Óskar Sigurfinnsson fæddist á Kornsá í Vatnsdal 29. ágúst 1931. Hann lést á HSN Blönduósi 21. desember 2021.

Foreldrar hans voru Björg Karólína Erlendsdóttir, f. 4.7. 1899, d. 4.11. 1991, og Sigurfinnur Jakobsson, f. 2.11. 1891, d. 21.2. 1987. Systkini Óskars eru Sigurlaug, f. 1929, Björn, f. 1933, d. 1987, Jakob, f. 1935, d. 1966, og Guðrún, f. 1937.

Maki Óskars var Guðný Þórarinsdóttir f. 1.8. 1943, d. 29.11. 2021, foreldrar hennar voru Helga Kristjánsdóttir, f. 25.12. 1916, d. 27.8. 1998, og Þórarinn Þorleifsson, f. 10.1. 1918, d. 16.9. 2005. Börn Óskars og Guðnýjar eru: 1) Þóranna Björg, f. 12.11. 1960, gift Þorsteini Björnssyni. 2) Hólmfríður Sigrún, f. 31.10. 1961, í sambúð með Vigni Björnssyni. 3) Þorleifur Helgi, f. 13.1. 1963, giftur Þóreyju Guðmundsdóttur. 4) Júlíus Árni, f. 1.12. 1964, í sambúð með Dýrfinnu Vídalín Kristjánsdóttur. 5) Hulda Björk, f. 20.8. 1966, d. 14.9. 1971. Afkom endur þeirra eru á fimmta tug.

Óskar fluttist frá Kornsá að Hurðarbaki vorið 1933 ásamt foreldrum, afa og tveimur systkinum. Þar ólst hann upp en ungur fór hann að Meðalheimi þar sem hann bjó þar til heilsu hrakaði.

Útför Óskars fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 8. janúar 2022, klukkan 14. Hægt er að nálgast á facebooksíðu Blönduóskirkju.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Þrátt fyrir þá staðreynd að dauðinn er óumflýjanlegur og hluti tilveru okkar allra er hann óviðsættanlegur og jafnvel óréttlátur, ekki síst þegar hann ber niður nálægt okkur sjálfum og hrífur á brott þann sem okkur þykir vænt um. Góður drengur er genginn, já ef einhver á skilið það sæmdarheiti er það faðir minn Óskar Sigurfinnsson. Þetta er ekki bara mitt mat, mér er sagt að þetta sé mat flestra sem ferðast hafa með pabba gegnum lífið. Það er mikið sæmdarheiti að vera metinn góður drengur. Ég minnist pabba fyrst og fremst sem góðmennis sem aldrei lagði illt til nokkurs manns en studdi og hjálpaði þeim sem á aðstoð þurftu að halda. Hann var óvinur sýndarmennsku og sýndi öllum, sem það áttu skilið, virðingu og nærgætni.

Gakk þú líknargötu beint

gefðu þyrstum svala.

Gegnum störfin ljóst og leynt

leyfðu Guði að tala.

(Jósep Sveinsson Húnfjörð)

Eitt af verkum pabba sem hann tók þátt í ásamt öðru heimilisfólki í Meðalheimi var að hjálpa börnum sem þurftu að komast í burtu frá heimaslóðum af ýmsum ástæðum. Margir þessara einstaklinga eru hjónunum og öllum öðrum í Meðalheimi sem lögðu verkinu lið ævarandi þakklát og kalla þá „bjargvætti“ sína og líta til baka með þökk og virðingu.

Að meitla rím og móta brag

margur gat og vildi:

Aldagamalt íslenskt fag

enn í fullu gildi.

(Óskar Sigurfinnsson)

Einn af hæfileikum pabba var að geta sett saman vísur. Eftir hann liggja ógrynnin öll af góðum kveðskap og ég meina góðum hvað innihald varðar. Hann er aldrei rætinn, hortugur eða grófur í sínum kveðskap en var laginn að sjá það sérstaka og skondna í hverjum og einum. Einnig var söngur hans hjartans mál. Hann var stofnfélagi sönghópsins Vökumanna og söng með honum allan þann tíma sem hann starfaði. Hann söng einnig með karlakór Bólstaðarhlíðar.

