Mótmæli Stuðningsmenn Djokovic komu saman við sóttvarnahótelið.
Mótmæli Stuðningsmenn Djokovic komu saman við sóttvarnahótelið. — AFP
Hópur fólks safnaðist í gær saman fyrir utan sóttvarnahótelið í Melbourne í Ástalíu þar sem tennisstjarnan frá Serbíu, Novak Djokovic, dvelur fram á mánudag, og mótmælti meðferðinni á honum.

Hópur fólks safnaðist í gær saman fyrir utan sóttvarnahótelið í Melbourne í Ástalíu þar sem tennisstjarnan frá Serbíu, Novak Djokovic, dvelur fram á mánudag, og mótmælti meðferðinni á honum. Eftir helgina er væntanlegur úrskurður dómara um það hvort heimilt sé að hleypa honum inn í landið án þess að hann uppfylli skilyrði stjórnvalda um bólusetningu gegn kórónuveirunni. Djokovic hyggst taka þátt í opna ástralska mótinu sem hefst mánudaginn 17. janúar.

Djokovic fullyrti á leiðinni til Melbourne að hann væri búinn að fá undanþágu frá reglunum og myndi keppa á mótinu. Það var ekki rétt og vöktu orð hans mikið uppnám í Ástralíu. Sagði forsætisráðherrann, Scott Morrison, að ríkið gerði engan mannamun. Ekkert væri hæft í fullyrðingu Djokovic og yrði honum vísað umsvifalaust úr landi ef hann kæmi án þess að uppfylla skilyrðin fyrir landgöngu. Eftir að Djokovic kærði móttökurnar á flugvellinum var ákveðið að hann dveldi á sóttvarnahóteli á meðan beðið væri niðurstöðu dómstólsins.

Málið hefur vakið þjóðernisólgu meðal Serba sem telja móttökur Djokovic í Ástralíu sýna andúð á Serbum. Alls kyns samsæriskenningar sem enga stoð eiga í veruleikanum hafa jafnframt fengið byr undir báða vængi. Efnt var til útifundar í Belgrad, höfuðborg Serbíu, og var faðir Djokovic meðal ræðumanna. Hann sagði að sonur sinn væri fórnarlamb pólitískra nornaveiða og „kórónuveirufasisma“.