Betty White yljaði mörgum með hlýju sinni og kímni á langri ævi.
Betty White yljaði mörgum með hlýju sinni og kímni á langri ævi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ein ástsælasta og langlífasta sjónvarpsstjarna sögunnar, Betty White, kvaddi þennan heim á gamlársdag, rúmum tveimur vikum fyrir 100 ára afmælið. Henni er lýst sem svartabeltiskonu í gríni. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Má ég kynna eiginkonu mína, einn af frumkvöðlum þögla sjónvarpsins!“ Þannig kynnti sjónvarpsmaðurinn Allen Ludden spúsu sína, Betty White, gjarnan. Og glotti við tönn. Klassískt hjónagrín sem þó var alls ekki úr lausu lofti gripið en White tók einmitt þátt í tilraunaútsendingu sjónvarps í Bandaríkjunum árið 1939 og var að nánast fram í andlátið á dögunum. Ludden kvaddi fjörutíu árum fyrr.

White fór á flug snemma á sjötta áratugnum; fyrst í spjallþætti sem kenndur var við hana sjálfa og síðan í gamanþáttunum Life With Elizabeth. Sá síðarnefndi fer svo sem seint í sögubækurnar fyrir gæði en White heillaði eigi að síður áhorfendur með glettni sinni og útgeislun.

Spé lá alla tíð afbragðsvel fyrir White og upplagt að gera það að lifibrauði. Í minningargrein í breska blaðinu The Guardian er White sögð hafa verið með svarta beltið í gríni. Hver gamanþáttaröðin rak aðra á ferlinum en frægust er White fyrir leik sinn í The Mary Tyler Moore Show á áttunda áratugnum og The Golden Girls á þeim níunda og tíunda. Hún vann til Emmy-verðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir báða þætti, raunar í tvígang fyrir þann fyrrnefnda. Þar lék White glaðlynda en kaldhæðna sjónvarpskonu sem hafði næmt auga fyrir körlum og steig ófeimin í vænginn við þá.

Í The Golden Girls, eða Klassa-píum, lék hún hina tápmiklu ekkju Rose Nylund sem deildi heimili með þremur öðrum eldri konum í Flórída. Rose var ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni en hlý og indæl og keppnismaður fram í fingurgóma – enda af norsku bergi brotin.

Gamanleikur snýst ekki síst um tímasetningar og þær negldi White eins og að drekka vatn; allt frá barnslegu sakleysi yfir í flugbeitt sveðjuhögg, þar sem það átti við. Vörumerkið var þó jafnan þessi alltumvefjandi spékoppahlýja stelpunnar í næsta húsi. Það var útilokað að láta sér líka illa við Betty White.

Tækluð á fótboltavelli

Hún lét sér heldur ekki allt fyrir brjósti brenna eins og þegar hún birtist nær níræð í Super Bowl-auglýsingu frá súkkulaðigerðinni Snickers árið 2010. Var tækluð á tyrfnu undirlagi, eins og hver annar spartverskur handspyrnir. Samfélagsmiðlar fóru á hliðina í framhaldinu og kröfðust þess að hún liti við í skemmtiþættinum sívinsæla Saturday Night Live. Á það var hlustað, eins og menn gera, og White stóð uppi með enn ein Emmy-verðlaunin sem besta gestaleikkonan í gamanseríu. Jay nokkur Z var þar á kantinum. White hafði einstakt lag á að sameina kynslóðirnar.

Það er raunar lyginni líkast að fletta ferilskrá hennar á öðrum áratugi þessarar aldar, konu á tíræðisaldri. Hún var til dæmis í burðarhlutverki í gamanþáttunum Hot in Cleveland í fimm ár, auk þess að stjórna sínum eigin þætti, Betty White's Off Their Rockers, í önnur fimm ár, þar sem eldri borgarar fífluðust með falinni myndavél í fólki sem hæglega gat verið barnabörn þeirra. Þar var White eins konar Auddi Blö roskna mannsins. Þess utan kom hún fram sem gestur í hinum og þessum þáttum og lék í sjónvarpsmyndum. Mögulega skein stjarna Betty White aldrei skærar en eftir nírætt.