Sannur vinur með góðvild geldur

þá gleðistund er hann hefur þegið.

Hann mælir fátt, en í hönd þér heldur

og hjarta hans slær í takt við þitt eigið.

(Ósk Skarphéðinsdóttir Blönduósi) Pabbi átti erfiða daga síðustu rúmu tvö árin. Hann fann fyrir vanmætti og leið oft ekki vel. Ég sat oft hjá honum og fann hvað hann var óöruggur og jafnvel hræddur en Þegar ég hélt í hönd hans og ræddi um gamla daga, sveitina og störfin í Meðalheimi bráði af honum og hann varð öruggari. Einnig var það honum til hugarhægðar og léttis að fara í hjólastól í leiðangra utandyra í nágrenni sjúkrahússins. Ég vildi auðvitað að ég hefði getað verið oftar og lengur hjá pabba á leið hans síðasta spölinn.

Við skulum ekki á vinafund

vera alltof sparir.

Kemur hinsta kveðjustund

kannski fyrr en varir.

(Óskar Sigurfinnsson)

Pabbi er ekki farinn. Hann sáði frækornum velvildar, hógværðar og vinsemdar hvar sem hann fór og hafði djúp áhrif á okkur öll sem með honum ferðuðumst. Vonandi ber sú sáning ávöxt í bættri framkomu okkar hvert við annað. Pabbi gerði heiminn örlítið betri og er því hluti af honum áfram. Við sem eftir lifum erum innilega þakklát fyrir að fá að hafa hann áfram með okkur í minningunni, hlýjan, hnyttinn og velviljaðan.

Sigrún Óskarsdóttir.

Í minningu hjónanna í Meðalheimi, Guðnýjar Þórarinsdóttur og Óskars Sigurfinnssonar.

Ef ég lít um ævisvið

eflaust mörgu gleymi.

En yndisstundir áttum við

með Óskari í Meðalheimi.

(Sigurjón Guðmundsson)

Nú hefur verið skammt stórra högga á milli. Þau létust með skömmu millibili nú á aðventunni þau Meðalheimshjón. Blessuð sé minning þeirra. Ég var nokkuð tíður gestur á heimili þeirra seinni árin. Vinátta fólks er dýrmæt, ekki síst ef hún er gefin af opnum huga. Þannig var koman að Meðalheimi. Guðný húsfreyja viðræðugóð og hlý og Óskar hnyttinn í svörum. Þeirra hjónaband var búið að vera langt og farsælt. Nýlega búin að eiga sextíu ára hjúskaparafmæli.

Kynni okkar Óskars eru orðin býsna löng. Við vorum vinnufélagar í sláturhúsi SAH um langt árabil. Óskar var góður verkmaður hvar sem hann kom að og einstaklega góður félagi.

Seinna urðu þeir feðgar Óskar og Júlíus félagar mínir í Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Þar voru báðir traustir liðsmenn. Áður var Óskar búinn að vera félagi í karlakórnum Vökumönnum meðan hann starfaði.

Þekktastur er Óskar fyrir vísnagerð sína. Ég held að segja megi að honum væri hagmælskan í blóð borin, Örugglega var hann með fremstu hagyrðingum hér um slóðir og þótt víðar væri farið. Vísur Óskars voru léttleikandi og því auðlærðar. Þær voru margar ortar í dagsins önn bóndans, um líf hans og starf. Meðferð hans á íslensku máli var frábær og skopskynið einstakt.

Margar af vísum Óskars tengdust heiðum, göngum og gangnamönnum. Þær urðu margar landskunnar. Á tímum hagyrðingamóta var Óskar aufúsugestur

og þótt hann væri að eðlisfari hlédrægur var eftir honum tekið.

Það var einstaklega vel gert er fjölskylda Óskars gekkst fyrir því að safna vísum Óskars saman og gefa út á tveimur geisladiskum. Það verk unnu tveir velunnarar Óskars, þeir Árni Geirhjörtur og Þór Sigurðsson. Eiga þeir miklar þakkir fyrir. Ég læt hér fylgja eina af stökum Óskars úr þessu vísnasafni. Skrifað í gestabók Hveravalla í sept. 1957.

