Kristín Ingibjörg Tómasdóttir fæddist á Miðhúsum 4. maí 1932. Hún lést á Hjúkrunar- og Dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum 24. desember 2021.

Foreldrar hennar voru hjónin Steinunn Hjálmarsdóttir (1898-1990) og Tómas Sigurgeirsson (1902-1987). Bróðir Kristínar var Sigurgeir (1933-1993). Hálfsystkini sammæðra og börn Þórarins Árnasonar (1892-1929) voru Kristóin Lilja (1922-2013), Þorsteinn (1923-1998), Sigurlaug Hrefna (1924-2012), Anna (1925-2017). Eftirlifandi bróðir er Hjörtur (1927).

Fyrri maður Kristínar var Bragi Eggertsson. Þau skildu. Stjúpbarn Kristínar og barn Braga er eitt. Rósa Guðný, f. 1952, maki Ómar Örn Ingólfsson og eiga þau þrjú börn. 2. Jón Eggert, f. 1954, maki Ásta Guðnadóttir og eiga þau þrjú börn. Eftirlifandi maki Kristínar er Máni Sigurjónsson (1932), organisti og fyrrv. starfsmaður hjá RÚV. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Jónsson (1881-1965), prestur á Kirkjubæ í Hróarstungu og Anna Sveinsdóttir (1894-1990).

Kristín stundaði nám við Héraðsskólann og síðan Húsmæðraskólann á Laugum. Hún lauk námi við Ljósmæðraskólann í Reykjavík 1955. Hún stundaði síðan framhaldsnám og námskeið í ljósmæðrafræðum við The Mother's Hospital og við Mile End Hospital í London 1959-60, við Frauenklinik Finkenau í Hamborg 1964, Rigshospital í Kaupmannahöfn sumarið 1964, Akers Sykehus í Ósló 1967, Rikshospital í Ósló, Söder Sjukhuset í Stokkhólmi og við Heilsuverndarstöðina í Ósló 1968 og við Queen Mother's Hospital í Glasgow 1970 og 1974 sem og við Sentral Sjukhuset í Malmö 1974. Hún fór jafnframt fjölda náms- og kynnisferða til Englands, Þýskalands og Norðurlandanna. Kristín Ingibjörg var ljósmóðir við fæðingardeild Landspítalans frá 1955 til 1993. Hún var aðstoðaryfirljósmóðir 1964-68 og síðar yfirljósmóðir til starfsloka og sinnti jafnframt kennslu við Ljósmæðraskóla Íslands. Næstu fjögur árin var Kristín forstöðukona Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum. Eftir það sinnti hún afleysingum við fæðingardeild Landspítalans, á Akureyri og á Höfn í Hornafirði. Þá sinnti hún einnig heimaþjónustu sængurkvenna á höfuðborgarsvæðinu. Starfsferill hennar sem ljósmóður náði rúmri hálfri öld.

Kristín var formaður Ljósmæðrafélags Íslands 1965-71, og var ætíð virk í félagsstörfum fyrir ljósmæðrastéttina og sat í fjölmörgum nefndum fyrir hönd félagsins.

Útför hennar verður gerð frá Reykhólakirkju í dag, 8. janúar 2022, klukkan 14. Vegna samkomutakmarkana verða einungis nánustu aðstandendur.

Það setur mig hljóðan systir mín góð

þá saman þitt lífshlaup er dregið.

Þú átt hefur heillandi ævinnar slóð

og einstakar lífgjafir þegið.

Fengsælt var nestið í framtíðar starf

Það fjölmargir atburðir sanna.

Foreldra þinna fékkstu í arf

farsæla nálgun til manna.

Ljósmóður hönd þín að börnunum bar

blessun til þegnanna nýju.

Alúðar fullur þinn vettvangur var

Þú veittir þeim nærgætni og hlýju.

Sigurgeir bróðir og synirnir hans

sérstaka umsjón þeir hlutu.

Kapparnir fjórir nú komnir til manns

kærleika frænkunnar nutu.

Við sendum hvort öðru oft frumsamið flím

fimlega stuðlað og orðað.

