyrst við lestur bókanna Árið, bækur sem til voru á hverju heimili á þessum árum eftir miðbik síðustu aldar.

„Í bókinni frá 1966 er grein um fjallgöngumanninn Gaston Rebuffat sem var með blaðamannafund hangandi í stigum utan á Aguille du midi, fjalli í Frakklandi. Þessi síða var orðin gulnuð! Mér fannst þetta svo merkilegt. Svo horfði ég á alla sjónvarpsþætti um fólk sem sigldi skútum um heimsins höf,“ segir Leifur og segist einnig hafa lesið upp til agna bókina Æskuár mín á Grænlandi eftir Peter Freuchen.

„Í þessari bók fer Knud Rasmussen norður í Thule og fær þá ungan Dana, Peter Freuchen, með sér í leiðangur því hann vildi stofna verslun. Peter lýsir Grænlandi vel í bókinni og þetta fannst mér ofboðslega heillandi heimur. Alveg frá því að ég fór að geta lesið mér til ánægju hefur mér fundist allt sem tengist Grænlandi og myndirnar þaðan svakalega spennandi og í raun tákn um ævintýri,“ segir Leifur og segist strax sem unglingur hafa verið farinn að sofa í tjaldi í fimbulkulda.

„Ég og frændi minn, Einar Torfi, fengum báðir gönguskíði þegar ég var fjórtán ára og fórum þá saman í útilegur. Við tjölduðum reyndar bara fyrst úti í garði. Fimmtán ára var ég kominn í Alpaklúbbinn, þá algjör græningi,“ segir Leifur og segist þá hafa byrjað að fara með klúbbnum í ferðir.

„Ég fann strax að lykillinn að ævintýralífinu væri leiðsögn. Að fólk gæti unnið við það að búa til ferðir og ævintýri!“ segir hann og segist fljótlega hafa verið farinn að taka að sér fararstjórn fyrir Ferðafélag Íslands, en þeir frændur voru þá byrjaðir í björgunarsveit.

„Sautján ára gamall, hann átján, sáum við um gönguskíðaferðir inn í Landmannalaugar, áramótaferðir í Þórsmörk og fleira. Eftir það var byrjað að hringja í okkur,“ segir Leifur, en segir hann leiðsögn hafa verið bundna við sumarfrí og önnur frí, enda var hann í skóla. Eftir menntaskóla valdi Leifur sér jarðfræði í háskóla og fannst það henta vel þessu áhugamáli sem varð svo í raun að lífsstarfi.

„Ég hef meira og minna alltaf unnið við leiðsögn en vann á Veðurstofunni á árunum 2002 til 2010 við snjóflóðavöktun,“ segir Leifur og segist einnig hafa unnið hjá Björgunarskólanum, meðal annars samið fyrir skólann námsefni og skrifað kennslubækur.

„Ég sagði upp á Veðurstofunni árið 2010 til að geta farið á suðurpólinn.“

Heillaður af Grænlandi

Frændurnir stofnuðu síðar Íslenska fjallaleiðsögumenn, ásamt öðrum, árið 1994.

„Þá vorum við allir byrjaðir að vinna í leiðsögn. Ég hafði verið að vinna með franskri ferðaskrifstofu sem aðstoðarmaður í erfiðustu ferðunum. Ég fór eitt sinn þvert yfir landið með átján franska ferðamenn og kunni enga frönsku. Ég lærði mjög sérkennilega frönsku og gat talað um potta, prímusa, tjald og skjólgarða, en lítið annað,“ segir hann og brosir.

„Þá fannst okkur góð hugmynd að stofna fyrirtæki, en grunnurinn voru göngur á Hvannadalshnjúk og göngur á jöklana. Við vorum heillengi að sannfæra fólk um að hægt væri að fara með ferðamenn á jökla; það væri ekki bara fyrir brjálæðinga,“ segir Leifur og segist hafa búið til gönguleiðina frá Núpstaðarskógum í Skaftafelli sem enn er vinsæl.

„Fólk sér það í dag að þetta er frábært landslag að ganga um,“ segir hann og segist hafa séð landslagið breytast mikið á síðustu þrjátíu árum.

„Svo var það núna í kófinu að ég fer út úr fyrirtækinu, en seinustu árin sá ég aðallega um utanlandsferðir, sem duttu niður í faraldrinum,“ segir Leifur og segist meðal annars hafa séð um ferðir á pólana, á Everest og alla hæstu tinda heimsálfanna. Leifur hefur afrekað að klára það sem kallast „ævintýrastórslemmu“, eða „explores grand slam“, en það hefur hann ekki gert einu sinni heldur tvisvar, sá eini í heiminum sem getur státað af því.