Hérna fyrst um fjallaveg

fékk ég list að una.

Þótti vistin þægileg,

þökk fyrir gistinguna.

Gestrisni þeirra var mikil og öllum leið vel í návist þeirra.

Fyrr á árum dvaldi hjá þeim fjöldi barna af stórborgarsvæðinu. Til marks um gæði og góðvild þeirra halda margir þessara einstaklinga góðu sambandi við Meðalheimsheimilið enn í dag. Júlíus sonur þeirra tók fyrir nokkru við búskapnum í Meðalheimi. Hann var kletturinn sem þau treystu á þegar heilsa þeirra fór að bila.

Af hlaðinu í Meðalheimi er mikið og vítt útsýni til hafs. Að vera þar staddur um Jónsmessunæturleytið, sjá sólina hverfa niður fyrir hafflötinn og rísa úr sæ næstum jafnharðan er ógleymanlegt. Þarna vildu þau hjón vera. Þegar Guðný kvaddi skyndilega þyrmdi yfir Óskar vin minn og lífslöngunin fjaraði út. Ég þakka þeim hjónum samfylgdina og bið þann sem öllu ræður að vera með börnum þeirra og öllum afkomendum.

Sigurjón Guðmundsson.

Að lifa sér til ánægju, láta vera að grípa í hempu náungans eða hamla öðrum framgangi hans má gjarnan vera okkur keppikefli, sveimhuga jarðarbörnum. Þetta kemur mér fyrst í hug þegar ég minnist Óskars í Meðalheimi.

Það var sumarið 2006 sem ég kom til þeirra sómahjónanna, Guðnýjar og Óskars í Meðalheimi, og erindið var að reyna að fá þau til að koma á hið árlega hagyrðingamót sem þá skyldi haldið á Hólmavík undir traustri stjórn Jóns þjóðfræðings Jónssonar á Kirkjubóli.

Guðný húsfreyja í Meðalheimi hafnaði slíku ferðalagi en hvatti bónda sinn vel enda stjórnaði hann stuðlamáladeildinni á heimili þeirra þó sjálf ætti hún til frægra ljóðmæringa að telja.

Allt fór þetta eftir, Óskar kom vestur í fylgd Jóa í Stapa og hélt ári síðar uppi stökuheiðri Húnvetninga á Blönduósi ásamt Einari í Hlíð, Gísla á Mosfelli, Páli í Sauðanesi og Jóa í Holti.

Þá var mótið komið til Norðlendinga en auk Óskars komu þáverandi Bólstaðarhlíðarhjón, Hafdís frænka mín og Einar, vestur á Hólmavík haustið áður og Einar vann síðar mjög að undirbúningi seinna mótsins með þeim Stefáni Vilhjálmssyni á Akureyri.

Áðurnefnd mót voru haldin alls í 24 ár og Hólmavíkurmótið var hið átjánda. Þau voru haldin á ýmsum fögrum stöðum en stundum nokkuð fjarlægum, s.s. í Skúlagarði 1992, Núpi 1996, Djúpavogi 2003 og á Smyrlabjörgum 2008.

Það var mikið starf að undirbúa eitt slíkt mót og gætu frætt okkur um það ötulir liðsmenn eins og Sigurður dýralæknir Sigurðarson, Sigrún Haralds, Stefáns Vilhjálmsson, Bergur Torfason, Hermann Jóhannesson og svona gæti ég talið upp tugi nafna en margir eru horfnir frá okkur á þeim áratug sem liðinn er síðan mótið var á Húsavík haustið 2012.

Það varð síðasta mótið. Og heppnaðist vel eins og hin mótin, ólítið þakkarefni, en Jói heitinn í Stapa var frumkvöðull mótanna ásamt undirrituðum.

Og þökk sé Óskari og fleirum sem stóðu upp fyrir okkar orð og lögðu lið. Það skipti meginmáli og verður okkur sýnilegra með árunum og aldrei voru laun í boði við mótin en veislukvöldin urðu þó vegleg og lambakjöt var ævinlega haft sem aðalréttur.