Græskulaust var það og réttstuðlað rím

frá ritskoðun öllu var forðað.

Þín umbreyting lífs varð er settist lágt sól

hún signdi með kærleikans varma.

Þú renndir í humátt svo rétt fyrir jól

mót rísandi eilífðar bjarma.

Ég kveð nú systur mína og sendi Mána mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hjörtur bróðir.

Elsku Dídí. Þá hefur þú kvatt þetta líf eftir stutt en snörp veikindi.

Þið Máni voruð nýlega flutt í íbúð sem var í tengslum við hjúkrunarheimilið Barmahlíð og nutuð ykkar þar vel og var svo gott að koma og sjá hvað vel var hugsað um ykkur. Þú hafðir á orði við mig síðast þegar við hittumst að þér þætti svo gott að vita af Mána þarna þegar þú þyrftir að skreppa frá.

Þú komst inn í líf okkar systkinanna þegar við vorum á unglingsárum og hefur það ekki alltaf verið auðvelt fyrir þig. Sérstaklega var ég ekki mjög meðfærileg, en þú hélst alltaf ró þinni og ræddir bara við mig um lífsins gang. Þú studdir mig líka í nær öllu sem ég vildi gera. Fór ein til Noregs til að vinna á spítala og fleira, var þar í níu mánuði, fór síðan til Edinborgar að passa börn. Síðan lá leið mín í Ljósmæðraskóla Íslands og var það ekki alltaf auðvelt að vera nemandi hjá stjúpmóður sinni en aldrei léstu mig finna fyrir því. Svo þegar Ómar kom inn í mitt líf fannst þér það himnasending enda á hann ættir að rekja í Skagafjörð og þið gátuð rakið ættir ykkar saman og kallaðir þú hann gjarnan frænda. Eftir að börnin okkar fæddust varst þú þeim sem besta amma og fylgdist vel með þeim út í lífið og barnabörnin nutu líka þinnar góðmennsku. Þú komast alltaf færandi hendi með eitthvað nýbakað, nýja bláberjasultu og ég tala ekki um jólamatinn, alltaf gafstu okkur rjúpur fyrir jólin í mörg ár.

Okkar samband breyttist ekkert eftir að leiðir ykkar pabba skildi.

Ég veit að missir Mána er mikill en það er huggun harmi gegn hvað frændfólk þitt hugsar vel um hann og þau vöktu yfir þér þar til yfir lauk.

Elsku Dídí, takk fyrir samfylgdina og allt sem þú kenndir mér.

Þín stjúpdóttir,

Rósa Guðný.

Elsku hjartans Dídí amma mín.

Hún var ein af mikilvægustu manneskjunum í lífi mínu. Hún var elskuð og hún elskaði. Hún var mín stoð og stytta í gegnum svo margt í mínu lífi, kenndir mér, ráðlagðir og varst til staðar sama hvað. Að koma í Vallargerðina til hennar og Mána voru gæðastundir, skemmtilegar og gefandi. Mínar bestu stundir þar voru þegar hún sast við ofninn í eldhúsinu í rauða stólnum sínum og hélt í hendur mínar og ýtti naglaböndunum niður og sagði mér sögur frá árunum áður. Ég elskaði líka að sitja við eldhúsborðið og við fengum okkur allt heimabakað, brauðbollurnar góðu, hjónabandssæluna góðu og te. Hún fékk bræður fjóra í arf og hún var svo stolt af þeim öllum og öllum afkomendum þeirra. Hún sagði við mig í seinasta símtalinu okkar á Þorláksmessu að hún væri svo þakklát fyrir okkur öll og hún fyndi svo vel fyrir því hvað okkur öllum þætti vænt um hana. Hún bað mig fyrir nokkrum hlutum þegar hún væri farin og ég lofa því að standa við þá alla. Eitt af því var að bræðurnir yrðu alltaf að vera í góðu sambandi því það var henni dýrmætast af öllu, að litlu snúðarnir hennar eins og hún kallaði þá en eru nú fullorðnir menn. Ég elskaði hana elsku Dídí ömmu mína og hún vissi það. Mikið sem ég á eftir að sakna af öllu mínu hjarta samverunnar og símtalanna. Börnin mín og Raggi minn öll elskuðu hana öll og var það gagnkvæmt. Hún tók á móti Emblu minni og Símoni mínum sem hún elskaði afar heitt, þegar Ísabella og Tumi komu í heiminn var hún fyrir vestan en var í símanum allan tíman með mér. Dýrmætasta stundin með henni var þegar hún tók á móti barnabarni mínu 2017 og ég fékk að vera með líka en ég gerði ekki annað en að gráta úr mér augun að horfa á hana hjálpa Emblu minni í gegnum þetta.