Einnig hefur Leifur farið ótal ferðir víða um heim, meðal annars til Nepal og Tíbet þar sem gengið var með ferðamenn í Himalaya-fjöllum. Hann segist heillaður af fólki og menningu þessa fjalllendis og segir það jafnvel toppa fjöllin sjálf.

„Þegar maður leiðist inn í Himalayafjöllin eru það fjöllin sem draga mann þangað fyrst; þaðan kemur drifkrafturinn og spennan. En eftir smá tíma áttar maður sig á því að flottasti hluti ferðalagsins er gangan heim að fjallinu, í gegnum fjallaþorp fólks sem býr þarna við nánast óbyggilegar aðstæður. Í Nepal eru 140 þjóðarbrot og í fjöllunum búa Sherpar sem hafa komið frá Tíbet. Það er algjörlega þess virði að fara þangað að ganga og skoða. Það er sagt að fólk fari fyrst vegna fjallanna en komi aftur vegna menningarinnar og landslagsins,“ segir Leifur.

„Það er nákvæmlega sama með Grænland, þar eru hvassir tindar, jöklar sem skríða í sjó fram og hrjúft landslag. En það er líka fólkið sem býr þarna og þessi menning sem mér finnst svo gríðarlega heillandi. Ég hef farið nánast á hvert einasta byggða ból á Grænlandi. Það er algjörlega eitt af mínum uppáhaldslöndum.“

Og síðan liðu þrjátíu ár

„Ég hef farið margsinnis með Íslendinga í bakpokaferðir til Austur-Grænlands og einnig í gönguskíðaferðir. Í einni af fyrstu gönguskíðaferðunum kom með mér vinur minn Óli Þór Júlíusson, ferðafélagi til margra ára. Hann var þá að vinna í Húsasmiðjunni og sat fastur í föstudagsumferð á leið út á Reykjavíkurvöll. Hann nær flugvélinni og við lendum í Kulusuuk og förum beint upp í þyrlu í yfirgefið þorp. Við lendum þar og maður er bara rétt stiginn út úr umferðinni í Reykjavík þegar við stöndum þarna aleinir í sólskíni og þögn. Gömul hjón á hundasleða koma svo færandi selkjöt sem við borðuðum. Þetta er svo sterk upplifun, að fara svo út á ísinn og sjá veiðimenn draga úr vök hákarla og lúðu. Við héldum svo áfram för okkar og það var svo heitt að við vorum orðnir berir að ofan. Þarna eru svo hvassir tindar en við höfðum oft klifrað saman í klettum. Óli horfir á þessa tinda og segir: „Vá, einhvern daginn langar mig að koma aftur og fara á þessa tinda!“ Og síðan líða þrjátíu ár. Þá hringi ég í Óla og segi: Nú erum við að verða gamlir. Þannig að einhvern daginn er bara núna! Þá fórum við þrjú ár í röð og klifum þessa tinda og erum líklega fyrstir til þess. Svo settum við upp klettaklifurssvæði í Kulusuuk og héldum námskeið fyrir börn og unglinga. Það stoppaði svo bara vegna veirunnar,“ segir Leifur og segist eiga margar sögur af svaðilförum á Grænlandi en allar þessar sögur væri efni í bók.

Lentuð þið aldrei í hættu?

„Jú, jú, örugglega. Við vorum þarna oft einir að þvælast með loftmyndir að reyna að átta okkur hvar við værum. En ég var aldrei hræddur.“

Heimamenn á hundasleðum

Eitt sinn voru þeir félagar, Leifur og fjallagarpurinn Hallgrímur Magnússon Everest-fari, að fljúga yfir stórbrotinn fjallgarð Austur-Grænlands og Hallgrími verður að orði að það væri rosalegt að fara einhvern daginn þessa leið alla á gönguskíðum. Það hafði aldrei verið gert áður.

„Síðan líða árin og menn eru í vinnu og að ala upp börnin sín, en Hallgrímur sleppti aldrei þessari hugmynd,“ segir Leifur, en ferðin umrædda var farin í apríl árið 2017 og kvikmynduð af Skúla Magnússyni. Skúli hafði farið til Margrétar Jónasdóttur hjá Sagafilm og fengið þau til að taka þátt í vinnslu heimildarmyndar og verður sú mynd frumsýnd í dag, sunnudag, á RÚV.