Sjálfur sat ég til borðs með fólki sem er helmingi yngra en ég sjálfur þegar fregnin um andlát hennar barst á gamlárskvöld og ekki þurfti að gera nánari grein fyrir konunni gagnvart nokkrum. Allir þekktu Betty White og hörmuðu fráfall hennar – sérstaklega þegar svona grátlega stutt var í aldarafmælið.

Alveg eins gáttuð og aðrir

Þegar ástralskt dagblað spurði White um þessar vaxandi vinsældir árið 2012 svaraði hún: „Ég held að það heilli fólk af einhverjum ástæðum, eftir að ég varð níræð, að ég sé enn að vinna. Ég er mjög þakklát fyrir að vera enn þá boðið að vera með, en er alveg jafn gáttuð á þessu og aðrir.“

Þess má geta að flunkuný heimildarmynd um ævi og störf White verður frumsýnd 17. janúar – á 100 ára fæðingarafmæli hennar.

„Hjörtu okkar eru full af sorg í dag vegna fráfalls Betty White,“ sögðu framleiðendurnir Steve Boettcher og Mike Trinklein um leið og þeir staðfestu að hvergi yrði hnikað frá fyrri áformum um frumsýningu téðan dag. „Öll þessi ár sem við unnum með henni þróuðum við með okkur djúpa ást og virðingu fyrir Betty sem manneskju og mergjuðum skemmtikrafti. Við erum þakklátir fyrir alla áratugina sem hún færði fólki gleði. Sjálf sagðist Betty alltaf vera „heppnasta uppistandandi dama heims“ fyrir að hafa átt svo langan og farsælan feril. Gleðin var öll okkar, að fá að njóta hæfileika hennar svo lengi. Hún var þjóðargersemi.“

Við skulum ljúka þessum minningarorðum með tilvitnun í White sjálfa en árið 1986 hafði hún eftirfarandi að segja við The Toronto Star: „Leikarar vilja kasta steinum í sjónvarpi en ég ann miðlinum vegna nándarinnar og möguleika hans til að ná beint til hins breiða fjölda. Það er útilokað að ná maður-á-mann til áhorfenda á sviði. Í kvikmyndum er maður stærri en lífið sjálft og aftengist áhorfandanum gjörsamlega. Sjónvarpið býr á hinn bóginn að eigin lífsþrótti og fegurðin er sú að maður getur elst þar inni. Ég ætla mér að vera á svæðinu þangað til ég verð 102 ára.“

Það tókst hér um bil.

Ætlaði að verða skógarvörður

Betty White fæddist í Oak Park, Illinois, 17. janúar 1922. Hún var einkabarn foreldra sinna og bæði af grískum og dönskum ættum. Fjölskyldan flutti til Los Angeles í kreppunni miklu, þar sem faðir hennar vann fyrir sér með útvarpssmíði. Sjálfa dreymdi White um að verða skógarvörður en þau áform döguðu uppi enda konum harðbannað að gegna slíku starfi á þeim tíma. Þess í stað lagðist hún í skriftir sem aftur kveikti áhuga hennar á því að koma fram. White starfaði um tíma sem fyrirsæta meðan hún beið tækifæra á sviði. Leiklistarferillinn fór á hinn bóginn í bið í seinni heimsstyrjöldinni, þegar White gerðist sjálfboðaliði í American Women's Voluntary Services. Meðal verkefna hennar á þeim vettvangi var að keyra vörubíl og taka þátt í að skemmta hermönnum meðan þeir biðu þess að vera sendir á vígstöðvarnar. White var mikill dýravinur og barðist alla tíð af krafti fyrir velferð þeirra.