Þótt döpur sé nú sálin,

þó mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf amma mín.

Dísa Ragnheiður Tómasdóttir.

Elsku Dídí mín. Þá er komið að kveðjustundinni. Mikið sakna ég þín og allra okkar samverustunda.

Margar stundir höfum við átt saman og oft var glatt á hjalla.

Þegar við vorum á Reykhólum 1951 þá vorum við ung og létum okkur detta ýmislegt í hug. Ég man þegar við fórum ríðandi að messu út að Stað. Það var skemmtileg ferð.

Gaman og gleðistundir þegar ég heimsótti ykkur Mána í Vallargerðið, þá var margt rætt og mikið hlegið.

Mikið þótti mér gaman þegar þú komst og varst hjá mér og varst að leysa af á sjúkrahúsinu hér á Akureyri. Þá fórum við og dönsuðum á leikvellinum með fleira fólki, þá var nú fjör. Mikið var ég þér þakklátur þegar þú komst norður og tókst á móti Diðriki mínum. Þar eins og í mörg önnur skipti gerðir þú gott verk.

Dídí mín, það eru svo mörg skipti sem ég man og við áttum saman sem ég á í minningasjóði, það er gott að ylja sér við þær minningar. Haf þú þökk fyrir þær allar.

Þinn frændi,

Jón Hólmgeirsson.

Elsku Dídí mín, mikið er skrítið að hún sé ekki lengur hér til að tala við og sjá. Þótt sannleikurinn sé sá að allir fara að lokum á vit forfeðra sinna. Hún greinist með krabbamein í vetur og gerðist þetta allt saman því miður of hratt. Ég og við öll eigum eftir að sakna hennar svo mikið, en hún var mér svo margt, frænka, amma, vinkona, trúnaðarvinur og fl. Hún fyllti upp í það skarð sem Dísa amma og Geiri afi skildu eftir þegar þau falla frá fyrir pabba og bræður hans. Ekki nóg með það þá gerði hún það líka fyrir okkur barnabörnin þeirra þá var hún 100% til staðar í hlutverki þeirra sem bæði amma og afi. Hún var okkur öllum svo mikilvæg, og lét ávallt vita hvað hún var stolt af afkomendum bróður síns. Þegar ég var barn þá var ég víst smá óþekk og með mikið skap, en mér ávallt svo minnisstætt þegar ég var ósátt við foreldra mína pakkaði ég bara í tösku og vildi flytja til hennar. Samt var hún með sínar reglur, ákveðin og hafði einstaklega gott lag á að sannfæra mann um hvað væri réttast. Hún var mér sterk fyrirmynd og átti ég auðvelt með að líta upp til hennar, enda var gott að ræða við hana. Það var ekkert sem við gátum ekki rætt, en hún var alltaf svo róleg, yfirveguð og ráðagóð. Þótt við værum ekkert endilega alltaf sammála var alltaf gott að fá leiðsögn. Mikið á ég eftir að sakna hennar, okkar stunda saman, halda í hönd hennar eða einfaldlega til að hlæja með henni, en ég elskaði húmorinn hennar. Enda var það svo að alveg fram á hennar síðustu stundir gátum við enn hlegið mikið saman og er ég afar þakklát fyrir þann dýrmæta tíma. Hún var líka svo góð við alla, en hún hefur hugsað um marga sem þurftu á að halda, sbr. að skjótast hingað og þangað með vini sína. Hún var með svo gott og fallegt hjarta. Hún vildi alltaf hafa nóg að gera og það gaf henni mikið að hjálpa öðrum og átti þó samt erfitt með að þiggja sjálf aðstoð, en var farin að leyfa okkur að hjálpa sér aðeins síðustu tvö árin.