„Þetta var ekkert smá ferðalag. Við lögðum af stað eins seint og hægt var því það mátti ekki vera of kalt, en samt mátti ekki sundið hafa opnast,“ segir Leifur og útskýrir að Scoresbysund þurfti að vera frosið svo hægt væri að komast yfir það.

„Við fórum fyrsta spölinn með heimamönnum á hundasleðum, enda eru þeir snillingar og á heimavelli,“ segir Leifur og segir þá hafa þurft margoft að breyta um leið vegna veðurs.

„Það snjóaði svo mikið að hundasleðarnir drifu ekki upp, það var snjór upp í mitti. Við vorum í bölvuðu basli að komast sem stystu leið yfir sundið að mjög bröttum skriðjökli, en ef það hefði ekki snjóað svona mikið hefði leiðin verið algjörlega ófær. Hún var krosssprungin,“ segir Leifur og blaðamaður reynir að sjá þetta fyrir sér.

„Það voru forréttindi að fá að ferðast með þessum veiðimönnum,“ segir Leifur, en auk hans og Hallgríms voru með í för Einar Stefánsson, Skúli Magnússon og Tómas Grønvaldt Júlíusson.

Sveif tuttugu metra upp í loft

Fimmmenningarnir voru fjörutíu daga í ferðinni og var ferðamátinn gönguskíði, drekar og einstaka sinnum voru fjallaskíðin tekin fram til að leika sér. Ferðin var að vonum afar krefjandi og þurftu þeir að komast yfir margar hindranir. Ein helsta áskorunin var of lítill vindur, en þeir höfðu treyst á hann til að fleyta sér hratt yfir snjóbreiður og jökla.

Var ekkert erfitt að vera fimm saman svona lengi, og í svona miklu nágvígi?

„Mér fannst alls ekki mikið mál að vera í svona miklu návígi við þessa menn. Ég er svo vanur að vera að kúldrast með ókunnugu fólki í tjaldi þar sem ég þarf að bræða snjóinn og elda alla daga! Þetta var bara frí. Þarna þurfti ég bara að elda fimmta hvern dag, þeir töluðu íslensku, voru góðir vinir mínir, voru hressir og skemmtilegir og sögðu frábærar sögur og brandara allan tímann. Mér fannst þetta frábært og væri til í að fara hvert sem er með þessum mönnum aftur,“ segir Leifur.

„Við erum allir góðir vinir, bæði fyrir og eftir ferðina,“ segir Leifur og hlær.

Hann útskýrir að gönguskíðamennska með drekum sé sport sem sífellt sé að þróast.

„Einar og Hallgrímur eru öðrum fremri í þessu og hafa notað dreka til að ferðast yfir Ísland. Ég var ekki vanur, en Hallgrímur hafði sýnt mér þetta lauslega og við fórum í eina æfingaferð. Ég hugsaði með mér að ég hefði mörg hundruð kílómetra til að æfa mig og hélt að þetta yrði ekkert mál, en það var nú reyndar stórmál,“ segir Leifur og segir að maður þurfi að vera með alla athyglina á drekanum.

„Ef maður leit af þeim, þá reyndu þeir að drepa mann,“ segir hann og hlær.

„Þetta er svo mikið afl og á meðan maður hefur ekki fullkomna tilfinningu fyrir því hvar hann er í loftinu, fer maður í ansi margar byltur,“ segir Leifur og segist hafa í einni byltunni vankast töluvert.

„Í fyrstu ferðinni var ég allt í einu kominn í tuttugu metra hæð yfir landi. Drekinn lyfti mér algjörlega upp. Ég gat lítið gert annað en að halda skíðunum niðri og búa mig til lendingar og sveif sem betur fer rólega til jarðar. Ég lærði þarna að líta ekki af drekanum.“

Hvað fór í gegnum hugann þegar þú sveifst tuttugu metra uppi í loftinu?

„Árans,“ segir hann og hlær dátt.

Leifur segir ferðaleiðina í raun ekki hafa verið upplagða fyrir dreka.

„Það var ekki nógu mikill vindur, en við svo sem vissum það. Ef við næðum hundrað kílómetrum á einum degi fengum við tvöfaldan rommskammt,“ segir Leifur og segir þá alltaf tilbúna að takast á við ófyrirséða hluti.

