Helguvík Kísilverið sem United Silicon byggði hefur ekki verið starfrækt frá því Umhverfisstofnun lét loka því vegna mengunar í september 2017.
Helguvík Kísilverið sem United Silicon byggði hefur ekki verið starfrækt frá því Umhverfisstofnun lét loka því vegna mengunar í september 2017. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Þótt ráðist verði í umfangsmiklar endurbætur á aðstöðu og rekstri kísilversins í Helguvík verður áfram óvissa um losun rokgjarnra lífrænna efna og áhrif þeirra á loftgæði, að mati Skipulagsstofnunar. Talið er að þessi efni hafi orsakað þá lyktarmengun og óþægindi sem íbúar í nágrenninu fundu fyrir á meðan verksmiðjan var í rekstri. Líklegt er talið að íbúar verði áfram varir við lykt en í minna mæli en áður. Núverandi bæjarstjórn er andvíg endurræsingu verksmiðjunnar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Þótt ráðist verði í umfangsmiklar endurbætur á aðstöðu og rekstri kísilversins í Helguvík verður áfram óvissa um losun rokgjarnra lífrænna efna og áhrif þeirra á loftgæði, að mati Skipulagsstofnunar. Talið er að þessi efni hafi orsakað þá lyktarmengun og óþægindi sem íbúar í nágrenninu fundu fyrir á meðan verksmiðjan var í rekstri. Líklegt er talið að íbúar verði áfram varir við lykt en í minna mæli en áður. Núverandi bæjarstjórn er andvíg endurræsingu verksmiðjunnar.

Lokið er nýju umhverfismati á rekstri og búnaði kísilversins í Helguvík sem rekið var undir merkjum United Silicon á sínum tíma en er nú í eigu Stakksbergs ehf. sem er í eigu Arion banka.

United Silicon reisti fyrsta áfanga verksmiðjunnar með einum ofni og 25 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Var ofninn gangsettur í nóvember 2016. Reksturinn var brokkgengur, meðal annars vegna mengunar sem íbúar í nágrenninu fundu fyrir, og Umhverfisstofnun lét að lokum stöðva reksturinn, tæpu ári eftir að hann hófst. Arion banki leysti til sín eignirnar og færði í félagið Stakksberg ehf., en rekstrarfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Áður en verksmiðjan var reist hafði verið gert hverfismat fyrir allt að 100 þúsund tonna verksmiðju sem reisa átti í áföngum.

Hár skorsteinn reistur

Stakksberg áformar í fyrsta áfanga framkvæmdar að gera tæknilegar og rekstrarlegar breytingar til að tryggja meiri stöðugleika í rekstri ofna og stuðla að bættum loftgæðum og minni lyktarmengun en áður var. Meðal annars er áformað að reisa háan skorstein til að losa útblástur. Síðar verður farið í stækkun í allt að 100 þúsund tonna ársframleiðslu í áföngum.

Fjöldi athugasemda barst í umhverfismatsferlinu, ekki síst frá íbúum í nágrenninu.

Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að áformaðar endurbætur séu líklegar til að draga úr rekstrartruflunum ofna sem sé lykilatriði til að draga úr áhrifum á loftgæði og lyktarmengun. Eins muni hár skorsteinn hjálpa til. Talið er að styrkur allra efna sem útreikningar Stakksbergs taka til verði undir viðmiðunarmörkum, bæði við rekstur núverandi verksmiðju og fullbyggðrar.

Stofnunin telur að meiri óvissa ríki um losun rokgjarnra lífrænna efna og áhrif þeirra á loftgæði en talið er að þessi efni hafi orsakað lyktarmengun og óþægindi sem íbúar fundu fyrir á sínum tíma. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhugaðar endurbætur muni draga umtalsvert úr losun efnanna og dreifingu þeirra. Hún telur þó líklegt að íbúar í Reykjanesbæ muni verða varir við lykt frá verksmiðjunni og að áhyggjur geti vaknað um heilsufarsáhrif. Leggur stofnunin áherslu á að upplýsingar um loftgæði verði aðgengilegrar og vel haldið utan um kvartanir. Bendir á að Stakksberg áformi að opna vefsíðu með niðurstöðum vöktunar og upplýsingum um frávik.

Vegna óvissu um áhrif vegna losunar rokgjarnra lífrænna efna og áhrif þeirra á loftgæði telur Skipulagsstofnun að veita ætti aðeins leyfi fyrir fyrsta áfanga verksmiðjunnar, þar til komin verður reynsla á rekstur hennar með breyttum búnaði og verklagi. Þá leggur stofnunin til að sett verði í starfsleyfi nokkur skilyrði um mengunarvarnir.

Skipulagsstofnun vekur athygli á því að með háum skorsteini verði verksmiðjan meira áberandi í landslaginu og við frekari uppbyggingu muni ásýnd taka enn meiri breytingum þannig að hún muni hafa verulega neikvæð áhrif. Beinir stofnunin því til Reykjanesbæjar og Stakksbergs að stefna að vönduðum arkitektúr og umhverfismótun við endurbætur á núverandi mannvirkjum og við frekari hönnun mannvirkja og lóðar verksmiðjunnar.

Bæjarstjórn andvíg ræsingu

Arion banki er eigandi Stakksbergs, eins og fyrr segir. Fyrirtækið hefur lengi verið til sölu en þess er krafist að kaupendur hafi þekkingu á slíkum rekstri.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur lagst gegn endurræsingu verksmiðjunnar. Afstaða núverandi bæjarstjórnar hefur ekki breyst við umhverfismatið. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri tekur fram að sjónarmiðum bæjarins hafi verið komið á framfæri með skýrum hætti við eigendur Stakksbergs.