Hún elskaði sveitina sína og lét sig yfirleitt ekki vanta í sauðburð, dúnleit og fleira. Hún var viðstödd allar mínar fæðingar og hugsaði alltaf svo vel um mig, stelpurnar mínar og fjölskyldu. Það eru mér mjög dýrmætar minningar. Hún var svo stolt og fá að vera í sínu ævistarfi að taka á móti hjá mér.

Með heimilisstörfin fékk ég mikla leiðsögn og sama hvað ég var lengi að ná sumum verkum, gafst hún ekki upp og ég minnist hennar núna í öllum þeim verkum sem hún kenndi mér. Hvort sem það sé þrifin, þvotturinn, eldamennskan, baksturinn, frágangur og svo margt fleira sem hún kenndi mér. Hún var mjög hagsýn, nýtin og nægjusöm með allt, en er það einnig arfleifð sem ég mun taka með mér sem nesti inn í framtíðina.

Ég veit að henni líður betur núna og ég lofa að við hugsum öll vel um elsku Mána.

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir.

Mig langar að minnast föðursystur minnar, hennar Dídíar frænku. Hún var kletturinn í lífi okkar bræðra þegar móðir okkar lést. Hún hélt vel utan um mig og mína fjölskyldu þegar hann Máni okkar lést og sagði mér það seinna hversu erfitt þetta hefði verið fyrir sig en þau voru miklir félagar. Máni okkar var tíður gestur hjá frænku sinni í Vallargerðinu, bakstur og eldamennska var þeirra beggja mikið áhugamál. Þá fór hann jafnframt í margar veiðiferðir upp á Grundarvatn með henni þar sem þau voru að veiða og tína fjallagrös en Dídí frænku var sérstaklega annt um vatnið og fjallið. Ég keyrði hana upp að Grundarvatni sumarið 2019 sem var hennar síðasta ferð upp að vatni. Þar sat hún í fallegri laut og leit yfir vatnið og sagði við mig: „Mikið líður mér vel hérna.“

Dídí var í raun ofurkona, tók á móti fjölda barna, þar á meðal okkar börnum, sem var ómetanlegt og mótaði einnig líf margra barna. Hún var ákveðin og frekar óþolinmóð og átti erfitt með að bíða eftir að hlutirnir gerðust. Eitt sinn hringdi hún í mig, ég fyrir sunnan og hún stödd á Reykhólum, spyr hún mig hvort ég sé ekki að koma vestur, sig vanti hjálp við að mála efri gluggana á Reykhólahúsinu, ég sagði henni að ég kæmi um miðjan dag. Þegar ég kom vestur sá ég stiga við einn gluggann og málningarfötu liggjandi þar fyrir neðan. Fann því næst Dídí fótbrotna inni í rúmi, hún hafði ekki haft þolinmæði til að bíða eftir mér.

Síðastliðið vor tók hún þá ákvörðun að selja húsið sitt í Kópavogi og flytja í sveitina sína þar sem hún kom sér fyrir í lítilli íbúð á Dvalarheimilinu Barmahlíð með Mána eiginmanni sínum en dvölin þar varð skemmri en vonast var til.

Að lokum vil ég þakka frænku minni fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og mína fjölskyldu. Minningarnar eru ljós lífsins og mun hún Dídí ávallt lifa í hjörtum okkar.

Magnús og fjölskylda.