„Óvissan er mikil í svona leiðöngrum.“

Mættu báðir á hækjum

Er aldrei þreytandi og leiðinlegt að þramma kannski hundrað kílómetra á gönguskíðum?

„Þessi ferð var ekkert þreytandi. Við vissum að við þyrftum að klára þetta verkefni,“ segir Leifur og segir að vissulega verða stundum í svona ferðum allir dagar eins.

„Ég hef farið nokkrum sinnum á Grænlandsjökul og á Suðurskautið og þar verður dagurinn mónótónískur. Eins og eitt sinn á Grændlandsjökli var ég með vindinn í fangið í tíu daga í röð og maður vissi að dagurinn á morgun yrði eins og dagurinn í gær. Svo er manni illt einhvers staðar, vesen á sleðanum, loftbóla í áttavitanum. Eða það er þoka og manni líður eins og maður sé úti á rúmsjó. Þá kemur fyrir að maður hugsi; hvern djöfulinn er ég að gera? En svo fer maður alltaf aftur,“ segir hann og hlær.

Hvað drífur þig áfram?

„Mér finnst þetta spennandi og gaman. Ævintýraneistinn er enn til staðar.“

Leifur á fjögur ár í sextugt en er hvergi nærri hættur, þrátt fyrir ýmis álagsmeiðsl.

„Það eru nokkur stríðssár. Ég er með slitin krossbönd sem ég hef ekki haft tíma til að láta laga. Fyrir þessa ferð mættum við Hallgrímur til Norlandair til að semja um flutninginn til Grænlands. Báðir á hækjum,“ segir hann og skellihlær.

„Þrír af okkur glímdum við meiðsli, en það sem pirrar mig mest var sjónleysið, ég sé ekki gleraugnalaus á GPS-tækið! Í vondu veðri er þetta meiri háttar fötlun, en ekkert mál í góðu veðri. Þá set ég bara upp gleraugun.“

Hvað með slitnu krossböndin, voru þau ekkert að angra þig í ferðinni?

„Jú, og eru enn. Ég hef alveg styrk ef fóturinn er boginn,“ segir hann kíminn.

Líður vel í sjö þúsund metrum

Við hverfum aðeins aftur í tímann því Leifur á sem fyrr segir heimsmet í „ævintýrastórslemmu“. Ein slík ferð er nógu mikið afrek út af fyrir sig, enda á fárra færi að ganga upp á hæsta fjall jarðar, yfir lönd og jökla eða pólanna tvo.

„Það eru fáir leiðsögumenn sem hafa unnið bæði í fjallaferðum og í gönguskíðaferðum. Ég hjálpaði Lýði Guðmundssyni að klára „grand slam“ og var þá í leiðinni sjálfur að fara annan hringinn. Ég áttaði mig á því þegar ég skráði okkur að það hafði enginn gert áður, að fara tvo hringi.“

Er eitthvað eftir?

„Já, það er alltaf nóg eftir. Eins og núna þegar við komum úr þessu ferðalagi er enginn skortur á hugmyndum. Við erum strax farnir að plana næstu ferð en ég er í vandræðum því ég þarf að vinna fyrir mér núna. Við eigum flug til Baffins-eyju austast í Kanada, sem er eiginlega enn heimskulegra ferðalag en þetta síðasta. En ég kemst ekki strax,“ segir hann.

Eins og fyrr segir hefur Leifur farið tvisvar upp Everest-fjall, einn Íslendinga, og hefur hann farið upp bæði norðan og sunnan megin.

„Lengi vel fannst mér Everest ekki sjarmerandi og hafði í raun ekki hugsað mér að fara þar upp. Ég var byrjaður að fara á öll hin fjöllin í kring og eitt sinn þegar ég stóð Cho Oyu, sem er sjötta hæsta fjall heims, horfði ég yfir á Everest og hugsaði; jú, kannski. Þá ákvað ég að reyna en fjármögnun er auðvitað erfið. Svona einkafrí kostar álíka og heimilisbíll og getur kostað mann lífið líka,“ segir Leifur og segist hafa fengið styrki í kringum árið 2008 sem hurfu í hruninu. En árið 2013 komst hann loks á Everest og í seinna skipti fór hann árið 2019.

Voru þetta ólíkar ferðir?

„Já, algjörlega, og báðar erfiðar. Ég hafði betri aðbúnað í seinni ferðinni þegar við Lýður fórum sunnan megin. Maður reynir að draga úr áhættu eins og hægt er en það þarf að ganga á fjallið og þetta er alltaf erfitt. Í fyrri ferðinni keypti ég lítinn aðbúnað, var með eitt tjald og með einn Sherpa í vinnu,“ segir Leifur og segist upplifa háfjallaveiki þegar hann er kominn í fimm þúsund metra hæð.

