[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennarinn: Jæja, krakkar mínir. Sýnið mér nú fram á að orðmyndin „ást“ geti birst í a.m.k. þrenns konar merkingu! Nemandi 1 : Ást er fædd og alin blind. Nemandi 2 (eftir nokkra umhugsun): Þú ást sviðasultuna [so. að éta ].

Kennarinn: Jæja, krakkar mínir. Sýnið mér nú fram á að orðmyndin „ást“ geti birst í a.m.k. þrenns konar merkingu!

Nemandi 1 : Ást er fædd og alin blind.

Nemandi 2 (eftir nokkra umhugsun): Þú ást sviðasultuna [so. að éta ].

Nemandi 3 (seint og um síðir): Það er eins og þarna hafi ást við úlfurinn og refurinn [so. að eiga í miðmynd: eigast (við) ].

Kennarinn : Hárrétt. En þegar ég var ungur voru þessi orð aðgreinanleg á prenti:

Ást sér gegnum hóla, eins og Steingrímur Thorsteinsson sagði.

Þú ázt keppinn.

Það er eins og þarna hafi átzt við úlfurinn og refurinn.

Nemendur í kór: Ertu að grínast?

Kennarinn : Ó, ekkí. En mig langar að segja ykkur af bældri ást í Þórðar sögu hreðu . Systir söguhetjunnar hét Sigríður og var „allra kvenna vænst [fallegust], ofláti og skapstór“. Hún kom með þremur bræðrum sínum til Íslands og var Þórður þeirra fremstur þótt langyngstur væri og enn ekki vaxin grön. Þau höfðu flúið Noreg vegna þess að bræðurnir höfðu drepið konunginn, Sigurð slefu Gunnhildarson, sem var „óeirðarmaður mikill um kvennafar“.

Systkinin settust að á Ósi í Miðfirði. Á næsta bæ bjó hinn nafnkunni Miðfjarðar-Skeggi á Reykjum. Ýfingar urðu strax með Skeggja og Þórði.

Nú ber svo við að Ásbjörn, náfrændi Skeggja, kemur til Íslands. Hann var gleðimaður og fór jafnan til laugar að skemmta sér. Eitt sinn þegar hann var þar með Skeggja gekk Sigríður (systir Þórðar) þar hjá með léreft sín, bæði fríð og mikil. Þau Ásbjörn horfðust þögul í augu. Skeggi réð frænda sínum að skipta sér ekki af þessari konu enda væru bræður hennar fullir ofurkapps. – Þegar Sigríður kom heim var hún litverp ; en Þórður fylltist tortryggni og hafði um Ásbjörn smánaryrðið veisugalti [vilpusvín].

Sigríður var glysgjörn, og eitt sinn bað hún Þórð, sem ætlaði til kaupstefnu við Hvítá, að kaupa handa sér „skikkju mjög vandaða“. Fleiri reyndust girnast skikkjuna og neyddist Þórður til að drepa tvo Borgfirðinga til að geta haldið henni.

Við hinn þögla fund Sigríðar og Ásbjarnar hafði kviknað brennandi ást. En ástin var bæld af fyrrgreindum ástæðum; „aldrei gat Ásbjörn Sigríðar.“ Til átaka kom á kappleik milli Þórðar og Ásbjarnar á Miðfjarðarís sem enduðu með heiftaryrðum.

Tilviljanir réðu því þó að Miðfjarðar-Skeggi fór til Þórðar og bað Sigríðar fyrir hönd Ásbjarnar frænda síns sem þá var reyndar farinn úr landi. Þórður (sem Ásbjörn hafði kallað meyjarkinna af því að hann var enn skegglaus!) samþykkti ráðahaginn með vissum skilyrðum, og skyldi Sigríður sitja í festum í þrjá vetur.

Bróðir Ásbjarnar kom nú til landsins og heillaðist af heitkonu bróður síns. Þórður gerði sér lítið fyrir og drap hann. Ásbjörn kom síðan innan tilskilins frests og fylltist auðvitað hefndarhug í garð Þórðar. Allt fór þó vel að lokum. Sigríður fluttist með manni sínum til Noregs – laus undan oki meyjarkinnans bróður síns.

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com