Mig langar að minnast Óskars, þessa góða vinar og snjalla hagyrðings, með því að rifja upp vísu hans, orta í gestabók á Hólmavík morguninn eftir mótið glæsilega haustið 2006:

Að meitla rím og móta brag

margur gat og vildi:

Aldagamalt íslenskt fag

enn í fullu gildi.

(ÓS)

Ingi Heiðmar Jónsson.

Það var mikil eftirvænting hjá tíu ára sveitadreng vorið 1955, þegar ljóst var að Óskar á Hurðarbaki kæmi að Torfalæk til að verða ársmaður. Hann var þá nær hálfþrítugur og þótti með vöskustu ungum mönnum í sveitinni, þekktur fyrir skemmtilega kímnigáfu og orðheppni. Ég man að kaupið þótti hátt, sem var ársfóður og húsnæði fyrir hundrað kindur.

Mikið stóð til því byggja átti fjárhús og hlöðu fyrir 400 kindur og því verki þurfti að ljúka fyrir veturinn. Kappið var mikið, sérstaklega í steypuvinnunni, hrært í tunnu á sérstökum búkkum, allri möl og sementi lyft upp í tunnuna ásamt vatni, henni snúið og losað á pall. Upp í mótin var steypan borin í fötum eða keyrð í hjólbörum sem voru þungar og á járnhjólum. Seinna um haustið komu börur á gúmmíhjólum sem var bylting. Fyrir öllum sökklum var grafið með handverkfærum sem þótti ekki tiltökumál. Traktorinn á bænum var tíu ára gamall Farmall A og heyskapartækin, hestaverkfæri sem höfðu verið aðlöguð þeirri vél. Það var mikil handavinna við búverkin og taldi Óskar ekki eftir sér að taka til hendi. Á þessum tíma var fénu haldið til beitar og jafnvel staðið yfir því daglangt á veturna.

Á dagbókarblöðum föður míns frá þessum árum má sjá að Óskari varð nokkuð tíðförult til Blönduóss síðustu misserin sem hann vann hér og þær ferðir báru ávöxt. Guðný Þórarinsdóttir frá Blönduósi varð hans lífsförunautur þar til hún lést, 29. nóvember síðastliðinn.

Óskar vann hér á búi foreldra minna í þrjú ár til vors 1958, en þá keypti hann Meðalheim ásamt Birni bróður sínum. Bjuggu þeir saman fram til 1964 er Óskar og Guðný tóku reksturinn yfir og ráku í áratugi þar til yngsti sonur þeirra, Júlíus, tók við búrekstrinum. Í fjölda ára vann Óskar margvísleg störf utan heimilis, einna lengst hjá Trefjaplasti á Blönduósi.

Þeim Guðnýju og Óskari varð fimm barna auðið og komust fjögur til fullorðinsára, en eitt misstu þau í bernsku.

Um árabil tóku þau hjón, börn og unglinga í fóstur í lengri eða skemmri tíma og var umtalað hve þeir sem þar komu til dvalar náðu góðum framförum og þroska. Félagsmálayfirvöld víða af landinu sóttust eftir að koma börnum til þeirra og mun heildarfjöldi barna sem þar dvöldu vera um eitt hundrað. Víst er að umönnun þessara skjólstæðinga hefur mjög hvílt á herðum Guðnýjar en oft nefndi hún að án Júlíusar sonar þeirra sem bjó með þeim hefði þetta ekki tekist.

Þó að þau hjón hafi aðeins notið grunnskóla lærdóms voru þau í raun gagnmenntuð. Mér er minnisstætt að Óskar nam esperanto í bréfaskóla SÍS árin sem hann var á Torfalæk og oft mátti heyra hann gera framburðaræfingar við gegningar. Þá las hann allt sem hann komst yfir, en bókasafn lestrarfélags sveitarinnar var um tíma á bænum.

Kímni og orðheppni hans náðu að þroskast vel og er mjög víða að finna í kveðskap og ljóðum sem eru landsþekkt og þá sérstaklega í heimi hagyrðinga.

Við leiðarlok sendum við á Torfalæk fjölskyldu Guðnýjar og Óskars hlýjar samúðarkveðjur með þökk fyrir langa og vinátturíka samfylgd.

Blessuð veri minning þeirra hjóna,

Jóhannes og Elín.