„Ég lendi þá á vegg og á bara mjög erfitt með að standa í fæturna fyrstu dagana. Síðan aftur á móti þegar ég er kominn í sjö þúsund metra hæð er ég góður. Ég ströggla þá minna en hinir,“ segir hann.

„Þarna í þessu dauðasvæði líður mér í raun vel, en þarna gengur maður fram á látið fólk og það má ekkert út af bregða. Öll skipulagning miðar af því að maður fari sér ekki að voða. Það er ekki toppurinn sem skiptir mestu máli.“

Heimskulegasta áhugamálið

Við ræðum þennan merkisdag þegar Leifur toppaði Everest í annað sinn, daginn sem fjöldi manns freistuðu gæfunnar og klifu síðasta spottann upp á tindinn. Alls fóru þar upp tvö hundruð manns á tveimur dögum, en ellefu sneru aldrei tilbaka.

„Þarna eru sorgarsögur og það er persónuleg saga á bak við hvern einasta einstakling sem deyr þarna. Hjá okkur voru hjón þar sem konan deyr. Hún hafði reynt við fjallið rétt á undan okkur, dottið fram af steini, búin að tína öðrum vettlingnum og var föst í bandinu. Við gengum fram hjá henni og öðru látnu fólki og því er ágætt að maður átti sig á því áður en maður fer að tölfræðin er ekki með þér. Þetta er eitt heimskulegasta áhugamál sem þú getur tekið þér fyrir hendur. Við þurfum að vera tilbúnir til að hjálpa öðrum og vorum við búnir að hugsa það áður. Hjá okkur Lýði tókst ferðin ótrúlega vel.“

Þið lentuð ekki í lífshættu?

„Þú ert í lífshættu að vera þarna og þarft að sætta þig við það. En allt gekk hratt og vel hjá okkur og við unnum vel saman.“

Ertu búinn að fara á K2?

„Nei, ekki farinn þangað. Ég var alveg til í að fara aftur á Everest, en ég fer ekki á K2 eða Anapurna því tölfræðin er algjörlega yfir strikið,“ segir Leifur en á K2 deyr um einn af fimm sem þangað fara.

„Ég hefði getað talið mér trú um að fara, en ég ætla ekki að gera það.“

Eru Everest-ferðirnar það hættulegasta sem þú hefur farið?

„Tölfræðilega er það hættulegast. Norðurpóllinn er hættulegur en maður skynjar það ekki eins og þegar maður gengur fram á nýlátið fólk,“ segir Leifur og segist hafa rætt alla möguleika við konu sína áður en hann lagði í þessa leiðangra.

„Maður hefur hugsað þann möguleika að maður komi ekki tilbaka. Maður verður að gera það. Það vita allir hvað þetta er hættulegt,“ segir Leifur en segist hafa verið tilbúinn að taka sénsinn.

Sprungur sem gleypt gætu strætó

Ferðin á Austur-Grænlandi var ekki hættulaus frekar en aðrar ferðir um óblíða náttúru.

„Við vitum að vinna með segl er hættulegt, og að fara inn á þessar slóðir sömuleiðis. En það var bara tilhlökkun fyrir þessari ferð og þetta var virkilega skemmtilegt,“ segir Leifur og segist spenntur að sjá heimildamyndina, en hana hefur hann ekki enn séð.

„Ég er mjög spenntur að sjá hana og vonandi verðum við saman vinirnir með frumsýningarpartý. Við vildum allir gera mynd, en Skúli dró þar vagninn.“

Ég sá að þið tjölduðuð einu sinni á jökulsprungu?

„Já, óvart. Við áttuðum okkur á því að við vorum ekki á góðum stað en þarna var stórt íssvæði sem var byrjað að leka niður í fjörð. Við stoppuðum þar og grófum gryfju fyrir tjaldið og sáum þá að þar sem við höfðum ætlað að tjalda, var undir heljarinnar sprunga. Þessar sprungur eru banvænar, oft tugi metra djúpar. Við breyttum staðsetningunni lítillega, en við sáum þarna sprungur sem hefðu getað gleypt strætisvagn. Við skíðuðum svo þarna yfir stórar jökulsprungur með seglin,“ segir hann.

„Þetta var svakalegt ferðalag.“