Fegurð og fjölbreytni mannlífsins upplifir hver í samneyti við þá, sem næstir honum standa, ekki síst meðal nánustu vina, og vinátta okkar Dídíar, Kristínar Ingibjargar Tómasdóttur, náði yfir rúm 70 ár. Hún upphófst er tveir frændur hennar og skólafélagar mínir í Kennaraskóla Íslands, Máni Sigurjónsson og Sigurður Jóelsson, töldu rétt að leiðir okkar lægju saman. Þær gerðu það hnökralaust síðan, leiðir okkar allra fjögurra meðan entust, hvernig svo sem hjól örlaganna ákvað lífsferil hvers um sig. Tímar upphafsins voru um miðja öldina sem leið; þá voru mikil búsetuskipti á Íslandi, æska dreifbýlisins streymdi til höfuðborgarsvæðisins og hóf að semja sig að borgarmenningu. Niðurstaða þess sjálfsuppeldis réðist að miklu leyti af vinahópnum og heppni mín var einstök á mjög tvísýnum tímum ævi minnar. Sú vinátta var ábyrg og entist: Máni var svaramaður við vígslu okkar Kolfinnu heitinnar, Dídí tók svo á móti börnunum okkar þegar sá tími kom. Hún varð yfirljósmóðir á Landspítalanum, ljósubörnin skiptu að lokum hundruðum og viðhorf hennar til lífsstarfsins mótaðist af sömu gildum og samneytið við vinina: Kærleika, umhyggju og ótakmarkaðri greiðvikni. Með tíð og tíma urðu þau hjón, Dídí og Máni, og áttu frábæra ævi saman. Kærkomnastir voru þeim ef til vill dagarnir á Reykhólum, á æskuslóðum Dídíar, í umhverfi er sífellt bjó í huga hennar, hvað sem á gekk. Þar nutum við Kolfinna tíðum gestrisni þeirra, ein eða með okkar fólki. Það voru dýrmætar og eftirminnilegar stundir, svo sem maídagarnir á Reykhólum 1992:

Fuglar vorsins fagna

hátt í hlíð

og fimir strengi slá

um sund og móa.

Í berjalautu grænjaxlarnir gróa.

Golan úr eyjum strýkur

vangann þýð.

Innan skamms litkast blágresið

vort blíða

og baðar í vorsins ást hvern

lautarhjalla.

Þar mun svo æskan allar

nætur spjalla

og angandi reyrinn kíminn

á það hlýða.

Já, eitt er lífsins afl

um hlíð og blána,

unaður gróandans í

ljúfum stefjum.

Sönglag vort enn til

hamingjunnar hefjum:

Hún geymi sífellt

Dídí sem og Mána.

Árin liðu frá því vori, en stundir í ágúst 2008 voru ekki síðri:

Mildum höndum móðir jörð

miðlar gæðum fríðum.

Dægur björt við Breiðafjörð

býr hún gestum sínum.

Þar er friður, þar er ró,

þar er logn í skjólum.

Kærust eru kvöldin þó

og kyrrust Reyks – á hólum.

Gott er að eiga gleðistund

í góðra vina haga.

Kæra þökk fyrir þennan fund

og þessa sumardaga.

Hjartans þakkir Dídí mín frá mér og mínum fyrir sumardagana alla og megi forsjónin vaka yfir vegferð Mána og ykkar nánustu.

Hinrik Bjarnason.

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir ljósmóðir var vinkona mín. Hún þekkti mig frá fæðingu vegna þess að hún leigði íbúð á æskuheimili mínu þegar hún var að stíga sín fyrstu skref sem ljósmóðir á fæðingardeild Landspítalans þar sem hún var síðar yfirljósmóðir um árabil. Ég vann hjá henni á fæðingardeildinni og sá hvernig hún sinnti starfi sínu af stakri fagmennsku.

Kristín var ljós í húsi og sinnti starfi sínu af einstakri umhyggju með velgengni sængurkvenna að leiðarljósi. Hún hafði einstaka nærveru og einstaka hæfileika. Kristín fylgdi starfi ljósmæðra og sængurlegu inn í nýja heima þangað til kom að því að sængurkonur önnuðust börn sín sjálfar í sængurlegu. Hún fyllti hjarta nýbakaðra mæðra af öryggi og gaf þeim sjálfstraust. Hún var sýnileg og ósýnileg í senn þegar hún annaðist fæðandi konur og tók á móti börnum þeirra.

Ég hef oft sagt að ég eigi Kristínu líf mitt að þakka. Hún tók á móti börnunum mínum og veitti mér meiri aðstoð, kærleika og ást en ég hefði getað ímyndað mér. Væntumþykja hennar og öruggt fasið gaf mér öryggistilfinningu sem fylgdi mér áfram við umönnun barna minna. Við töluðum saman reglulega, síðast nokkrum dögum fyrir andlátið, og ég hélt við myndum halda upp á níræðisafmælið hennar í vor. Svo verður ekki. Missir Mána og fólksins hennar er mikill og gott var að hugsa til þess að þau voru flutt í Reykhólasveitina, sveitina sem hún talaði alltaf um af stolti, virðingu og væntumþykju.

Ég fæ seint fullþakkað allt sem Kristín gerði fyrir mig og mína. Minningin lifir um ókomin ár, dýrmæt minning.

Ég sendi Mána og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður guð vernda minningu Kristínar Ingibjargar Tómasdóttur.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir.

Ef nefna ætti ljósmóður sem mótaði fæðingarhjálp á Íslandi meira en flestar aðrar á síðasta þriðjungi fyrri aldar, þá kemur fyrst í hugann Kristín Ingibjörg Tómasdóttir, fyrrverandi yfirljósmóðir á kvennadeild Landspítalans, sveitastúlkan úr Reykhólasveitinni þaðan sem hún kom rúmlega tvítug til að læra í höfuðstaðnum. Þótt lífs- og starfsvettvangurinn yrði lengstur á Reykjavikursvæðinu hafði hún alist upp í sveit sem alltaf dró hana til sín. Kristín lauk líka langri og gifturíkri ævi þar eftir stutta sjúkdómslegu.

Sem ungur sérnámslæknir og seinna nýr sérfræðilæknir á kvennadeildinni varð mér ljóst hve fær ljósmóðir hún var, með góða sýn á nýja tíma í faginu, enda vel menntuð og víðsýn eftir námsdvalir í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi. Kristín var afburðaljósmóðir, nærfærin og hlý. Fagmennskan og framkoman fyrirmynd annarra. Þegar ég færði í tal við hana nýjungar, var hún áhugasöm um að færa allt sem hægt var til betri vegar fyrir konur, hvort sem það voru einfaldar aðgerðir til að hætta óþörfum gömlum venjum sem ekki áttu sér stoð í gagnreyndum fræðum, eða að nýta nýja tækni til hagsbóta fyrir hina fæðandi konu og börnin sem voru að koma í heiminn. Alltaf var opið inn á skrifstofu hennar og tekið á móti þeim sem þangað leituðu með brosi og velvild.

Kristín Ingibjörg vann á fæðingadeild Landspítalans í næstum hálfa öld og stýrði deildinni að miklu leyti í nær í aldarfjórðung. Hún var einkar jákvæð gagnvart þeim sem þurftu að læra, hvort heldur ljósmæðrafræðin eða læknisfræði, kenndi og miðlaði bæði fræðilega og með störfum sínum og fasi. Hún varði kröftum fyrir stétt sína hér heima og á Norðurlandavettvangi, og með umbótum í námi ljósmæðra. Eftir árin á Landspítalanum færði hún sig nær gömlu sveitinni sinni og stýrði hjúkrunar- og dvalarheimili á Reykhólum, en leysti líka af á sínum gamla vinnustað og úti á landi. Það var gott að koma heim til þeirra hjóna í Kópavoginn til að leita ráða hjá Kristínu eftir að ég varð yfirmaður á hennar gamla og kæra vinnustað, þiggja kaffi og spjalla. Eða heilsa henni á Reykhólum. Ég skynjaði alla tíð stuðning hennar og áhuga, meðal annars á samstarfi ljósmæðra og fæðingalækna sem alltaf verður náið vegna hins sameiginlega markmiðs, sem er velferð þungaðra og fæðandi kvenna. Forverar mínir og allir læknar á kvennadeildinni mátu hana mikils og treystu henni. Kristín Tómasdóttir skóp aðeins jákvæðar minningar og þær munu geymast vel.

Reynir Tómas Geirsson, fyrrv. forstöðulæknir og prófessor, kvennadeild Landspítalans.